Káta litla og kæliboxið!

Það var vor í lofti og óvissuferð með vinnufélögunum framundan. Allur dagurinn í góðum félagsskap þar sem gleðin yrði við völd og ég undirbjó mig líkamlega og andlega fyrir þessa árlegu skemmtiferð. Andlegi undirbúningurinn fólst aðallega í að hvíla sig og spara sig aðeins í aðdraganda ferðarinnar á meðan sá líkamlegi fólst í praktískum hlutum eins og mat, klæðnaði og útivistargræjum. Ég og vinur minn bárum saman bækur okkar og vorum sammála um að það væri sniðugt að vera saman með eitt kælibox fyrir drykkjarföng og nesti í stað þess að vera bæði að rogast með slíkt og var ákveðið að ég skyldi vera með „minibarinn“ meðferðis og hann ætlaði að græja glös, dúk og servíettur í stíl.

Það var ljóst að það var verið að tala um tveggja manna birgðir og þyrfti kæliboxið að vera í stærra lagi. Ég hringdi í „útivistarhöfðingjann“ í minni fjölskyldu, bróður minn og bað um að fá eitt slíkt lánað og varð hann við þeirri bón. Vissi sem var að hann hafði ekki sérstaklega góða reynslu af því að lána útilegudótið sitt því annað hvort var því skilað seint eða það kom í slæmu ástandi til baka. Ég þakkaði honum því kærlega fyrir og lofaði að hann fengið boxið strax daginn eftir og auðvitað í topp standi - ég væri þessi áreiðanlega týpa.

Dagurinn var yndislegur og kvöldið ekki síðra. Óvissan reyndist í þetta skiptið vera fyrir austan fjall og var glatt á hjalla og boxið góða og undirbúningurinn fyrir ferð gerði að verkum að við vinirnir bárum af þegar kom að stíl og stuði - vorum alveg með‘etta! Minibarinn var smekklegur og innihaldið gerði að verkum að við urðum glaðari eftir því sem leið á daginn og kvöldið. Það voru því glaðbeittir en þreyttir vinir sem lögðust á koddann eftir rúman hálfan sólarhring í skemmtilegheitum, „high five“ á þetta og svo rotuðumst við!

Vorum ekki alveg eins rishá þegar við vöknuðum daginn eftir og ekki laust við að það væri enn einhver óvissa í kollinum á okkur. Ég bjó í Reykjavík og vinur minn í Keflavík svo það þurfti að koma honum og boxinu góða til síns heima. Þegar ég fer að hreinsa mini-barinn sá ég mér til hryllings að kæliboxið var brotið - já já risa sprunga eftir því endilöngu og engu líkara en ég hefði uppgötvað stærðar jarðsprungu eftir endilöngu stofugólfinu hjá mér þegar ég sá þetta, slík voru viðbrögðin. „Ég skila ekki bróður mínu brotnu boxi, það er á hreinu“. Vinur minn reyndi að róa mig og benti mér á að þetta væri bara kælibox en ég leit á hann með augnaráði sem sagði; ef þú heldur virkilega að þetta snúist bara um þetta kælibox þá ertu engan veginn að átta þig á samhengi hlutanna. Þetta snýst um traust, virðingu, trúverðugleika, þroska, óeigingirni og áreiðanleika......bara BOX my .......!!

Fann að vinur minn hugsaði (af því að ég get lesið hugsanir munið þig) almáttugur Anna Lóa, hvað það hlýtur stundum að vera erfitt að vera þú, en hafði vit á því að segja: þá förum við bara og kaupum annað alveg eins BOX og málið er dautt.

Þá erum við komin að seinni hluta þessarar sögu sem nefnist; BOX-leitin mikla. Við þræddum útivistarbúðir í Reykjavík og fundum fullt af allskyns kæliboxum en ekkert eins og þetta. Okkur vantaði jú dökkblátt BOX með hvítu loki - ekki flókið hefði maður haldið en auðvitað hefur BOX-maðurinn endilega þurft að búa þau til í öllum öðrum litum og stærðum.

Seinnipart dags játaði ég mig sigraða en datt þá í hug að hringja í bróðurson minn og leita ráða og spyr hvort hann viti hvar pabbi hans hafi keypt BOXIÐ. Hann hlustaði á örvæntingarfulla frænku sína og spyr svo: ertu að tala um bláa BOXIÐ með hvíta lokinu? Ég jánkaði því á sama tíma og ég bað til Guðs að hann hafi ekki flutt þetta með sér frá Noregi hér um árið - reiknaði strax í huganum að þetta yrði þá líklega dýrasta kælibox sögunnar - Osló here I come!!!

Þá segir frændi: Anna Lóa mín, hlustaðu nú vel, ég á reyndar þetta BOX, fékk það gefins þegar ég var að vinna í útivistarbúðinni hér um árið - af því að það var BROTIÐ!!!!!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid