Óreiða og innra eftirlit!

Anna Lóa, ertu í einhverjum meiriháttar framkvæmdum. Er búin að sjá þig bera hluti inn og út úr bílskúrnum og svo gat ég ekki betur séð en þú værir líka á fullu að mála. Hvað stendur eiginlega til!

Jú sjáðu til, ég er að hreinsa til í hausnum á mér - innra eftirlitið lét í sér heyra!

Hún horfði á mig með undrunarsvip og segir: bíddu, gerir þú það úti í bílskúr, er ekki auðveldara að fara bara í slökun eins og flestir!

Nei nei, sjáðu til vinkona. Nú er komið sumar (alla vega samkvæmt dagatalinu) og þá þarf maður að hreinsa til. Búið að vera mikið að gera hjá mér í vetur og ýmislegt setið á  hakanum, innra sem ytra. Svo ég byrja á því að hreinsa í kringum mig hið ytra og þá fylgir hitt á eftir. Þú veist hvernig tilfinning það er að keyra um á grútskítugum bíl - manni líður ekkert sérlega vel. Þegar þú þrífur hann lyftist brúnin, þér líður betur og allt annað að keyra bílinn.

Hausinn og húsið okkar eru svipuð - þegar þar er fullt af drasli þá líður okkur ekki nógu vel. Með því að minnka óreiðuna hið ytra líður mér betur hið innra og finnst ég hafa betri stjórn á hlutunum. Það þýðir líka minni streita, fallegra umhverfi, fyrir utan að það auðveldar mér að halda hreinu. Svo er fullt af hlutum sem ég þarf að losa mig við og passa að láta ekki tilfinningasemi hlaupa með mig í gönur. Veistu ég stend mig að því að færa drasl á milli staða í húsinu og svo fer ég með það út í bílskúr og finnst eins og ég sé að henda hluta af sjálfri mér þegar ég fer með það út á hauga. Samt hef ég ekki haft not fyrir hlutinn í nokkur ár!  Svo er gamalt skóladót kapítuli út af fyrir sig - mér líður eins og ég sé beinlínis að henda í burtu heilasellunum mínum með því að láta það frá mér.  

Svo nú er ég að henda hlutum sem mér finnst ekki passa hjá mér lengur, fötum sem eru löngu komin úr tísku og passa jafnvel ekki á mig lengur, og taka draslskúffurnar í gegn. Ég er að einfalda heimilið eins mikið og ég get og einfalda þar með líf mitt í leiðinni. Við þurfum ekki allt þetta dót.

En svo skiptir líka máli að vaða ekki úr einu í annað í þessu ferli - það getur bara aukið enn frekar á óreiðuna. Taka eitt herbergi fyrir í einu og klára það en vera ekki að klóra yfir á mörgum stöðum í einu. Þegar ég er í fullkominni óreiðu þá labba ég á milli herbergja og geri sitt lítið af hverju í þeim öllum og klára ekki neitt algjörlega. Veit vel að til að auka á innri ró og einbeitingu þá verð ég að klára eitt í einu þrátt fyrir að ég sé orðin hundleið á því. Mikil áskorun fyrir fiðrildi eins og mig.

Svo er það nú bara einu sinni þannig að þegar við erum með mikið pláss þá erum við með mikið drasl - fyllum upp í tómt rými með drasli vina mín. Það losnaði hjá mér eitt herbergi í fyrra og í stað þess að hafa það uppábúið og fínt handa gestum er öllu hent þar inn og nú „gista“ í rúminu jólaseríur og ljósapíramídar og það er kominn júní! Nei nú skal tekið til hendinni vinkona - þetta er alveg á við nokkra tíma í meðferð skal ég segja þér.

Vinkonan horfir á mig; já þú segir nokkuð, hugsa sér, og hér hef ég bara haldið að ég væri að þrífa og skipuleggja í gegnum tíðina. Nei nei, ég hef þá allan tímann verið að laga til í hausnum á mér!  Aumingjans fólkið sem lætur aðra þrífa heima hjá sér - ætli það átti sig á hvað það er að fara á mis við!

Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid