Lissabon-Munchen-London-Kef!

Stundum hef ég á tilfinningunni að sá sem öllu ræður ákveði að leggja fyrir okkur mannfólkið sérstök verkefni  til að prófa okkur. Þannig séu það ákveðnir dagar sem fari í að æfa þolinmæðina, aðrir þegar heiðarleikinn er tekinn fyrir og svo er það geðprýðin. Svo held ég að það geti alveg gerst að maður sé settur í eitt allsherjar próf þar sem allir þessir þættir og meira til sé prófað á manni. Tekst manni að halda glasinu hálf fullu þegar á móti blæs!

Held að þetta hafi bara byrjað strax um morguninn – illa sofin og langur dagur fyrir höndum. Ég  og samstarfsfélagi á leið heim eftir nokkurra daga fundarsetu í útlöndum og alltaf gott að koma heim. Á flugvellinum í Lissabon ákvað ég að kaupa mér vatnsflösku og borgaði með 20 evrum. Fékk 2 evrur til baka þar sem afgreiðslustúlkan stóð föst á því að ég hefði borgað með 5 evru seðli. Ég stóð á mínu en hún neitaði að opna kassann aftur og talaði við mig eins og ég væri að gera tilraun til að svíkja út milljónir. Ég veit ekki enn þann dag í dag hvor hafði rétt fyrir sér en ég drakk vatnið eins og um dýrustu kampavínsflösku væri að ræða og svei mér þá ef það bragðaðist ekki aðeins öðruvísi en vanalega. Glasið enn hálf fullt.

Flugum til Munchen og áttum pantað flug þaðan til Íslands. Þar tók við ótrúleg atburðarás: biðum  í röð eftir að fá nýtt brottfaraspjald, en komumst að því að við vorum ekki bara í vitlausri röð – við vorum líka í röngum terminal. Keppnismenn í hlaupum hefðu verið stoltir af því að ná þeim hraða sem við náðum í bjartsýnistilraun að ná fluginu,  en þegar við náðum í terminal 1 var flugið okkar farið og ekkert flug til Íslands næstu daga. Nokkuð ljóst að við þyrftum að kaupa nýja miða og okkur var ráðlagt að fara aftur í terminal 2 á efri hæð, þegar þangað var komið var okkur ráðlagt að fara á neðri hæð, nú eitthvað hefur þeim fundist við geta hreyft okkur meira því aftur vorum við sendar upp á þá efri. Keyptum nýjan miða, og þá tók við leit að töskunum. Fórum í gegnum tollinn, inn í töskusal, biðum en engar töskur, út aftur. Þurftum að tékka okkur inn aftur, anda inn og út og bíða eftir brottför til London sem yrði áfangastaður okkar á leið til Íslands! Aðeins byrjað að leka úr glasinu – en ekkert alvarlega!

Flugum til London og fundum til  léttis þegar Íslendingar fóru að vera áberandi svo ekki sé talað um íslenska landsliðið í fótbolta sem var á leið heim eftir að hafa spilað leik á móti Albönum. Loksins gátum við aðeins slakað á og kíkt í búðir. En áður en við vissum af var komið á skjáinn: gate is closing! Ég sá undir iljarnar á samstarfsfélaga mínum sem ætlaði ekki að missa af tveimur flugum á sama sólarhringnum – enn eitt íþróttaafrekið þann daginn. Glasið hálf-fullt aftur.

Það er alltaf ótrúlega notalegt að koma um borð í íslenska flugvél - sérstaklega þegar heimaslóðirnar virtust fjarlægur draumur fyrr um daginn. Náðum vélinni og ég fékk sæti með landsliðsfyrirliðann öðrum megin við mig og annan skotglaðan leikmann hinum megin. Fylltist öryggistilfinningu – íslenska seiglan og baráttuviljinn holdi klædd, einmitt það sem ég þurfti. Ég ætlaði að slaka á og njóta þess að vera innan um íslensku glaðværðina eftir frækilegan sigur á Albönum við erfiðar aðstæður. Þeir gætu sagt mér hvernig væri að spila sundbolta í þrumum og eldingum og ég deilt ótrúlegu ferðasögunni minni. Já kannski gæti ég deilt eitthvað af reynslu minni og visku og bent þeim á hvað það skipti miklu máli að sjá glasið hálf-fullt en ekki hálf-tómt. Já kannski yrði ég bara næsti ráðgjafi íslenska landsliðsins........

Fyrirgefðu fröken; það var yndisleg flugfreyja sem ýtti við mér og vakti mig úr dagdraumum mínum: má ekki bjóða þér að færa þig, nóg pláss hér fyrir framan og alveg óþarfi að þið sitjið svona þröngt. Hvað átti ég að segja: neeeeeei, ég vil vera hérna hjá strákunum! Kannski ekki alveg það sem maður gerir í þessum aðstæðum enda gæti það svo auðveldlega misskilist á þessum síðustu og verstu. Stóð upp og færði mig og kvaddi „næstum“ skjólstæðinga mína og nýja starfsferilinn. Er ekki frá því að glasið hafi orðið hálf-tómt einmitt þarna – ég er jú bara mannleg!

Þangað til næst – gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér – http://www.facebook.com/Hamingjuhornid