Peysuslysið í IKEA!

Kannist þið ekki við að þurfa stundum að taka ákvarðanir þar sem púkinn og samviskuengillinn þvæla ykkur fram og til baka. Í mínu tilviki er því þannig háttað að púkinn vill að ég taki áhættur, fari ekki endilega eftir því sem er satt og rétt og innleiði heilsusamlegt kæruleysi inn í líf mitt. Samviskuengillinn er algjörlega ósammála þessu, ekkert kæruleysi, rétt skal vera rétt og síðast en ekki síst þá bendir hann mér á að þegar ég fari eftir púkanum lendi ég oft í klandri. Púkanum finnst vanta allt ,,fútt“ í líf mitt á meðan samviskuengillinn bendir mér á að ég ráði ofsalega illa við ,,fútt“.

Það voru kompudagar hjá mér um daginn, m.ö.o. ég að taka til í skápum og þvottahúsi. Þá komu í ljós munaðarlausir jakkar, frakkar, kápur og hettupeysur sem hafa gleymst hérna í gegnum tíðina og enginn vitjað aftur og nú styttist í ættleiðingaferli af hálfu Rauða krossins. Þar sem ég er að fara yfir fatnaðinn kem ég auga á fallega kápu, sem mér sýndist meira að segja vera í minni stærð. Ég máta kápuna og hún smellpassar, já eins og ég hafi keypt hana sjálf. Af hverju var ég ekki búin að taka eftir þessari fyrr! Er það glæpur ef ég stelst í henni til RVK? Hver ætti svo sem að fatta það! Um leið og þessi síðasta hugsun hafði farið í gegnum hugann poppaði púkinn upp og sagði: Anna Lóa, auðvitað ferðu í kápunni, hvað ætti svo sem að geta gerst. Hverjar eru líkurnar á því að sú sem á kápuna sé einmitt á sama stað og þú. Púkinn var varla búinn að sleppa orðinu þegar samviskuengillinn poppaði upp og sagði: HVERJAR eru líkurnar - þær eru miklar! Anna Lóa, ef það er hægt að lenda í einhverju neyðarlegu þá lendir þú í því. Varstu búin að gleyma IKEA-peysuslysinu hér um árið.

Ég var 18 ára og átti kærasta. Ég var í skóla og vann í IKEA um helgar en þá var verslunin lítið horn í matvöruverslun Hagkaupa í Skeifunni. Eina vinnuhelgina fórum við kærastinn út á lífið og í stað þess að keyra mig heim var ákveðið að ég skyldi gista hjá honum og hann skutla mér heim snemma morguninn eftir svo ég gæti klætt mig í vinnudressið. Við sváfum yfir okkur - enginn tími til að keyra mig heim og nokkuð ljóst að mér var vandi á höndum. Djammdressið var engan veginn að gera sig í IKEA, þrátt fyrir að vera nýtískulegt og framsækið fyrirtæki. Kærastinn kom með lausn við þessu - hljóp fram og kom að vörmu spori með þá allra skrautlegustu peysu sem ég hafði augum litið. ,,Mamma á þessa - þú færð hana bara lánaða“ og þegar ég spurði hvort hann hefði beðið um leyfi svaraði hann fljótt ,,þarf þess ekki, henni er alveg sama“. Peysan var með tíglamunstri og litirnir eins og auglýsingaspjald fyrir vetrarlínu Hörpu. Rautt, grænt, blátt, gult og allt mjög kaldir og sterkir litir. Peysan fór mér ekki vel og mér leið eins og jólatré, allt of áberandi eitthvað. En hún varð að duga svo það var brunað af stað og á leiðinni sönglaði ég ,,allt sem er rautt rautt, finnst mér vera fallegt, fyrir vin minn, litla indíánann“.

Samstarfsfélagar mínir hrukku við þegar ég mætti enda var þessi nýja múndering mjög ólík svörtu/gráu línunni minni sem var í setteringu við bastið og plastið í IKEA. Ég útskýrði fyrir þeim hvað hafði gerst um morguninn og segi svo ,,nú skulum við bara vona að mamman mæti ekki á svæðið“ og allir hlógu. En AUÐVITAÐ mætti mamman nákvæmlega á þessum degi að versla í Hagkaup Skeifunni. Ég sá til hennar í dósadeildinni og bað guð og góða vætti að hana vantaði ekki Snack plastkassa í dag. En það var sama sagan fyrir 30 árum og í dag, fólki vantar alltaf eitthvað í IKEA og ég reyndi að fela mig milli pottaleppa og viskustykkja þar sem hún nálgaðist. Það reyndist erfitt útlítandi eins og skreytt jólatré svo fyrr en varði stóð hún beint á móti mér, starði á peysuna, brosti hálf vandræðalega og sagði ,,mikið ertu fín í dag vinan“. Það mátti heyra saumnál detta inni í litla IKEA-horninu og samstarfsfólk mitt hélt niðri í sér hlátrinum þegar ég svaraði ,,syni þínum fannst ég ekki nógu litrík“. Það mátti heyra flissið frá samstarfsfólkinu sem fannst ég bráðfyndin en það sama var ekki hægt að segja um ,,tengdó“. Henni fannst ég ekkert fyndin og ég fann hvernig ég hrapaði um mörg stig á tengdadætra-einkunnaskalanum.

Ég ætla ekkert að fara nánar út í það sem gerðist eftir þetta en eigum við ekki bara að orða það þannig að sambandinu var ekki ætlað að endast. Ég fæ enn kjánahroll í búsáhaldadeildinni í IKEA og hef átt erfitt með að klæðast litríkum fötum allar götur síðan og útskýrir af hverju ég er ein af örfáum konum sem klæðist alltaf svörtu eða gráu!
Ég speglaði mig í kompu-kápunni, dáðist að því hvað hún fór mér vel. Hugsaði svo um hvernig mér þætti ef upp að mér kæmi ung kona og segði: mikið ertu fín í dag vinan! tók því næst kápuna, hengdi hana upp og hvíslaði að henni í leiðinni: við skulum bara bíða eftir að mamma þín komi að sækja þig elskan, það verður bara ,,fútt“ hjá mér seinna!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa