Hann er í tóma hólfinu!

Hann lá hreyfingarlaus  fyrir framan sjónvarpið og ef hann hefði ekki skipt um rás á sjónvarpinu með reglulegu millibili hefði ég haldið að hann væri ekki með lífsmarki. Ég var búin að gera nokkrar tilraunir til að horfa á eitthvað með honum en um leið og ég var að komast inn í það sem var á skjánum, skipti hann um stöð. Var hann að reyna að segja mér eitthvað? Ég leit á hann og sagði: er ekki allt í lagi, þú ert eitthvað svo fjarrænn?

Hann leit á mig með tómum augum, rétt eins og hann hafi hreinlega ekki tekið eftir að ég væri þarna og svaraði: ha, jú jú allt í góðu!
Þetta var ekki nógu gott svar: ertu viss elskan, mér finnst þú eitthvað svo fjarrænn?

Hann leit á mig aftur og sagði ákveðið:  það er ekkert að ANNA LÓA!
ÚFF, það var greinilega eitthvað mikið að, nú þurfti ég að kryfja. Þá mundi ég allt í einu eftir tóma hólfinu – hann var í TÓMA HÓLFINU!
Ég hef áður talað um að heilar kvenna og karla séu ólíkir og eftir ítarlega heimildaleit og ábendingar frá lesendum Hamingjuhornsins er ég sannfærð um þetta. Samkvæmt „kenningunni“  eru karlmannsheilar með fullt af hólfum og í hverju hólfi er ákveðinn málaflokkur. Þannig er hólf fyrir konuna, annað fyrir börnin, hólf fyrir foreldra og annað fyrir tengdó, hólf fyrir vinnuna og bílinn, vinina, golfið og svo framvegis. Þegar karlmenn þurfa að ræða málin fara þeir og opna tiltekið hólf og ræða BARA það sem er inni í því hólfi og passa að það snerti ekki neitt annað hólf.
Heilinn á konum er frekar eins og víraflækja þar sem allt tengist. Tilfinningar blandast saman við víraflækjuna og búmm,  mjög eldfim blanda. Öll málefni fara einhvern veginn í graut þannig að ef eiginmaðurinn er t.d. þögull sem steinn, kveikja tilfinningar neista í víraflækjunni, það logar allt og konan er viss um að það sé eitthvað stórkostlegt í gangi sem hún verður að „laga“.  Í verstu tilvikum gýs upp brunalykt þegar skammhlaup á sér stað og konuheilinn við það að springa vegna  þessa stórkostlega „vanda“ sem heilinn hennar greinir.
En það er eitt hólf sem karlmenn eru með sem er svolítið merkilegt en það er kallað tóma hólfið. Þetta er uppáhalds hólfið þeirra sem þeir opna við hvert tækifæri. Eins og nafnið gefur til kynna þá er ekkert í þessu hólfi og engin hugsun sem á sér stað þegar þeir opna það. Það skýrir hvernig þeir geta staðið ofan í ískaldri á, marga klukkutíma í einu með veiðistöng án þess að nokkuð sé að gerast og starað út í tómið. Þess vegna geta þeir legið fyrir framan sjónvarpið með fjarstýringu í hönd og skipt um stöðvar endalaust án þess að vera að hugsa eða horfa eða verið meðvitaðir um aðrar lifandi verur í nánasta umhverfi.
Þegar konur takast á við erfiðleika og streitu vilja þær tala um það. Ef mér líður illa verð ég að deila vandanum en þá líður mér betur jafnvel þó lausnin sé ekki komin. Ef hann er ekki til í að hlusta þá á ég á hættu að heilinn í mér springi. Þegar ég segi honum frá vandamálunum mínum finnur hann fyrir pressu til að bjarga málunum á meðan ég þurfti bara einhvern sem er til staðar og hlustar.  

En af því að honum þykir vænt um mig þá hlustar hann og gefur mér svo sitt besta ráð og segir: hættu bara að hugsa um þetta, hættu bara að tala um þetta. Þá verð ég auðvitað ótrúlega sár því það eina sem ég vildi var að hann mundi hlusta.

Þegar karlmenn takast á við erfiðleika og streitu kjósa þeir ekkert frekar en að fara inn í tóma hólfið sitt. Þeir vilja fá frið – ekki hugsa né tala, bara vera. Hvað geri ég – kem með mitt besta ráð: þú verður bara að tala um þetta, hvað er að angra þig!  Það síðasta sem hann vill gera er að tala um það – við verðum að skilja það! Leyfum þeim bara að fara í tóma hólfið sitt og jafna sig – heilinn þeirra mun ekki springa!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid