Með vanvirkan sleppibúnað!

Það getur verið mikilvægt að sleppa takinu á ákveðnum hlutum, láta þá lausa og skera á böndin. Stundum verðum við að sleppa börnunum okkar, leyfa þeim að reka sig á og vera ekki þroskaþjófar þegar þau eru að takast á við lífið. Við gætum þurft að sleppa stöðum eða hlutum sem eiga ekki lengur við og tilheyra öðru lífi. Þá getum við þurft að sleppa fólki, ástinni sem brást og vinum sem fóru aðrar leiðir. Við getum þurft að sleppa því að stjórnast í fjölskyldunni og átta okkur þar með á því að líklega geta aðrir séð um sig sjálfir.

Mér hefur ekkert tekist sérlega vel að sleppa, hvað þá að leyfa öðrum að stjórna. Ég vil hafa hlutina á minn hátt reyni að sveigja og beygja aðra til hlýðni. Er meðvituð um þetta og er svo sannarlega að reyna að taka mig á. Ég fór í æfingabúðir í því að treysta öðrum fyrir stjórninni þegar ég fór í dansskóla hér um árið. Kennarinn minnti mig oft á að ég væri erfiður nemandi, karlmaðurinn ÆTTI að stjórna og ég yrði að læra að sleppa. Mér fannst þetta alls ekki rétt því ég hafði taktinn í mér og það fór allt í vitleysu þegar ég leyfði dansfélaganum að ráða ferðinni. Það var ein undantekning og það var þegar við dönsuðum tangó. Það má líkja því við dauðasynd að ætla sér að taka stjórnina af karlmanni í tangó, og félagi minn fékk yfir sig einhverja ólýsanlega karlmennsku og þokka þegar hann tók mig í fangið og stýrði mér eftir gólfinu í tignarlegum tangósporum. En ok – thats it – tangó og svo sé ég um hitt!

Svo var það á Menningarnótt fyrir nokkrum árum að ég og systir mín ákváðum að rölta niður í bæ og meðal þess sem við ætluðum að gera var að sækja salsakennslu á veitingahúsi í miðbænum. Við mættum tímanlega á staðinn en það var búið að tjalda stóru partýtjaldi í garðinum og þar inni sat fjöldinn allur af fólki. Við fengum sæti og stuttu eftir að við komum mættu þrír ungir menn sem fengu að setjast við borðið hjá okkur. Svo hófst biðin eftir kennslunni og þegar það voru komnar tuttugu mínútur fram yfir uppgefinn tíma segir einn af mönnunum við borðið „eigum við ekki bara að skella okkur á gólfið“ og beindi orðum sínum til mín. Það kom hik á mig – við yrðum fyrsta og eina parið á gólfinu og engin kennsla í gangi. Ég lét þó til leiðast og út á gólfið fórum við og tókum hald. Það var nokkuð ljóst að dansherrann minn hafði ekki farið á námskeið en orð danskennarans af salsanámskeiðinu glumdu í eyrum mínum „Anna Lóa, þú verður að leyfa herranum að stjórna“. Ég fann strax að þetta mundi aldrei ganga og ef ég gripi ekki inn í mundu fljótlega óma sársaukastunur um salinn í stað suðrænnar tónlistar og tærnar mínar ekki bera þess bætur í náinni framtíð. Því kastaði ég fram tilboði sem ekki var hægt að hafna „hvað segir þú um að ég kenni þér salsa, er nýkomin af námskeiði?“. Það kom mér á óvart hvað hann var fljótur að afhenda mér stjórnina og við tók kennsla með tilheyrandi talningu, einn og tveir, einn og tveir – KROSSA. Við náðum meira að segja einum snúningi og handa-opnu (þar sem við slengjum bæði öðrum handleggnum út tilbúin að faðma heiminn og slá alla í nærumhverfinu)! Ef einhver bíður eftir rómantískum lýsingum í takt við seiðandi suðræna taktinn þá fór lítið fyrir þannig tilburðum. Herrann leit varla í augu mér, held satt best að segja að hann hafi ekki séð andlitið á mér almennilega svo fast starði hann niður á fæturna á meðan hann taldi samviskusamlega.

En það var yndislegt að sjá hvað öryggið jókst þegar hann var kominn með tökin á þessu og engu líkara en ég væri með daðurs-laust eintak af Don Juan de Marco þarna í fanginu.
Víkur nú að systur minni þar sem hún situr við borðið og horfir á mig taka stjórnina á dansgólfinu með tilheyrandi talningu og handapati. Þá heyrir hún til fólksins á næsta borði segja „hei, kennslan er byrjuð, komiði“. Þegar ég steig út á dansgólfið og hóf að telja og stjórnast álitu þau sem svo að salsakennarinn væri mættur á svæðið og fylgdu mér því eftir á gólfinu. Ekki leið á löngu þar til allir á dansgólfinu dönsuðu eins og við Don Juan og systir gat ekki betur séð en hver konan á fætur annarri tæki stjórnina og teldi í réttum takti ofan í herrann sinn. Ég var gjörsamlega ómeðvituð um „nemendur“ mína enda fullt starf að passa upp á talninguna og tærnar á sama tíma. Ég skildi því ekki af hverju systir var að kafna úr hlátri þegar ég sneri til baka eftir nokkur lög!

Skilaboðin eru skýr en ég tel að stundum sé viðeigandi að sleppa og leyfa öðrum að taka stjórnina en það er allt í lagi að taka hana til baka þegar það á við. Að sama skapi er það styrkleiki að viðurkenna að stundum er stjórninni betur komið í höndum annarra. Ég er því sannfærð um að danskennslan mín á menningarnótt hafi markað ákveðin tímamót í jafnréttisbaráttunni og konur hiki síður við að sveifla dansherrum sínum í takt við suðræna sveiflu þegar það á við. Heill sé þér, Don Juan de Marco!


Þangað til næst – gangi þér vel!
Anna Lóa