Hamingjan á Ljósanótt

Þegar þetta er skrifað er Ljósanótt rétt handan við hornið og eftirvæntingin liggur yfir öllu þar sem þessi árlega fjölskylduhátíð setur lokapunktinn á gott sumar og upphafspunkt að vonandi góðum vetri. Þúsundir gesta heimsækja bæinn okkar og alltaf er spenningur hvort fjöldinn þetta árið toppi það fyrra.

Í hamingjufræðunum er talað um mikilvægi þess að hagnýta og byggja á styrkleikum okkar og það gerist svo sannarlega á Ljósanótt. Hönnuðir, tónlistarmenn, dansarar, rithöfundar, frumkvöðlar, íþróttafólk, ljósmyndarar, flugeldasérfræðingar ofl. spretta fram og bjóða upp á alls kyns upplifanir. Allt eru þetta einstaklingar sem nýta sér styrkleika sína og leyfa öðrum að njóta. Settar eru upp heilu sýningarnar og hæfileikar leynast í hverju horni.

Samkvæmt hamingjufræðunum erum við hvött til að eyða miklum tíma með öðru fólki – það skiptir okkur máli að tilheyra. Ljósanótt er öll um að tilheyra - hvort sem það er í árgangagöngunni, tónleikum, heima í súpu hjá tengdó eða með mörg þúsund manns að horfa á flugeldasýninguna. Það er skemmtilegra að njóta með öðrum, hafa vitni að öllu því sem er að gerast og geta samglaðst.

Það skiptir máli að velja sér viðhorf – hvort sem er á Ljósanótt eða á öðrum tíma. Það er auðveldara að velja sér jákvæð viðhorf þegar það liggur gleði í loftinu sem eykur líkur á því að þú smitir út frá þér gleði til annarra. Ákveða að hafa það gaman og njóta þess sem er í boði.

Það er gott að minna sig á að þrátt fyrir að hátíðir eins og Ljósanótt séu góð innspýting þegar kemur að hamingjustuðlinum þá mótast hamingjuríkara líf sjaldan af einhverjum einum atburði sem breytir lífi fólks; það mótast stig af stigi, af reynslu á reynslu ofan, augnablik fyrir augnablik! Við dettum oft í þá gryfju að „fresta“ hamingjunni, því hún á að birtast þegar við höfum náð einhverju ákveðnu takmarki. Hamingjan er hér og nú! Hamingjuríkara líf fæst með því að lifa í núinu og sleppa því liðna, vera forvitin og vera tilbúin að prófa nýja hluti. Það skiptir máli að vanda sig í lífinu og með því að efla tengsl þín við aðra, vera félagslega virku og leyfa þér að vera þú sjálfur, ertu að auka líkurnar á því að þú upplifir fleiri hamingjustundir.

Það sem einkennir hamingjusamt fólk er gott sjálfstraust og  tilfinning um að stjórna eigin örlögum.  Jákvæðni og að velja sér viðhorf,  sjá glasið hálf-fullt í stað hálf-tómt og láta ekki utanaðkomandi hluti eða fólk hafa of mikil áhrif. Fást við eitthvað sem skiptir máli og finna ástríðurnar í lífinu, komast í flæði þannig að maður gleymir sér við verkefnin.  Vera í nánum tengslum við vini og fjölskyldu og vera duglegur að rækta þau tengsl. Trú á æðri tilgang og síðast en ekki síst, ást og hjónaband.

Kæri lesandi, vona að þú hafir tækifæri til að njóta þeirrar frábæru skemmtunar sem Ljósanótt er en ekkert síður að njóta alls þess góða sem lífið hefur upp á að bjóða því þegar upp er staðið þá felst hamingjan í því að kunna að njóta og gefa í réttum hlutföllum.

Sjáumst vonandi hress á Ljósanótt og þangað til næst - gangi þér vel.

Anna Lóa
http://www.facebook.com/Hamingjuhornid