Hamingjuhornið: Einn hlut í einu!

Nýtt ár gengið í garð og ég farin að huga að markmiðum fyrir árið 2012. Þetta árið eru aðal markmiðin mín varðandi persónulegan þroska að gera einn hlut í einu og hafa augun á réttum stað.


Mér finnst ég ekki alltaf vera nógu vakandi fyrir því sem er að gerast í kringum mig, og þar heyri ég hvorki né sé það sem er að gerast í kringum mig. Þannig get ég verið í símanum að tala við systur mína en á sama tíma að leita að mataruppskrift á netinu eða lesa nýjustu færslurnar á FB. Þá er ég annars hugar í símtalinu og þarf að biðja systur að endurtaka aftur það sem hún var að segja þegar athyglin flýgur út um veður og vind! Það sama er uppi á teningnum þegar ég er búin að koma mér vel fyrir til að horfa á mynd sem fjöldi fólks er búið að mæla með. Ég sest fyrir framan skjáinn með tölvuna í fanginu og skil svo ekkert í því tæpum tveimur tímum síðar að myndin höfðar ekki til mín og mér finnst hún ofmetin í alla staði hjá vinum mínum, á meðan sannleikurinn er sá að ég hef misst af helmingnum af henni enda með athyglina á fleiri en einum stað. Svo á ég það til að sökkva mér í fjölverkavinnu heim hjá mér (eða multitasking eins og það er á engilsaxnesku) og minni helst á ajax auglýsingu hér forðum daga, hvirfilbylur sem ekkert fær stöðvað en ekki með eins góðum árangri og í auglýsingunni. Dæmigerð fjölverkavinna gengur þannig fyrir sig að ég byrja á að taka úr uppvöskunarvélinni en hætti í miðju kafi en skil hana eftir opna þannig að hún er orðin að slysagildru, fer þá og tek úr þvottavélinni en þegar ég er hálfnuð með að hengja upp dettur mér í hug að hella upp á kaffið og renna yfir baðherbergisgólfið.  Steingleymi helmingnum af þvottinum inni í þvottavélinni og átta mig ekki á því fyrr en löngu seinna þegar ég fer að leita að símanum sem ég hef gleymt uppi á þurrkaranum.


Verst finnst mér þó þegar ég sé ekki það sem er beint fyrir framan augun á mér því ég er komin eitthvað allt annað í huganum. Margir vina minna þekkja söguna af því þegar mynd af syni mínum (sem ég var heillengi að velja) prýddi fermingarborðið hans en á myndinni er þessi engill svo fallegur í peysunni sem vinur hans gaf honum og á stendur The Godfather. Það var ekki fyrr en í lok veislunnar að mér var bent á að það væri alls ekki það sem stæði á peysunni, það stóð The Goodf...er (get ekki skrifað það hér því þá fæ ég ekki að skrifa fleiri pistla í blaðið). Ég hélt ég hefði lært mína lexíu þarna og hef reynt að taka betur eftir, verið með augun á réttum stað og taka umhverfið inn. Það var mér því mikið áfall núna fyrir jólin að standa mig aftur að þessu. Ég fór í verslun hér í bæ að finna jólagjafir á yndislegu 15 ára frænkur mínar í Noregi. Þær eru á mörkum þess að passa í stærstu stærð í barnadeildinni svo ég fór í fullorðinsdeildina og fann þessa tvo sætu náttkjóla en til öryggis spyr ég afgreiðslustúlkuna hvort hún telji ekki að minnsta stærðin sé fín á þennan aldur. Hún telur svo vera en spyr í leiðinni hvort ég hafi skoðað kjólana vel. Ég skildi nú ekki alveg spurninguna - gat ekki séð betur en þetta væru tveir krúttlegir náttkjólar, bleikur og blár og ekki mikið meira um það að segja. En ég staldraði nú samt við og skoðaði kjólana betur og það var þá sem ég áttaði mig á því að á öðrum þeirra stóð ,,expecting“ og á hinum ,,bite me“. Er ekki viss um að foreldrunum hefði endilega fundist þetta við hæfi á litlu saklausu stúlkurnar sínar.


Ég þarf að æfa mig í að vera á staðnum, hér og nú en ekki þar og alls staðar og gera einn hlut í einu, hlusta á eina manneskju í einu og af athygli, lesa eina bók í einu og njóta hennar (ok kannski 2-3 í einu), horfa á áhugaverðar myndir með athygli og láta tölvuna og símann vera á meðan. Njóta matarins sem ég borða, félagsskaparins sem ég er svo heppin að hafa í lífi mínu og síðast en ekki síst að njóta alls þess góða í lífi mínu í dag því ég veit ekki hvar ég verð á morgun.

 
Hvet þig lesandi góður til að setja þér markmið varðandi persónulegan þroska. Efast stórlega um að þú kannist við það sem ég lýsi hér að ofan en það gæti verið eitthvað annað sem þú vilt bæta og fyrsta skrefið er að átta sig á hvað það er og undirbúa svo breytingar.


Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa.