Hamingjan

Ég hef haldið ótal fyrirlestra um hamingjuna á síðustu tveimur árum og hef í framhaldinu ákveðið að skrifa nokkrar greinar um þetta áhugaverða efni, með það markmið að leiðarljósi að hækka hamingjustigið á Suðurnesjum. „Ja, hún ætlar sér ekki lítið, hugsa eflaust margir“ og það er alveg rétt. Ég trúi því að þó að skrif mín komi eingöngu til með að hreyfa við nokkrum manneskjum þá sé takmarkinu náð, því hamingjusöm manneskja hefur jákvæð áhrif á umhverfi sitt og eykur líkur á því að fólkið í kringum hana upplifi líf sitt betra og hamingjuríkara. Hamingja og jákvæðni eru smitandi og geta haft margföldunaráhrif rétt eins og neikvæðni og reiði geta fest rætur allt um kring.

Að vilja öðlast hamingjuríkara líf þarf ekki að þýða að við lifum í tómri óhamingju í dag. Við getum verið sátt en samt viljað fá aðeins meira út úr lífinu. Það er jafnvægið sem skiptir máli í þessu sem mörgu öðru, að feta þá línu sem liggur á milli þess að vera sáttur við sjálfan sig eins og maður er og vilja stöðugt vera að vaxa og þroskast.

En það er mikilvægt að við áttum okkur á því að það að vera hamingjusamur þýðir ekki að vera alltaf hoppandi kátur og glaður. Öll lendum við í erfiðum verkefnum í lífinu og þó við getum ekki haft áhrif á aðstæður þær sem valda þjáningunni kunnum við hins vegar að geta haft áhrif á afstöðu okkar og viðhorfum til þjáningarinnar. Við getum verið hamingjusöm þrátt fyrir að upplifa hæðir og lægðir í lífinu, enda heldur lífið áfram að senda okkur verkefni til að takast á við.
En hvar á ég að byrja - er vonandi einhver að hugsa núna. Það er hægt að byrja strax í dag með því að skoða líf sitt og hvað það er sem viðkomandi vill breyta hjá sjálfum sér og skrifa það niður. Við getum ekki breytt öðrum en sjálfum okkur og er mikilvægt að hafa það í huga þegar maður byrjar að skrifa listann. Hvaða hlutir eru það sem þú mundir vilja hafa öðruvísi og ertu meðvituð/-aður, hvernig þú mundir vilja hafa þá! Það er gott að byrja á því að breyta einhverju einföldu og þegar sú breyting hefur tekist vel hefur maður öðlast öryggi til að takast á við fleiri og stærri breytingar. Fyrsta og mikilvægasta skrefið er að taka ákvörðun um að breyta!
Í þessari vinnu fer maður yfirleitt ekki beina leið áfram - bakslag og hliðarspor eru fylgifiskar breytinga en gott að minna sig á að það þýðir ekki að breytingin eigi ekki rétt á sér eða sé ótímabær.

Við aukum sjálfstraustið um leið og við tökumst á við breytingar og sjáum að við ráðum við þær. Hindrunum er ýtt úr vegi og sjálfstraustið eykst samhliða þeirri góðu tilfinningu að maður geti mun meira en mann óraði fyrir - sem sagt meiri hamingja. Grunnurinn að hamingjuríkara lífi er gott sjálfstraust. Það er eðlilegt að hræðast breytingar því við vitum hvað við höfum í dag en ekki hvað bíður okkar. Það þarf kjark til að koma á  breytingum í lífinu,  sem þýðir ekki að vera laus við ótta, heldur að finna fyrir honum en halda samt áfram.

Við verðum að muna að hamingjuríkara líf mótast sjaldan af einhverjum einum atburði sem breytir lífi fólks; það mótast stig af stigi, af reynslu á reynslu ofan, augnablik fyrir augnablik!

Þar sem það blundar lítil norn í mér líka og ég hef lesið í rúnir í tuttugu ár mun ég í hverri viku draga rún vikunnar, aðallega til gamans en við skulum ekki útiloka að einhver hafi gagn af því líka.

Rún vikunnar er Fé:
Einhver togstreita í lífi þínu sem tengist líklega peningum. Skoðaðu það sem er að gerast í lífi þínu núna og hugleiddu hvaða lærdóm þú getur dregið af því. Skoðaðu hvað gerir þér gott - í hverju næring þín er helst fólgin!

Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa