Ó ó, æ æ, aumingja ég!

„Hann er með þessa dæmigerðu „karlaflensu“, æ þið vitið, þessa  venjulegu flensu sem stökkbreytist þegar hún leggst á hann og heimilið er undirlagt. Þið vitið hvernig þetta er stelpur mínar þegar þessar elskur verða veikir þá verða þeir svoooooo veikir“. Við hlógum allar og tókum undir þetta og gott ef ég muldraði ekki: þessir karlar mar, þessir karlar (rétt eins og sjómaðurinn í Fóstbræðraþáttunum sem reyndi að selja umheiminum að hann væri ofursvalur harðjaxl þegar sannleikurinn var að tilfinningasamari og viðkvæmari mann var varla hægt að finna).

Ég tilheyri kynslóð sem hefur ótakmarkað skotleyfi á karlmenn þegar brandarar og grínsögur eru annars vegar. Þá er gjarnan tekið fyrir of mikil eða lítil karlmennska, skortur á tilfinningasemi og virkri hlustun, útlit, framkoma, vankunnátta þegar kemur að heimilisverkum, barnauppeldi, félagsfærni, ofuráhersla á kynlíf og síðast en ekki síst, hversu veikir þessar elskur verða. Margt af því sem við konur „megum“ gera grín af í fari karla mundi teljast sem argasti dónaskapur og kvenfyrirlitning væri því beint frá þeim til okkar og þarna gildir jafnréttið engan veginn. Þegar ég set status um veikindi á FB fæ ég samúð og hjúkrunarleiðbeiningar en karlmenn fá iðulega að heyra að þeir séu að krydda hlutina og skuli hætta þessu væli. Mýtan um veikindi karla er lífsseig og gamansögurnar ófáar.

Staðreyndin er hins vegar allt önnur á mínu heimili. Fjölskyldan hefur verið frekar lánsöm þegar kemur að heilsunni en við fáum þessar klassísku flensur og annað sem stór hluti þjóðarinnar lendir í. Þegar ég verð veik er ekki gaman að vera í kringum mig. Það verður „engin“ eins veikur og ég, taugakerfið fer í rúst og eins og hendi sé veifað breytist ég í rauðþrútna og skælandi smástelpu sem kemst með erfiðismunum í  gegnum langa og erfiða daga. Mér finnst annað heimilisfólk tillitslaust og eigingjarnt því það sinnir ekki þörfum mínum – sem ég á ekki að þurfa að nefna því það liggur í augum uppi hvað það er sem mig vantar! Ljótan, fitan, fýlan og Grýlan eru algengir fylgifiskar í veikindunum svo það skellur á ein allsherjar tilvistarkreppa þessa nokkra daga á ári.

Ég er meðvituð um þetta og reyni í dag að takmarka samskipti við aðra því þau eru ekki vænleg til árangurs. Fæ almennilega tilfinningaútrás við systur mínar en þær forðast að setja fram röksemdir eins og „Anna Lóa mín, þetta gæti verið svo miklu verra“ eða „hugsaðu þér alla sem eiga við alvarleg veikindi að stríða“. Á þessum tímapunkti finnst mér ég vera mjög alvarlega veik og þarf því ekki á svona að halda. Synir mínir hafa lært að það borgar sig að vera lítið heima við (enda ánægðir að hafa bílinn minn) en eru þeim degi fegnastir þegar aftur sér til sólar og mamma skrapar sér saman í frumeintakið af sjálfri sér. Sjálfir takast þeir á við veikindi sín af mun meira æðruleysi.  

Á milli flensufaraldra er ég hins vegar hörð í horn að taka og þoli illa allt væl og veikindaraus og sletti fram setningum eins og „ég er nú svo heppin að ég verð aldrei veik“ eða „veikindafrí, hvað er nú það, MAÐUR mætir bara í vinnuna“. Ég átti það til að senda syni mína veika í skólann hér í gamla daga með þau skilaboð að þeir ættu að herða sig – þetta væri ekkert til að tala um. Sonur minn er duglegur að minna mig á þegar ég ætlaði að senda hann „lífshættulega“ veikan í skólann en amma hans „bjargaði“ honum.  Ég sýni mun minni samúð en ég ætlast til að fá sjálf og minni viðkomandi á hversu heppinn hann sé þrátt fyrir allt að fá þó BARA flensu. „Svona, svona“  og bank á öxlina, eru klassísk viðbrögð hjá mér, viðbrögð sem fengju mig í sömu aðstæðum til að afhenda viðkomandi reisupassann í ákveðinn tíma.

Ég ætla því að nota tækifærið og biðja karlmennina í lífi mínu afsökunar og viðurkenna það að þegar ég er veik þá er ég illa haldin af „smástelpuflensu“.
Þessar stelpur mar, þessar stelpur!!  

Þangað til næst – gangi þér vel.

Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid