Sælla er að gefa en þiggja!

Veistu Anna Lóa, stundum skil ég ekki konur. Ég mundi segja að ég væri draumaprinsinn pakkaður inn í sellófón en samt eru hlutirnir ekki að ganga upp. Er að deita þessa konu í dag og búin að hlaða á hana gjöfum og góðgæti, bjóða henni út að borða, senda henni blóm og rómantísk ljóð og ég veit bara ekkert hvar ég hef hana. Halló, hvað viljið þið konur eiginlega - getur þú sagt mér það?

Elsku vinur, VIÐ erum eins misjafnar og við erum margar og engin leið er sú eina rétta. Ég er svo langt frá því að vera sérfræðingur í samskiptum en reyni að vera meðvituð um að það sama hentar ekki öllum. Efast ekki um að HÚN er þakklát fyrir allt sem þú gerir en veistu  hvað skiptir hana máli? Stundum þegar við gerum eitthvað fyrir aðra þá gerum við það sem mundi henta okkur sjálfum en erum ekki að hugsa hlutina út frá hinum aðilanum. Svona samanber þegar við erum að velja gjafir til að gefa öðrum og endum á að kaupa það sem okkur langar í. Leiðin að hjarta annarra manneskju er að átta sig á því hvert hjartalag hennar er.

Ég held að í raun þurfum við að gefa okkur smá tíma í að skilja hvað það er sem skiptir hinn aðilann máli. Svo ég tali nú út frá mér þá finnst mér það stundum óþægilegt og fullmikið af því góða þegar það er allt í einu sprottin upp garðyrkjustöð í stofunni heima. Ekki að ég sé vanþakklát en hrós og hvatning og hjálp við eitthvað þegar ég á síst von á því, finnst mér á við milljón blómvendi. Mér finnst yndisleg tilfinningin þegar hinn aðilinn leggur sig fram um að gera eitthvað sem hann veit að skiptir mig máli. Bestu samböndin að mínu mati eru þegar báðir aðilar leggja sig fram um að komast að því hvað það er sem hinn aðilinn þarfnast eða líkar vel.  

Með því að ætla ekki hinum aðilanum að vera eða hugsa eins og við gerum erum við skrefinu nær að elska og gefa kærleika út frá öðru en að ,,næla“ í viðkomandi af því að maður er að gera allt það rétta.

Bíddu getur þú sagt þetta á íslensku kæra vinkona og í aðeins færri orðum!

SKO! Gefðu þér tíma í að kynnast konunni og hvað það er sem skiptir hana máli. Það er svo yndislegt að finna þegar einhver gefur sér tíma í að finna út hvað það er sem skiptir mann máli. Þetta krefst þess að þú hlustir, horfir og takir eftir því sem er í gangi í kringum hana. Slepptu því að lesa ,,10 leiðir til að ná í konu“ og ,,Hvernig á ég að fá hana til að falla fyrir mér“ og finndu öryggið þitt. Trúðu því að þú sért elsku verður og bestu samböndin ganga ekki út á að við séum að gera það eina rétta - frekar að við séum að leggja okkur fram um að kynnast annarri manneskju og gefa henni þess sem hún þarfnast til að finnast hún elsku verð. Sælla er að gefa en þiggja.

Við dettum oft í þá gildru að miða okkur við aðra þegar kemur að samböndum. Finndu út ykkar leið fyrir ykkur og slepptu því að miða þig við aðra. Þannig að kæri vinur - svarið við spurningunni er; hættu að reyna að komast að því hvað ALLAR konur vilja og reyndu frekar að komast að því hvað það er sem gleður ÞESSA konu!

Þangað til næst - gangi þér vel.

Anna Lóa Ólafsdóttir

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid