Hamingjukökurnar mínar

,,Áttu ekki bara góða uppskrift af hamingjukökum eða eitthvað“. Það var ritstjórinn á hinum enda línunnar og umræðuefnið var pistill vikunnar. Ég var sein fyrir og einhver ritstífla í gangi en þessi orð hans leiddu mig inn á rétta braut. Auðvitað mundi ég skrifa um hamingjukökurnar mínar enda fátt af því sem ég hef bakað vakið eins mikla hamingju og þessar kökur.

Ég hef haft minnimáttarkennd vegna skorti á hæfileikum þegar kökubakstur er annars vegar. Ófáar uppskriftir sem ég hef gert tilraunir með og sú eina virðist sleppa hjá mér eru skálakökur þar sem öllu er einhvern veginn hrúgað í eina skál og þrátt fyrir að bragðast ágætlega þá myndu þessar kökur aldrei skora hátt í ,,fegurðarsamkeppni“ kökugerðameistara. En ég get bakað brauð og bollur eins og enginn sé morgundagurinn og hin síðari ár er ég hætt að svekkja mig yfir misheppnuðum kökugerðatilraunum og held mig við brauð og bollur.

Þegar ég var að undirbúa afmælið mitt síðasta haust kom einn kökugerðasnillingurinn með þá hugmynd að ég skyldi prófa cake-pops (kökur sem líta út eins og kúlusleikjó). Þetta geta allir, fylgdi þessari áskorun og hægt að finna nákvæma sýnikennslu á netinu. Mér fannst þetta tilraunarinnar virði og eldhúsið breyttist á svipstundu í kökugerðasprengjusvæði, þar sem allt var undirlagt og kakó á nefinu og eggjarauða í hárinu fullkomnuðu myndina. ,,Þetta mun takast“.......,,Anna Lóa þú getur þetta“ ..........,,þetta ER auðvelt“......jákvæðu staðhæfingarnar þennan daginn voru á við nokkrar skeiðar af lyftidufti og ég full bjartsýni. Þetta gat ekki klikkað. Afraksturinn sjáið þið á þessum myndum - annar eins hryllingur hefur ekki sést í langan tíma!

En viti menn, þessar kökur hafa í raun reynst hinar mestu hamingjukökur. Ég nota myndina af þeim á sjálfstyrkingarnámskeiðunum mínum og þegar ég er með hamingjufyrirlestra. Það gerist alltaf það sama - fólk hlær og þá er markmiði mínu náð. Fátt eins yndislegt og geta kallað fram bros eða hlátur hjá öðrum.  Ég birti myndina líka til að minna okkur á að taka okkur sjálf ekki svona alvarlega og að enginn getur allt en allir geta eitthvað. Ég er hætt að svitna yfir saumaklúbbum og frænkuboðum, þetta snýst jú um að hittast en ekki að keppast um ,,kökugerðahæfileika“. Hamingjukökurnar mínar hafa glatt marga, já mun fleiri en nokkur önnur kaka sem ég hef bakað.

Ég vona að ykkur hlotnist sú gæfa  að njóta aðventunnar, með eða án kökubaksturs. Í mínum huga snýst sá tími um samverustundir, tónlist, mat, ljósadýrð, undirbúning en ekki síst þakklæti fyrir að vera ein af þeim heppnu sem hefur verið gefið tækifæri til að njóta þess að lifa lífinu lifandi - með hamingjukökunum mínum!
Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
www.facebook.com/Hamingjuhornid