Landcruiserinn er 10.000 merkur og 450 cm!

Hæ Anna mín, langt síðan ég hef heyrt í þér. Hvað er að frétta??
Nú bara fínt, ég var að koma frá Englandi, vinnuferð manstu!!
Jaaaá, alveg rétt!Þú varst búinn að gleyma því að ég var úti, er það ekki??
Anna mín, svona, svona, þú ert alltaf einhversstaðar, hvernig á maður að muna þetta allt!
Heyrðu vinur, það er ekki málið, ég held satt best að segja að stundum heyrir þú bara annað hvert orð sem ég segir. Ég skal veðja við þig að þegar ég segi: ég er að fara á fund til Englands á miðvikudaginn, þá heyrir þú: ég fara fund miðvikudaginn! Ég bý með tveimur karlmönnum og það er ekki af ástæðulausu sem ég set á Facebook  tilkynningar varðandi utanlandsferðir.

Oftar en mig langar að muna er ég búin að lenda í þeim aðstæðum að ég er að pakka niður í tösku og synir mínir segja í forundran: bíddu, hvert ert þú að fara? Já, svona rétt eins og ég sé að yfirgefa þá fyrir fullt og allt án þess að hafa gefið nokkra viðvörun um að sambúð okkar væri lokið. Þegar ég svo segi: munið þið ekki, ég er að fara til Englands á fund!! þá standa þeir saman eins og síamstvíburar og svara í kór: þú varst aldrei búin að segja OKKUR það. Með því að setja tilkynningar á FB er ég með vitni að því að heilasellunum fækkar ekki eins hratt og ég hræðist stundum. Ekki að ég ætli að alhæfa fyrir helming mannkyns kæri vinur, en mér finnst stundum eins og þið karlmennirnir munið bara hluti sem vekja áhuga ykkar og annað fari í tóma hólfið sem tekur endalaust við, HA! Sýna manni smá áhuga - er til of mikils mælst!

Ok, ok Anna mín, það má vel vera að ég þurfi að hlusta betur á þig og leggja mig fram um að muna það sem þú segir. En velkomin heim vinkona!! Annars hringdi ég líka til að segja þér að ég var að kaupa mér nýjan bíl. Keypti mér drauma jeppann, Landcruiserinn sem ég hef oft sagt þér að mig langaði í. Þú manst það alveg er það ekki!

Auðvita man ég það - frábært, til lukku!
Takk takk, draumabíll fyrir fjallageitina mig. Við erum að tala um álfelgur, ABS hemla, aksturstölvu, brettakanta, dráttarbeisli, driflæsingar, hita í sætum, talstöð, auka olíutank með sjálfvirku sogi, kastara, ljósahlífar, gluggavindhlífar, geymslukassa........

Ok stopp,  til hamingju, hljómar allt voða vel en geymdu smáatriðin fyrir einhver sem veit um hvað þú ert að tala. En mig minnti að þetta hafi ekki alveg verið á dagskrá hjá þér núna!
Nei ekki alveg, en ég keypti bílinn af Kalla. Nú þegar þau eru búin að eignast barn númer fjögur, eða var það fimm, þurfa þau strumpa-strætó. Hann er ekkert á leiðinni upp á fjöll á næstunni.
Bíddu, bíddu, er Sigga búin að eiga!! Hún var ekki skrifuð fyrr en í lok október, og akkúrat hvenær í símtalinu ætlaðir þú að segja mér að vinir okkar væru búnir að eignast barn?
Anna mín, RÓLEG! Ég talaði nú bara við Kalla í vikunni, ekki eins og barnið sé að fermast!
OG HVAÐ??

Hvað meinarðu, og hvað??
Oh karlmenn, nú stærð, þyngd, hvernig gekk fæðingin, hvernig hefur Sigga það, barnið......
Anna, hallóóóó, við Kalli ræddum mest um bílinn. Ég var nú einu sinni að kaupa af honum bíl manstu! Hringdu bara í þau eða kíktu á Facebook?? Hvað heldurðu að ég sé að spyrja um þessa hluti!!
Ertu að grínast í mér, ok, en allavega, hvort áttu þau stelpu eða strák?
(Löng þögn) OK Anna Lóa, fókusinn á það sem skiptir máli hérna! Þau eignuðust BARN, heilbrigt barn og það var pottþétt annað hvort stelpa eða strákur!! Og svona bara af því að þú varst að tala um mikilvægi þess að sýna áhuga - þá er Landcruiserinn uþb 10.000 merkur og 450 cm. Takk fyrir að spyrja!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid