Hamingjuhornið: Bærinn minn

Langar að byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það liðna. Ég er þakklát því góða fólki sem ég hef verið í samskiptum við á sl. ári, bæði í leik og starfi og ekki síður fyrir allan þann fjölda sem ég hef kynnst á árinu og hlakka til að fjölga í þeim hóp á nýju ári. Ég hef upplifað margt á síðustu árum og meðal þess er ferðalag til Slóvakíu í Evrópuverkefni. Verkefnið gekk vel en það sem stendur upp úr er bærinn þar sem ég dvaldi. Um er að ræða bæ sem svipar að mörgu leyti til Suðurnesjanna þegar kemur að íbúafjölda og atvinnuleysi. Hér á árum áður var kolanámuverksmiðja ein aðal atvinnuæðin í bænum en mest unnu þar tæplega 4500 manns. Mikið hefur dregið úr þeirri starfsemi með tilheyrandi atvinnuleysi sem nú er svipað og hér eða um 13%.

Eins og gefur að skilja þá er þetta bæjarfélag í Slóvakíu að ganga í gegnum erfiða tíma sem tekur á alla og ákveðið vonleysi einkennir íbúa þess. Fólk afsakaði bæinn sinn og fágætt að maður upplifði að fólk væri stolt af því að búa þarna. Það var þó einn maður sem skar sig úr og það var bæjarstjórinn. Þar fór maður fólksins sem tók sjálfan sig ekki of alvarlega og talaði af stolti um bæinn sinn. Hann fór yfir söguna og lýsti vel dugnaði og þrautseigju þeirra sem unnu í kolanámunum á árum áður og byggðu undirstöðurnar fyrir komandi kynslóðir. Hann táraðist þegar hann sagði okkur frá alvarlegu námuslysi og aftur þegar hann söng lag um ungan dreng sem hafði farist í þessari sömu námu (já hann söng fyrir okkur). Maður hlustaði af athygli því hann hreif fólk með sér og þarna fann maður vel hve miklu máli skiptir hvernig maður talar um bæjarfélagið sitt út á við og hvaða eiginleikar eru dregnir fram. Hann hafði einstakt lag á að gera hvunndagshetjunni góð skil og benda á hvað einkenndi fólkið ,,hans“. Bæjarstjórinn var ekki að gera lítið úr erfiðleikunum heldur náði hann að draga fram það jákvæða þannig að maður fékk mun betri tilfinningu fyrir staðnum þegar maður hlustaði á hann.

Ég var hugsi eftir þessa reynslu og fór að velta fyrir mér hvort ummæli mín um Suðurnesin væru af jákvæðum eða neikvæðum toga. Ég flutti hingað fyrir nokkrum árum því hér vildu synir mínir búa en verð að viðurkenna að ég var ekki sú jákvæðasta og dró frekar úr kostum svæðisins en hitt. Mér fannst erfitt að fara frá vinum og fjölskyldu í Reykjavík og hugsaði sem svo að þetta yrði stutt stopp. Ég áttaði mig fljótlega á því að ef ég ætlaði að halda áfram þessari neikvæðni, flýja í höfuðborgina um helgar og taka þetta út sem hverja aðra afplánun, yrði þessi tími bæði langur og leiðinlegur. Ég skipti því um gír og ákvað að ég vildi verða félagslega virk og lagði mig fram um að kynnast fólki sem vildi gera skemmtilega hluti. Það var ekki erfitt að finna þessar manneskjur og í dag er ég umvafin yndislegu og skapandi fólki sem er tilbúið að eyða tíma og orku í hin ýmsu verkefni og þar ræður jákvæðnin ríkjum. Ég fór að skoða hvað ég gæti gert sjálf í stað þess að bölsótast yfir því hvað aðrir væru ekki að gera fyrir mig.

Í framhaldinu fór ég meðvitað að velta fyrir mér hvernig ég talaði um Suðurnesin. Ég ákvað að draga fram jákvæða þætti og fara ekki í vörn gagnvart fordómum og þekkingarleysi annarra um svæðið, heldur rökræða þegar slíku var viðkomið og vitna í staðreyndir. Í dag líður mér vel í bænum mínum, umvafin frábæru fólki innan sem utan vinnu og er löngu hætt að flýja í höfuðborgina um helgar.

Hér er á engan hátt verið að gera lítið úr þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir en orðræða okkar og viðhorf sem hér búum skiptir gríðarlega miklu máli, bæði fyrir okkur sjálf og þá sem hingað horfa. Fólk sem er að fara í gegnum erfiða tíma þarf fyrst og fremst styðjandi og jákvætt umhverfi til að takast á við þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir og við sem erum aflögufær ættum að leggja okkur fram um að veita það.

Bærinn okkar, hvar svo sem hann er, verður aldrei verri eða betri en fólkið sem þar býr. Mér fannst hollt að setjast niður og hugsa um hvernig bæ ég vildi búa í og hvað ég gæti gert til að verða ánægðari því um leið er ég betri og afkastameiri íbúi. Fræg eru orð Kennedys ,,ekki spyrja hvað landið getur gert fyrir þig, heldur hvað þú getur gert fyrir landið þitt“. Ég trúi því svo innilega að öllum sé hollt að hugsa ,,hvað get ég gert til að þetta verði betri staður?“ og vekja þannig með sér samfélagslega ábyrgð og skoða hvað maður getur lagt af mörkum til að gera samfélagið betra, sjálfum sér og öðrum til heilla.

Rún vikunnar er Bjarkan: Snýst um að hafa áhrif á þróun mála. Fyrst þarf að uppræta andspyrnu, síðan má vinna verkið. Til þess að þetta sé hægt þarf vilji þinn að vera skýr og ákveðinn, og með staðfestu og réttri afstöðu, má vænta árangurs.

Þangað til næst – gangi þér vel. Anna Lóa.