Jólakveðja

Hún birtist á altarinu í turkís bláum kjól og hárið liðaðist fallega niður eftir bakinu þar sem hún tiplaði berfætt eftir kirkjugólfinu. Það hefði mátt heyra saumnál detta þegar hún hóf upp raust sína og fyrstu tónarnir svifu út í loftið. Hárin risu og maður fann hvernig andinn kom yfir mann – jólaandinn í öllu sínu veldi og það var Eivör Pálsdóttir sem söng hann inn í hjarta kirkjugesta í miðnæturmessu þetta laugardagskvöldið. Það mátti sjá tár á hvarmi þegar hún söng lag til minningar um föður sinn sem lést fyrr á árinu, þar sem kærleikurinn og einlægnin skinu í gegn. Það er eitthvað alveg sérstakt við þessa söngkonu, röddin, útlitið og framkoma hennar kalla fram mynd af engli í mínum huga. Ég fer ósjálfrátt að hugsa um eitthvað fallegt og finn fyrir þakklæti og kærleika í hjarta mínu. Er það ekki einmitt þetta sem jólin snúast um! Að við stöldrum við og nærum andann, með því að njóta lista, matar, félagsskapar og annarra hluta sem gera það að verkum að okkur langar að verða aðeins betri manneskjur. Er þetta ekki tíminn sem við eigum að gera sem minnst og njóta sem mest og leyfa andanum að koma yfir okkur! Hvort sem við erum trúuð eða ekki þá er þessi dimmasti tími ársins einmitt góður til að tendra ljós og skoða hvað það er sem skiptir okkur máli. Ef við hugsum til baka til barnæskunnar og hvaða minningar við höfum um jólin þá tengjast þær yfirleitt einföldum hlutum en hér þarf að sjálfsögðu að taka mið af því að í sumum tilvikum eru minningarnar hvorki bjartar né góðar. Þegar ég hugsa til baka eru það rauð epli, mandarínur, malt og appelsín, slöngulokkar og nýr náttkjóll sem kemur upp í hugann. Það vekur líka upp góðar minningar að fá að setja upp jólatréð með föður mínum og dansa í kringum sama tréð með allri fjölskyldunni. Messan í útvarpinu kl.18.00 var á sínum stað, svuntan á mömmu og pabba og síðast en ekki síst, spennan í kringum jólasveininn.

Þegar ég rifja upp þessa tíma kemur upp í huga mér þakklæti. Ég er þakklát fyrir að eiga góðar minningar um jólin því ég veit að það á ekki við um alla. Ég er þakklát fyrir að hafa í framhaldinu búið til mínar eigin hefðir sem eru sambland af barninu í mér og þeirri manneskju sem ég er í dag og hef lagt grunn að góðum minningum fyrir syni mína. Ég er þakklát fyrir að hafa fólk í kringum mig sem þykir vænt um mig og langar að vera í kringum mig á jólunum sama hvar ég hef sjálf verið stödd á þessum tíma, andlega jafnt sem veraldlega. Ég hef þurft að læra að slaka á og átta mig á því að það skiptir meira máli að setja upp jólatréð í ákveðinni jólastemningu í staðinn fyrir að henda því upp svo ég geti merkt við á „to do“ listanum mínum. Ég hef áttað mig á því að fólkið mitt kann miklu frekar að meta gjafir og kort frá mér sem ég hef lagt hluta af mér í, í stað þess að leggja hlutabréf í. Ég hef áttað mig á því að besta gjöfin er hvorki innpökkuð né dýr og að fátt er eins yndislegt og að upplifa kærleika og frið með fólkinu sínu á þessum tíma.

Það sem ég hef talið upp hér að framan kemur ekki af sjálfu sér. Ég hef þurft að skoða hvað það er sem skipti mig máli í lífinu og finna svo út hvernig ég get fylgt því eftir. Ég hef þurft að vera meðvituð um að næra sjálfa mig fyrst til að eiga nóg eftir handa öðrum því það sem einkennir vel nærðan mann er hæfileikinn til að deila með öðrum. Jólin og áramótin eru tími sem er gott að skoða þessa hluti, hvað er ég sátt við, hverju vil ég breyta og hvað þarf ég að gera til að koma þessum breytingum á. Við eigum öll skilið gleðileg jól og til þess að fá sem mest út úr þeim þurfum við að átta okkur á hvað það er sem veitir okkur gleði. Ég hvet þig lesandi góður til að taka þá ferð á hendur því lífið er einu sinni þannig að við getum alltaf breytt því til betri vegar.

Það var söngur engilsins Eivarar, sem var kveikjan að þessum pistli og það er ekki efi í mínum huga að ef maður opnar fyrir leiðsögn annarra varðandi lífið og tilveruna, þá koma leiðbeiningarnar í hraðpósti. Líf okkar er í endalausri sköpun, svo framarlega sem við erum vakandi fyrir umhverfinu, hugsum út fyrir þægindahringinn okkar og hlustum á hvað aðrir hafa að segja.

Megi jólin verða þér og fjölskyldunni yndislegur tími.

Með jólakærleikskveðju
Anna Lóa Ólafsdóttir