Puntudúkka í París

Ég var ekki viss um hverju ég átti að pakka niður, vor í París en norska veðurspáin sagði rigning - og ekki lýgur hún. Sumarkjólar og sandalar eða regnföt og gúmmískór. Stóð með þunnan sumarkjól í annarri og regnbuxur í hinni og sagði upphátt við sjálfa mig: rigning í París, dæmigert fyrir mig eitthvað!!!

Ég fann strax að hún var þarna bak við mig og þegar ég sneri mér við sagði hún; Anna Lóa, dæmigert fyrir þig HVAÐ! Hvers konar heimtufrekja er þetta og hvernig getur þetta verið dæmigert þegar þú hefur aldrei komið til Parísar áður!! Unga kynslóðin í dag hugsar ekki um neitt annað en sjálfa sig; hvað fæ ég, mér finnst að ég eigi að fá, ég á rétt á. Og á ekki bara að reyna að stjórna veðrinu líka - ómögulegt fyrir svona puntudúkku eins og þig að fá rigningu í París. Hvað varð um þakklæti og þolinmæði, gjafmildi og gleði. Hvað varð um góðar dyggðir og heilbrigð gildi. Hvað var um „að sníða sér stakk eftir vexti“ og „hirða garðinn sinn“.

En bíddu - hvað hefur þetta með mig og Parísarferðina að gera?

Hún var rétt að byrja: ALLT, já þetta hefur allt með þig og París að gera. Hraðinn er svo mikill í dag og allir vilja allt núna - gott veður, NÚNA takk, á það svo skilið. Já já nú á allt að veita okkur gleði og það strax í dag og á meðan hefur enginn tíma til að leggja á sig nokkurn skapaðan hlut þannig að fólk fer á mis við að leggja sig fram í nútíðinni til að auka líkur á hamingju til frambúðar. Svo eru bara allir að skilja í dag, það var ekki gert þegar ég var ung. Og svo segir fólk; já en ástin var ekki til staðar lengur í hjónabandinu......hahaha og hvenær varð það ástæða til að skilja. Heldur fólk virkilega að hér í mínu ungdæmi hafi allir verið að kafna úr ást. Ó nei, þetta er vinna og aftur vinna en nú vill fólk bara að kærleikurinn sé í takt við annað; já hann skal vera auðfenginn, auðmeltur, veita ómælda gleði og sýni á áþreifanlegan hátt að hann borgi sig - annars er þetta bara ekki þess virði. Hvað varð um að kærleikurinn væri eilífðar verkefni í skóla lífsins sem inniheldur bæði sorg og gleði, þægilega jafnt sem óþægilega hluti og getur verið langt frá því að vera áþreifanlegur. Maður tekur ákvörðun um að elska en með því er maður að segja að maður sé tilbúin að sýna kærleika í verki og hugsun. Þá leggur maður eigingirnina til hliðar og setur hagsmuni annarra manneskju til jafns eða jafnvel framar sínum eigin - heyrir þú það, FRAMAR sínum með það að markmiði að báðir aðilar nái að þroskast og dafna. Nei nei, nú viljið þið bara fara í IKEA og kaupa kærleikann á tilboðsverði - fyrstur kemur, fyrstur fær!!

Nei sko, sjáðu til......ég var nú bara að tala um veðrið í París....

Nei þetta er ekki BARA um veðrið í París vinan mín - þetta er Ísland í dag. Ég var 65 ára þegar ég fór fyrst til útlanda, 65 ára. Heldur þú að ég hafi farið og athugað hvernig veðrið var í Stokkhólmi áður en ég lagði af stað? Nei, ég þakkaði Guði fyrir að fá að fara þessa ferð!! Ef það er rigning í París þá klæðir þú þig í regngalla og ef þér verður kalt þá getur þú hlýjað þér í einhverjum af þessum dásamlegu kirkjum sem eru þarna og þakkað almættinu í leiðinni fyrir að fá að heimsækja þessa stórkostlegu borg. Nú benti hún á kjólinn: og miðaldra kona á göngu um götur Parísarborgar í allt of efnislitlum og stuttum kjól er ekki landkynningin sem við Íslendingar þurfum á að halda núna, og hananú!!

Hún var farin eins snöggt eins og hún birtist.

Andar liðinna tíma heimsækja mig reglulega. Þeir halda mér jarðtengdri, minna mig á hvað það er sem skiptir máli og hrista upp í mér þegar ég sé heiminn út frá sjálfri mér. Ég brosti út í annað, henti regnbuxunum og sumarkjólnum ofan í tösku leit upp til himins og sagði; Merci madam - veit þó alla vega að kjóllinn slær í gegn!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid