Höktir í hægagangi!

Henni var mikið niðri fyrir þegar við hittumst: veistu það að ég er að upplifa skrýtinn tíma núna, ekki erfiðan tíma, frekar svona flatan tíma. Ég er ekkert óhamingjusöm en heldur ekki hamingjusöm. Ég er ekkert rosalega glöð en heldur ekki leið - ég er bara svolítið flöt (og núna notaði hún hendurnar til að leggja áherslu á flatneskjuna í lífi sínu). Já veistu hvað, þetta er bara svolítið eins og ég sé í hlutlausum gír og mér finnst það erfitt - svona eins og það vanti alveg fiðrildin og flugeldana, sólina og sangríað, kímnigáfuna og kósýheitin...... eins og lífið sé einhvern veginn flatur, ljósbrúnn litur sem gerir ekkert fyrir mig, allt er svona ,,beige“ eins og þegar það vantar krydd í matinn. Það vantar þetta sem gerir lífið skemmtilegra og spennandi, og erfitt að henda reiður hvað það er en maður finnur svo vel þegar það vantar. Skilurðu mig?
Ég hlustaði á hana og sagði svo; elskan mín góða, þú getur verið viss um að það sé að eiga sér stað þroski í lífi þínu núna - þú ert bara að upplifa kyrrstöðu - kannast vel við þetta og það þýðir ekkert spyrna á móti þessu.
Kyrrstöðu??

Jú sjáðu til, öðruhverju þurfum við að fara í gegnum kyrrstöðu-tímabil. Við getum ekki keyrt áfram endalaust án þess að staldra aðeins við og ef það hefur verið mikil keyrsla í lífi okkar erum við tilneydd til að gíra okkur niður. Það sem er fullt þarf að tæmast, það sem hefur aukist verður að minnka og þegar við höfum farið of hratt í gegnum líf okkar þurfum við hægfara endurskoðun. Það er svona rétt eins og himinn og jörð togi í okkur og sjái til þess að við náum að stilla okkur af. Þurfum að fara í hlutlausan gírinn líkamlega og andlega.
Góðu fréttirnar eru að yfirleitt eru kyrrstöðutímabil hluti af breytingaferli. Þannig er eitthvað nýtt þegar farið að hreiðra um sig í lífi þínu og þú verður að trúa því að það sem tilheyrir þér komi til þín. Þannig þarftu bara að leyfa þér að vera á þessum tímapunkti og sína þolinmæði þegar þér finnst allt vera í hægagangi. Sjáðu þetta sem millibilsástand, einar dyr þurfa að lokast til að við sjáum hinar sem eru að opnast. Getur verið erfitt að vera þarna á milli hurðanna en yfirleitt er nýi staðurinn betri en sá sem við erum að kveðja. Þrátt fyrir að ég sé talsmanneskja þess að taka ábyrgð á lífi sínu og bregðast við því á þann hátt sem er krafist af okkur hverju sinni, er ég líka meðvituð um að stundum er þess krafist að við stöldrum við og gerum ekki neitt.

Þegar ég er á þessu tímabili finnst mér ég oft standa við hliðina á sjálfri mér og finnst að ég þurfi að gera eitthvað en veit ekki alveg hvað. Ég hef líka lært að ég get lítið gert við þessu annað en að vera og leyfa lífinu svolítið að koma til mín og viðurkenna að ég get ekki stjórnað öllu. Þá á ég  jafnvel erfitt með að sleppa hinu gamla og gefa eftir en svo þegar ég er búin að sleppa og tilbúin að takast á við nýja hluti fer smám saman að birta til á ný. Þegar ég kem smám saman til baka þá er ég yfirleitt sterkari en áður og tilbúin til að halda áfram og takast á við ný verkefni.

Hafðu hugrekki til að skoða hvað er verið að segja þér og treystu því að nýja lífið sé mikilfenglegra en hið gamla. Mundu að um tímabundið ástand er að ræða en þú verður að sleppa taki á því sem er orðið úrelt og hentar ekki lífi þínu núna og þá getur þú treyst á framför þína. Þú verður bara að hökta þetta áfram í hægagangi.

Hún hafði hlustað einbeitt og kinkað kolli á meðan ég lét móðan mása og sagði svo: þú átt aldrei stutt og einfalt svar Anna Lóa, er það nokkuð!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa