Madame de Beauvoir í kaffi!


„Ætli þetta gangi upp, hvað með börnin hans, börnin mín, er hann á nógu stórum bíl, eigum við nógu stórt húsnæði, þyrfti ég að fara að vinna meira, fresta náminu mínu, flytja út á land eða kannski úr landi, ætli fjölskyldan hans muni kunna við mig! Hvað með klæðaburðinn, jú það þarf að breyta því og hver klippir hann! Pólitíkin úff, aðeins of mikið til hægri fyrir minn smekk, koma honum í skilning um að jafnaðarstefnan sé eina vitið, hum les ekkert og hreyfir sig lítið, ok spilar golf, ég get það,  og hvað með sumarfríin, vá kostar slatta að fara með allt þetta lið til útlanda, hvað ætli við þénum í sameiningu,  já já þetta gæti alveg gengið – smá breytingar hér og þar og málið er leyst, ég hef líka svo góða aðlögunarhæfileika, elska börn, er ágætis húsmóðir og læt þetta ganga upp“.

Í stað hefðbundins stefnumóts tók við greining og flokkun ásamt þaulskipulögðu matskerfi sem gerir það að verkum að ég er löngu komin af stefnumótinu og inn í hausinn á mér. Aumingja maðurinn heldur að ég sé að brosa og kinka kollinum vegna greinagóðrar lýsingar á síðustu jeppaferð hans um hálendi Íslands á meðan sannleikurinn er sá að ég brosi vegna þess að ég mundi allt í einu eftir vinkonu sem fór í frí til Florida og leigði þar þennan stóra bíl fyrir alla fjölskylduna sem rúmaði 9 manns. Þá væri það leyst – gætum tekið allan skrílinn í fantagóða Floridaferð!!

Þegar ég kom heim þetta kvöld var franski fáninn á eldhúsborðinu, hálf tóm rauðvínsflaska og þarna sat hún og horfði á mig með rannsakandi augum – Simone de Beauvoir – ok hún er látin en hún var föst í kollinum á mér þessi baráttukona sem lagði svo mikla áherslu á að við þyrftum að finna fyrir eigin frelsi til að skilja og virða frelsi annarra. Mér leið eins og Beauvoir hefði verið með mér á stefnumótinu og væri nú að taka mig á eintal: Amour, amour (fórnaði höndum hér) Anna Lóa, hlustaðu nú; þú veist að þegar við ætlum að breyta lífi okkar í nafni ástarinnar til að hinn fullkomni samruni geti átt sér stað ættum við að hlusta á varnarbjöllurnar sem hringja hátt og snjallt. Þú veist að þegar við ætlum að beygla hvort annað í einhver form sem ætti að sýna fram á hvað við erum ofboðslega ástfangin og sköpuð fyrir hvort annað erum við á villigötum. Í stað þess að hver og einn fái að vera sá sem hann er dettur okkur jafnvel í hug að sambandið muni ganga upp ef viðkomandi er eins og ég vil að hann sé – við verðum eitt þar sem hluti af mér rennur saman við hann.

Þegar fólk hættir að taka sjálfstæðar ákvarðanir og allt er gert á forsendum hins aðilans eru það einmitt merki um óöryggi sem leiðir af sér ójafnvægi í sambandinu. Þá og einmitt þá þurfum við að ná í öryggið okkar og muna hvað við stöndum fyrir, hver við erum sem manneskjur og hvort virðing fyrir eigin sjálfi sé nógu mikil til að við gefum ekki líf okkar upp á bátinn fyrir aðra. Þegar okkur líður eins og við getum ekki án hins aðilans verið þurfum við einmitt að passa upp á að eiga stundir með okkur sjálfum því sú manneskja sem getur ekki verið ein með sjálfri sér á lítið eftir handa öðrum. Náðu í öryggið þitt stelpa, confiance Anna, CONFIANCE, labbaðu á fjöll, skrifaðurmeira, hittu vini þína og finndu þinn innri styrk og þrótt, svo ekki sé talað um frelsið og sjálfstæðið sem gerir þig sterkari og öruggari. Sá sem hefur nógu mikið öryggi til að halda sérkennum sínum þrátt fyrir að opna hjarta sitt fyrir öðrum á meiri möguleika á heilbrigðu sambandi við jafningja sinn en sá sem fórnar eigin sjálfi fyrir annan aðila. Mundu einstaklingsfrelsið –  Vive la liberté!

Hausinn á mér var sá eini sem fór í Flórídaferðina forðum daga – gaurinn hafði vit á því að forða sér og ég vit á því að hunskast upp á fjöll og finna sjálfa mig aftur.

Þangað til næst – gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér – http://www.facebook.com/Hamingjuhornid