Lögreglan stöðvaði hjóna-leik

Ég skrifaði pistil hér um daginn þar sem ég benti á að í samböndum skipti miklu máli ákveðið magn af leik og húmor. Vinur minn hringdi í mig eftir að pistillinn birtist og sagði að hann hefði nú aldeilis tekið þetta til sín og hann hefði ákveðið að nú skyldi hann leika sér meira og auka hlátur og gleði í lífinu. Svo bætti hann við; en þetta getur nú alveg haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för mér sér Anna Lóa mín. Hlustaðu nú:

Ég fór að hitta gamla vinnufélaga um daginn. Yndislegt að hitta allt þetta góða fólk og mikið skrafað á milli þess sem við dreyptum á víni og borðuðum góðan mat. Makarnir mættu svo síðar um kvöldið og allir skemmtu sér vel. Við frúin ákváðum síðan að labba heim, anda að okkur fersku lofti um leið og við spjölluðum um góða félaga og gamla tíma. Talið barst einmitt að því hversu miklu máli skiptir að taka sjálfan sig ekki of alvarlega, njóta alls þess góða sem maður hefur í lífinu og hafa svolítið gaman að þessu öllu. Þessi stund var góð en eitthvað vorum við nú lengur á labbi en við höfðum gert ráð fyrir og frúin farin að kvarta undan kulda. Veit ég ekki fyrr hún segir; ætla að hlaupa aðeins á undan þér og sjá hvort ég nái ekki í mig smá hita. Mér fannst þetta frábært hjá henni enda alltaf verið þessi hvetjandi eiginmaður.

Ég sá undir iljarnar á henni þar sem hún hljóp á undan mér og allt í einu var hún horfin sjónum mínum. Þegar ég geng áfram sé ég svo glitta í tærnar á henni á bak við skilti og áttaði mig á því að hún var að bregða á leik og ætlaði að fela sig. Minnugur þess hversu leikurinn er mikilvægur tók ég strax vel í feluleikinn og þóttist ekki sjá hana fyrst en þegar ég nálgaðist hana kallaði ég hátt og skýrt: ég sé þig, sérð þú mig og fann á augabragði hvernig leikgleðin og barnið í mér vöknuðu til lífsins. Hún stökk fram og við gátum hlegið saman og ekki laust við að okkur liði eins og frjálsum unglingum en ekki miðaldra afa og ömmu!

Höldum við áfram ferð okkar létt í bragði og ánægð með hvort annað. Þá vitum við ekki fyrr en lögreglubíll rennir upp að okkur og út stökkva tveir lögregluþjónar. Þeir bera upp erindi sitt en þeir höfðu fengið tilkynningu um konu sem væri á flótta undan manni og væri í örvæntingu sinni að reyna að fela sig á bak við skilti. Það fylgdi sögunni að maðurinn æddi áfram í bræði sinni og kallaði: „ég sé þig“, og því skipti máli að lögreglan kæmi hratt og örugglega á staðinn!!

Við útskýrðum fyrir laganna vörðum að það væri frábært að samborgarar pössuðu upp á hvorn annan en í þessu tilviki hefði einungis verið um glens og gaman að ræða. Ekki laust við að ég hugsaði til þín Anna Lóa og ráðleggingar um leik og gleði. Kannski þú ættir að bæta við nýjum pistli um að það þurfi að huga vel að stað og stund og saklaus leikur gæti í versta falli litið út fyrir að vera eitthvað allt annað fyrir þá sem verða vitni að. Annars erum við frúin hvergi af baki dottin. Erum enn að fikra okkur áfram og segjum bara; leikurinn lengi lifi.

Ég tek vin minn til fyrirmyndar og held nú út í sólina og sumarið með leikinn í farteskinu. Tók dans-göngu um daginn og það var ekki bara gleðilegt fyrir mig heldur alla sem urðu á vegi mínum og enginn sem tilkynnti athæfið. Uppskriftin: góð tónlist og svo labbar maður og dansar í leiðinni. Hægt að kíkja á dæmi á netinu undir „dance walking fitness“.

Óska ykkur gleðilegs sumars, með slatta af leik og húmor. Nú fer ég í smá frí og „hitti“ ykkur hress og kát í ágúst.

Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid