Ökufanturinn og hugsanalesarinn!

Hugsanir okkar geta valdið okkur vanda – og sömu hugsanir geta átta greiðan aðgang að okkur ef við gagnrýnum þær ekki eða spyrjum okkur hvort þær séu endilega sannar eða réttar. Við getum þannig bundist sömu hugsunum árum og áratugum saman án þess að athuga sannleiksgildi þeirra. Ég hef komist að því oftar en einu sinni að ókannaðar hugsanir geta verið beinlínis lífshættulegar ef við könnum ekki sannleiksgildi þeirra.

Ég sótti hana út á Seltjarnarnes á nýja bílnum sem ég var með í prufukeyrslu í sólarhring. Hún settist í framsætið og lýsti ánægju sinni með valið – leit út fyrir að vera traustur og góður bíll. Vissi að hún var hrædd með mér í bíl – hafði haft orð á því nokkrum sinnum að henni fyndist ég keyra of hratt. Ég fór rólega af stað en þegar ég var komin niður á Granda gaf ég bílnum aðeins inn og viðbragðið kom mér á óvart. Bíllinn kipptist við og ég sé hvar hraðamælirinn fer óðara upp í 80, þá 90 og ég steig á bremsuna til að hægja á, en ekkert gerðist. Bíllinn var kominn yfir 100 km hraða og svartur strókur steig aftan úr honum þegar ég reyndi aftur að stíga á bremsuna. Ég áttaði mig á að eitthvað mikið var að og þrykkti á bremsuna til að ná hægri beygju inn hliðargötu. Í sama mund öskraði ég „bensínið er fast í botni“....og hún öskrar strax á móti „dreptu á bílnum“. Um leið og ég hafði drepið á bílnum hægði hann smá saman á sér og stöðvaðist loks alveg. Við sátum frosnar í sætunum og sögðum ekki orð í fyrstu, hárið sleikt aftur og augun á stilkum. Svo gat ég loks stunið upp úr mér „Ég held ég kaupi ekki þennan bíl, en af hverju sagðir þú ekkert, ég var komin upp í 110 km hraða og einhverja hluta vegna fattaði ég ekki að drepa á bílnum“.

Hún:
Ég settist inn í bílinn og líkaði strax við hann. Smá kvíðahnútur því mér finnst hún stundum keyra of hratt en í þau skipti sem ég hef sett út á keyrsluna hennar verður spenna á milli okkar og oft eins og hún ögri mér í framhaldinu. Ekki núna, þetta á að vera góður dagur og ég veit að hún er spennt að sýna mér bílinn. Keyrðum sem leið lá niður á Granda og erum varla komnar inn á götuna þegar hún stígur bensínið í botn. Verð kannski að sýna því skilning að hún er að prófa bílinn, en fyrr má nú aldeilis. Bíddu, er ekki 60 km hámarkshraði og mín komin upp í 80 km, já og bíddu 90 km. Hún er að ögra mér, ég læt eins og ekkert sé. Já, já, farðu bara upp í 100 km, tralala læt þig ekki ná mér, keyrðu bara eins og vitleysingur, segir meira um þig. Bíddu ætlar hún að drepa okkur, hvað er að henni, ég veit bara að ég stíg aldrei upp í bíl með henni aftur, aldrei......guð minn góður 110 km......og ætlar hún að beygja!!! Þetta er vitfirring af verstu gerð, vá hvað hún gengur langt!! Anda inn – anda út, ekki láta hana ná stjórn á tilfinningum þínum! Skerandi öskur truflar hugsanir mínar „bensínið er fast í botni“ og ég og öskra strax á móti „dreptu á bílnum“.

Bílnum var skilað – farið var yfir atburðarásina aftur og aftur og við sammála um að þarna hefði geta orðið stórslys.

Hugsanir gera okkur ekki mein fyrr en við trúum þeim eins og um staðreyndir sé að ræða – það getur hreinlega verið lífsspursmál að kanna sannleiksgildi þeirra.
Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid