Meistaralega magalendingin!

Þeir eru til sem telja ketti ekki geta lært neitt og ganga jafnvel svo langt að segja að þeir séu hreint og beint heimskir. Ég held aftur á móti að þetta séu lúmskar skepnur og þarna úti séu nokkrir vel lesnir kettir á ferðinni sem vita meira en margur maðurinn. Tilgátu mína byggi ég á því að kettir í nágrenni við mig eru einkar hrifnir af því að dvelja í bílskúrnum mínum og hvað geymi ég þar - jú heilu stæðurnar af skólabókum og verkefnum frá námsárum mínum. Kettirnir sem hafa komið við í bílskúrnum fá þó yfirleitt frekar stutt lestrarnæði þar sem mjálmið kemur oftast upp um þá og áhyggjufullir eigendur gengið á hljóðið og hrifsað þá úr akademískri draumaveröld. Held satt best að segja að mjálmið sé oft á tíðum vellíðunarstuna þeirra þegar þeir átta sig á því að nýtt líf gæti beðið þeirra handan við bílskúrshurðina þar sem ný þekking hefur aukið á sjálfstraustið og sú tilfinning ríkjandi að þeir séu skrefi á undan öðrum köttum í hverfinu.

Það beið mín miði heima um daginn þar sem áhyggjufullur nágranni bað fólk um að líta í kringum sig eftir kettinum sínum sem væri búinn að vera týndur í nokkra daga. Mitt fyrsta verk var að fara út í bílskúr og athuga hvort kisi væri nokkuð þar að sökkva sér í lestur um trúarbrögð heimsins, danska málfræði eða persónulega og félagslega erfiðleika unglinga.

Þegar ég kom út í bílskúr voru engin ummerki um kött, bækurnar allar á sínum stað og ekkert vellíðunar- né áhyggjumjálm heyrðist í þetta skiptið. Mér fannst það í raun pínulítið óþægilegt því það gæti þýtt að kisi væri þarna inni, nýbúinn að fletta í gegnum karatebók sonar míns og mundi stökkva fram án nokkurrar viðvörunar og taka duglega á mér, já og auðvitað túlka það sem sjálfsvörn. Sú tilhugsun gerði mig satt best að segja órólega svo ég hálf læddist um skúrinn og fann hvernig hjartað sló hraðar en venjulega. Ég færði til plötur og garðyrkjuáhöld, leit á bak við hillur og ofan í kassa. Tók fram afgangs parketborð og skoðaði vel þar á bak við og þá fannst mér ég heyra eitthvað þrusk - stökk í hálfhring og beitti handleggjunum eins og ég hafði séð Bruce Lee gera í einum af sínum stórkostlegu bíómyndum. Við þessa tilburði mína lem ég í parketborðið sem lendir á hurðarrofanum og ég sé mér til skelfingar hvar bílskúrshurðin byrjar að lokast.

Á meðan hurðin lokast hægt og rólega fer í gegnum huga minn: guð minn góður, ég er að lokast hér inni og brjálaður köttur í árásarhug einhvers staðar í felum bíður færis - ég MÁ ekki lokast hér inni. Ég veit bara að á þessu augnabliki varð ég að komast út og tók tvö til þrjú risastökk og þeim fylgdi öskur sem vinur minn Bruce Lee hefði verið stoltur af. Ég næ að hurðinni sem nú er komin frekar neðarlega og sé að ég má engan tíma missa. Kasta mér í gólfið og rúlla mér undir hurðina og lendi á maganum fyrir utan rétt í þann mund sem hurðin lokast.

Ég hljóp upp tröppurnar heima og er í mikilli geðshræringu þegar ég limpast niður við eldhúsborðið þar sem sonur minn kemur að mér, hárið upp í loftið og bremsuför á brjóstkassanum og segir: HVAÐ kom eiginlega fyrir?
Ég leit á hann og segi skjálfandi röddu, enn í mikilli geðshræringu:  ég lokaðist næstum inni í bílskúr með klikkuðum ketti þegar ég ýtti óvart á hurðarrofann. Þú hefðir átt að sjá mig, þar sem ég kastaði mér undir hurðina svona rétt áður en hún lokaðist, og endaði í meistaralegri magalendingu á bílaplaninu.

Sonur minn horfði á mig og út úr augum hans mátti lesa: almáttugur, ertu í alvörunni móðir mín! Svo sagði hann afar rólega, já svona rétt eins og hann væri að tala við fimm ára barn: mamma mín, þú veist að hurðarrofinn sem þú notar til að loka bílskúrshurðinni má líka nota til að opna hurðina!
Kettirnir hafa ekki komið við hjá mér lengi. Trúi því helst að þeir hafi orðið vitni að magalendingunni góðu og ég hafi algerlega brugðist væntingum þeirra sem „homo sapiens“. Sé þá í anda horfa á mig liggjandi á maganum og segja: hugsa sér, svo er því haldið fram að kettir séu heimskir!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid