Látum grímuna falla

Sunnudagskvöldið síðasta horfði ég á þátt í sjónvarpinu sem vakti mig til umhugsunar. Þátturinn Hrafnhildur skildi svo margt eftir sig, en hann fjallaði um kynleiðréttingu og baráttu Hrafnhildar við sjálfa sig og kerfið. Mér fannst þetta snúast um að þora að stíga inn í óttann og þannig skrefið í átt að sjálfum sér. Það er ekki auðvelt að taka niður grímuna og viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum hver maður er. En í því felst engu að síður mikið frelsi - frelsið til að geta verið maður sjálfur. Áhorfendur fengu tækifæri til að fylgjast með hvernig er að þurfa að upplifa sig í öðru skinni í djúpri ósátt við sjálfan sig. Að þora ekki að segja frá af ótta við höfnun en stíga svo inn í óttann og gera það sem þurfti. En allt snýst þetta um tilfinningar og þær einskorðast ekki við Hrafnhildi. Hversu mörg okkar bera grímu - hrædd við að vera við sjálf, þrátt fyrir að þegar við tökum niður þessa grímu að þá uppgötvum við frelsið sem fylgir því að hætta að reyna að búa til einhverja mynd af okkur sem er ekki sönn.

Í raun og veru eigum við það til að vera mjög ósanngjörn gagnvart okkur sjálfum þar sem við eigum til að hafna okkur eins og við erum og reynum í staðinn að fylla upp í tómleikann sem myndast með alls kyns hlutum, fólki, hugmyndum, hugsunum og athöfnum. Erum óttaslegin við að vera hafnað þegar samfélagið kemst að því að við erum ekki fullkomin þrátt fyrir að við vitum að það eru óraunhæfar og ómanneskjulegar kröfur. Við ætlumst aldrei til fullkomnunar af fólkinu í kringum okkur en samt gerum við oft þessar kröfur á okkur sjálf. Hvað er fullkomnun og hver eru viðmiðin okkar? Þegar við erum ósátt við okkur sjálf fer oft mikil orka í að reyna að breyta öðru fólki, umhverfi okkar og aðstæðum. Við getum ekki hvílt sátt í eigin skinni og erum sífellt að reyna að búa til einhvern heim sem á að gera líf okkar betra. Erum nokkuð viss um að það verði allt betra ef makinn breytist eða þegar við kaupum nýjan bíl, nýtt hús eða nýja skó, losnum við nokkur kíló, börnin flytja að heiman, börnin flytja aftur heim, fáum stöðuhækkun, nýja vinnu o.s.frv. Við erum dómharðari á aðra og gleymum því þá gjarnan að sá sem dæmir aðra er sá sem dæmir sjálfan sig verst.
Þegar við svo samþykkjum okkur eins og við erum og hættum að leitast við að vera eitthvað annað,  finnum við fyrir sátt í eigin skinni. Þá skapast ró og innri kyrrð og lífið verður mun einfaldara. Við eigum auðveldara með að nálgast fólk tilfinningalega og leyfa okkur að tengjast öðrum á eðlilegum forsendum. Þá getum við hælt og hrósað öðrum og stendur ekki ógn af þeim sem gengur vel í lífinu. Þurfum ekki að tala aðra niður til að upphefja okkar eigið ágæti. Verðum betri uppalendur og leyfum börnum okkar að reka sig á í stað þess að vera þroskaþjófar sem stjórna og stýrast í öllu. Erum tilbúin að læra af lífinu, stækka okkur sjálf og aðra í leiðinni.

Gríman er okkur fjötur um fót og tefur fyrir hamingjuríkara lífi. Það er svo mikilvægt að átta sig á því að besta eintakið af okkur er frumeintakið af okkur sjálfum en ekki afrit af manneskju sem við höldum að aðrir verði hrifnir af. Hvernig væri ef við mundum ákveða að taka okkur í sátt í októbermánuði 2012 - því kannski verður lífið hvorki betra né verra en einmitt þá. Eða eins og var spurt í samnefndri bíómynd: What if this is as good as it gets!

Það getur vel verið að þú lesandi góður kannist ekki við að bera grímu og þá er ástæða til að óska þér til hamingju með það. Persónulega hef ég borið þær nokkrar en þeim hefur fækkað með árunum. Ef þú aftur á móti kannast við að bera grímu þá hvet ég þig til að taka hana niður. Það er heilmikill léttir sem því fylgir og ég get lofað þér því að um leið og þú tekur hana niður þá dettur þér ekki í hug að setja hana upp aftur.

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
www.facebook.com/Hamingjuhornid