Hvaða rembingur er þetta alltaf!

Ég spurði hana hvort hún hefði ekki sótt um starfið - hljómaði eins og draumastarfið fyrir hana. Hún svaraði; æ nei, þetta var ekki fyrir mig! Svo skorti mig reynslu á einu sviði svo í stað þess að vera eitthvað að svekkja mig á þessu vitandi að það fær örugglega einhver annar starfið þá ákvað ég bara að sleppa þessu. Svo þoli ég ekki að fara í viðtöl, mundi pottþétt klúðra því og svo er ferilskráin mín er líka orðin gömul!

Ég leit á hana; já ok, og þér finnst kannski ekkert athugavert við að hugsa svona!! Nú þurfum við aðeins að tala um að koma þér út fyrir þægindahringinn þinn.

Hún hvessti á mig núna; Anna Lóa, hvað með að vera bara sáttur með sitt, þarf maður alltaf að vera að rembast eitthvað!!

Ég skildi nákvæmlega hvað hún var að fara og vissi að nú þyrfti ég að vanda svar mitt. Auðvita skiptir máli að vera sáttur við það sem við höfum í dag en á sama tíma og það er nauðsynlegt að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er þá skiptir líka máli að vilja stöðugt vera að vaxa og þroskast. Gæðin á lífi okkar er háð þeim kjarki sem við höfum til að takast á við breytingar, stíga skref út fyrir þægindahringinn því það er leiðin að betra sjálfstrausti sem við þurfum að huga að alla okkar ævi.

Það fara mörg þúsund hugsanir í gegnum hausinn á okkur á hverjum degi og hugsanavillur eru stór hluti af þeim hugsunum. Hugsanirnar koma ósjálfrátt og oft án þess að við tökum eftir þeim. Þegar okkur líður illa eða erum óörugg þá eiga hugsanavillur greiðan aðgang að okkur. Sjáum bara það neikvæða eða túlkum hlutina neikvætt. Ef við gerum villur eða mistök þá ýkjum við það í hugsun og afskrifum jákvæða hluti. Við vanmetum eigin styrkleika og það er bara allt ómögulegt. Okkur langar mest að skríða undir sæng og vera bara þar.

Þegar við erum með lélegt sjálfstraust hefur það áhrif á svo margt í lífi okkar. Við upplifum óöryggi og erum dómhörð á okkur sjálf og leyfum okkur ekki að gera mistök eða dæmum okkur harkalega fyrir þau. Sá sem þarf alltaf að vera duglegur, leitast við að ná einhverjum fullkomleika, gerir óraunhæfar kröfur til sín og umhverfisins, er að fást við óöryggi. Sá sem tekur lífinu of alvarlega, getur ekki séð fegurðina í einfaldleikanum en þarf alltaf að vera að heyja baráttur því lífið er svo erfitt, er að fást við óöryggi. Sá sem telur ytra útlit sitt ekki nógu gott og ekki standast einhverja ákveðna staðla, vantar virðingu fyrir eigin sjálfi sem á sér rætur í óöryggi.

Þess vegna þurfum við að æfa okkur í því að ná í öryggið okkar og það gerum við með því að takast á við ýmsa hluti sem eru fyrir utan þægindahringinn okkar. Við þurfum að æfa okkur í að bera kennsl á hugsanir okkar og hvaða áhrif þær hafa á okkur. Við þurfum að vera dugleg að minna okkur á að þessi heimur er nú einu sinni þannig að það líkar aldrei öllum við allt sem við gerum og eitt mesta frelsi sem ég hef fundið fyrir var þegar mér tókst oftar og oftar að hugsa: ég mun gera mistök, ég mun vera gagnrýnd, einhverjum mun ekki líka sjónarmið mín, einhverjum finnst lítið til mín koma, einhver gæti slitið samskiptum við mig og einhverjum finnst ég bara hundleiðinleg……….en það er bara allt í lagi, því það sem skiptir öllu máli er að mér finnist ég bara yfirleitt í nokkuð góðu lagi!

Þannig að kæra vinkona; það er þessi gullni meðalvegur sem skiptir máli. Að vera þakklátur fyrir allt það góða sem við höfum í lífinu á sama tíma og við erum á varðbergi gagnvart því að lenda ekki í kyrrstöðu og finnast allar breytingar ógnandi. Mundu að þeir sem eru með gott sjálfstraust eru EKKI þeir sem eru góðir í öllu eða þeir sem gera aldrei mistök – heldur þeir sem nýta sér styrkleika sína, sætta sig við það sem þeir geta ekki breytt en stefna ótrauðir að því að bæta það sem þeir geta bætt!

Þangað til næst - gangi þér vel.

Anna Lóa Ólafsdóttir

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid