Notaðu inniröddina kona!

Ég veit að ég á það til að tala hátt og mikið og þegar mér er mikið niðri fyrir þarf ég að passa mig sérstaklega því ég á það til að beita útiröddinni minni ótæpilega. Vinur minn segir að þegar ég er í þessum ham þá haldi hann símanum langt frá eyranu og ef hann er innan um fólk þá er ég í beinni útsendingu með það sem mér liggur á hjarta. En þetta hefur sína kosti. Ég get talað fyrir fullum sal af fólki án þess að þurfa míkrófón og nemendur mínir sofna yfirleitt ekki í tímum því það er nánast líffræðilega ómögulegt. En ég hef fengið gagnrýni fyrir að vera of hávær og verið beðin um að nota inniröddina oftar. Jú, jú, ég á líka mína innirödd sem ég nota við aðstæður þar sem reiknað er með lágstemmdari stemningu. Yfirleitt gengur mér vel að greina slíkar aðstæður en það hefur alveg komið fyrir að ég hafi farið raddvillt og lent í aðstæðum þar sem ég hefði átt að hrópa upp yfir mig en beitti í staðinn hljóðlátu, ljúfu inniröddinni sem átti engan veginn við!

Ég var í sundi í gamla heimabænum og var að fækka klæðum inni í búningsklefanum. Það var nýbúið að skipta um klefa þannig að nú var ég stödd í gamla karlaklefanum sem var mun rúmbetri en sá sem konur höfðu til afnota áður og karlpeningurinn sat uppi með „litla“ klefann okkar. Þessi breyting var vel kynnt því allir gerðu sér grein fyrir því að manneskjan er einn vani og ekki ólíklegt að einhverjir strunsi inn í sama klefa og gert hafi verið árin á undan. Þar sem ég er orðin fáklædd þarna í klefanum og á leið í sturtuna heyri ég söng úr sturtunni og það var engin kvenmannsrödd þar á ferðinni. Ég geri mér strax grein fyrir að einhver karlinn hafði ruglast og stóð nú undir bununni í kvennaklefanum. Ég hljóp fram til að finna starfsmann sem var ekki sjáanlegur og rauk aftur inn í klefa. Labbaði að sturtunum, stóð á bak við skáp og með minni ofur ljúfu og lágu inniröddu segi ég „afsakið, afsakið, en þú ert eitthvað að villast“. Karlmannsröddin tók nýjar hæðir í söng og greinilegt að þar voru engar áhyggjustunur á ferð. Ég reyndi hóstið, ofur kvenmannslega hóstið, en áfram söng minn maður. Ég hélt áfram að hósta pent og segja „afsakið, þú ert í vitlausum klefa“ en orðin runnu í niðurfallið með vatninu. Ef það var einhvern tímann ástæða til að nota víðfrægu, djúpu útiröddina og hrópa  „HEI, ÞÚ ERT Í KVENNAKLEFANUM KARLINN MINN“ þá var það þarna. Það næsta sem gerðist var að maðurinn kom úr sturtunni og auðvitað setti hann ekki handklæði um sig miðjan þegar hann var búinn að þurrka sér  – hann skellti því um hálsinn og labbaði að skápunum ennþá raulandi fyrir munni sér. Það var einmitt þá sem ég ákvað að koma úr „felum“ !

Ég geri mér svo vel grein fyrir því að það er ekki mér að þakka að vesalings maðurinn (sem var örugglega á níræðisaldri) skyldi komast eins vel frá þessu og raun bar vitni. Viðbrögðin þegar hann sá mig minntu einna helst á afrískan bongódans. Honum brá svo að hann ætlaði að hlaupa allsnakinn út úr klefanum með mig og mína innirödd á hælunum „þetta er allt í lagi sko, þetta er allt í lagi“. En af hverju notaði ég ekki útiröddina og gerði honum grein fyrir aðstæðum mun fyrr? Jú, því ég hafði áhyggjur af því að manninum mundi bregða svo mikið – og hugsunin var sú að það væri örugglega þægilegra fyrir hann að koma labbandi inn í búningsklefann á sprellanum og svo á réttu augnabliki mundi ég stökkva fram og segja ofur ljúflega „úps, þú ert í kvennaklefanum“.

Niðurstaðan – inniröddin er klárlega ofmetin !

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
www.facebook.com/Hamingjuhornid