Hamingjuhornið: Golfari af Guðs náð!


Við ákváðum að hittast úti á golfvelli eitt síðdegi í vikunni og taka 9 holur á litla vellinum. Þar sem ég var mætt aðeins á undan tók ég nokkur högg áður en hún kom, svona rétt til að athuga hvernig ég kæmi undan vetri. Höggin voru hvert öðru glæsilegri og ég gat ekki beðið eftir að sýna fram á það sem mig hafði lengi grunað – það var kominn minn tími til að blómstra og eftir allt saman reyndist ég golfari af Guðs náð. Ég var borubrött og uppfull af (gervi)öryggi þegar vinkonan mætti á svæðið og hugsaði „let the show begin“. Til að gera langa sögu stutta þá var „showið“ ein hryllingssýning frá upphafi til enda. Ég hitti boltann illa og þegar ég hitti hann tók hann sjálfstæðar ákvarðanir og fór sínar eigin leiðir. Stóð sjálfa mig að því að afsaka mig „þú hefðir átt að sjá höggin mín áður en þú mættir“ um leið og ég leit til himins og sagði „why me“. Eftir nokkur vonlaus högg og tilheyrandi pirring, náði ég að slaka á og tileinka mér heilsusamlegt kæruleysi. Ég hætti að hugsa allt út í þaula og keyrði væntingastuðulinn aftur niður, sannfærð um að höggin mín í byrjun hafi verið þau síðustu sem gætu talist tilheyra golfíþróttinni. Þá gerist það ótrúlega, þegar það heyrist þetta yndislega hljóð þegar maður hittir boltann vel og hann svífur eins og hann hafi vængi og áttavita og lendir á besta stað. Þetta veitir ómælda gleði og öryggi, vonin kviknar í brjósti á sama tíma og ég fer aftur að vanda mig of mikið. Þannig gengur þetta svo áfram, gleði og vonbrigði á víxl og smám saman áttar maður sig á að þannig er leikurinn, rétt eins og lífið. Golfið krefst einbeitingar, þolinmæði, tækni, tillitssemi og réttsýni en það sama gæti átt við svo margt annað í lífinu.

Þegar við erum að ofhugsa alla hluti í lífinu lendum við oft í þeirri klemmu sem hér er lýst. Við setjum okkur reglur um hvernig lífið eigi að vera og keyrum væntingastuðulinn upp. Það má ekki víkja frá reglunum því þá erum við ekki fullkomin og aðrir gætu orðið vitni að mistökunum. Í stað þess að njóta augnabliksins erum við búin að ákveða að hamingjan hljóti að fylgja í kjölfarið á því að gera allt saman á réttan hátt og eftir ákveðinni forskrift. Þegar það gerist ekki förum við „golfhringinn“ stíf og pirruð og skiljum ekkert í því af hverju stjórnkænska okkar og einbeittur vilji skila ekki þeim árangri sem vonast var eftir.

Að sama skapi þá koma tímabil sem við leyfum okkur að sleppa takinu, hættum að stjórnast í öllu og öllum og leyfum lífinu svolítið að færa okkur hið óvænta. Njótum þess að vera til hér og nú og áttum okkur á því að við eigum ekkert nema augnablikið og daginn í dag. Í framhaldinu slökum við aðeins á, tileinkum okkur ákveðið æðruleysi og hættum að taka okkur svona alvarlega – lífið má jú vera svolítið skemmtilegt. Minnkum kröfurnar sem við gerum til okkar sjálfra og annarra, tökum tillit til samferðafólks okkar og áttum okkur á því að það er ekki bara okkar leið sem er hin eina rétta. „Golfhringurinn“ verður að sama skapi skemmtilegur þrátt fyrir að vera ekki fullkominn og við lítum á mistökin sem tækifæri til að bæta okkur.

En þrátt fyrir að mistökin séu óhjákvæmileg er hollt fyrir okkur að horfa fram á veginn og stefna að því að bæta okkur. Ég byrjaði að spila golf fyrir nokkrum árum síðan og stóri bróðir byrjaði á sama tíma. Fyrsta sumarið vorum við oft saman úti á golfvelli og vorum nokkuð svipuð varðandi metnað og getu. En svo fór að draga í sundur með okkur. Bróðir minn skráði sig strax í golfklúbb annað sumarið sitt í golfi en mér fannst ég ekki vera tilbúin – vildi æfa mig betur – og er búin að vera að æfa mig síðan. Í dag er stóri bróðir kominn með 20 í forgjöf en ég enn á æfingasvæðinu. Hann spurði mig um daginn „jæja Anna Lóa mín, hvenær má áætla að æfingaferlinu ljúki og þú komir með okkur hinum á völlinn“. Þá áttaði ég mig á því að ég hræddist að fara út fyrir þægindahringinn minn og opinbera mig. En við hvað var ég svona hrædd – mistökin sem ALLIR golfarar gera einhvern tímann á ferlinum? Flestir golfarar hafa nóg með sjálfan sig svo hugsunin um að ALLIR væru að spá í mér og mínu golfi – var stærsta villan í þessu öllu.

Það er með þetta eins og annað í lífinu – til þess að komast áfram verðum við að hafa kjark til að taka skrefin fram á við. Það þýðir ekki að við séum laus við óttann, erum jafnvel óttaslegin en höldum samt áfram því öryggið kemur ekki fyrirfram heldur með æfingunni. Það er nauðsynlegt fyrir alla að stíga út fyrir þægindahringinn og takast á við áskoranir, bæði í leik og starfi. Þannig aukum við sjálfstraustið og komumst hjá því að lenda í kyrrstöðu sem gæti þýtt að við erum allt of lengi á „æfingavellinum“ og í versta falli förum við aldrei lengra. Er enn sannfærð um að ég sé golfari af Guðs náð – þurfti bara aðeins lengri tíma en aðrir til efla geðprýði og tileinka mér yfirvegaða framkomu á vellinum. Held ég sé alveg með‘etta núna – so let the show begin!!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa