Glaðasti grautur í heimi!

Í pistlum mínum hefur mér verið tíðrætt um að heilbrigt samband sé milli jafningja, þar sem báðir aðilar hafa nógu mikið öryggi til að halda í sjálfan sig þrátt fyrir að opna hjarta sitt fyrir öðrum.

En nú er ég í námi og þá gerist alltaf það sama: ég veit hvað ég veit lítið. Í áfanganum mínum (sem fjallar m.a. um hjónabönd og hjónabandssamninga) kemur fram að hegðunarmynstrin í samböndum geti verið a.m.k átta þar sem eitt sé frekar ríkjandi en önnur birtist við hinar mismunandi aðstæður, og jafningjasambandið væri langt frá því að vera það eina sem teldist heilbrigt. En mér brá heldur í brún þegar ég áttaði mig á því að ég gat auðveldlega samsamað mig flestum þeirra og þrátt fyrir að jafninginn MINN væri þarna þá vermdu bekkinn með honum rómantíska, fjarlæga, raunsæja og umhyggjusama týpan svo ekki sé talað um foreldrið, barnið og björgunarvestið.

Dæmi: Á góðum degi tel ég að ég sé hinn fullkomni JAFNINGI, þar sem gagnkvæm virðing einkennir sambandið og væntingar virðast vera á svipuðum nótum. Skilaboðin eru skýr og allt er eins og það á að vera, og ég sé mig ekki knúna til að greina og flokka. Ég bara er. En vandinn er að ég get aldrei bara VERIÐ lengi í einu svo ég vakna jafnvel einn daginn og þrái eitthvað meira. RÓMANTÍSKA týpan lætur að sér kveða. Þá dugar ekkert minna en að ég og félaginn séum sálufélagar sem bráðnum í eitt og ég upplifi mig hálfa manneskju ef hann veitir mér ekki þá ást, öryggi og athygli sem ég á svo skilið (þarf auðvita ekki að taka það fram að hann Á að skynja þessar væntingar). Hann kveikir á perunni og breytist í Don Juan DeMarco, sem verður aðeins of mikið, sérstaklega ef hann birtist í vinnunni með blómvönd og vill halda á mér út (ala Officer and a Gentleman). Þá svissa ég yfir í FJARLÆGU týpuna og mín er í ,,bíddu, á ekki bara að líma sig á mann“ stuðinu og er dauðhrædd um að hann vilji kaupa svona tvímenningshjól og galla í stíl. Ég pikka upp kúlið á svipstundu og segist þurfa ,,speis“, þetta sé allt of mikið af því góða og er ekkert að flagga því að ég sé jafnvel dauðhrædd við of mikla nánd.

Þegar ég meika ekki að vera fjarlæg of lengi kem ég smám saman til baka en ekki alla leið. UMHUGGYJUSAMA týpan bankar upp á og þá læt ég rómantíkina eiga sig og ræði við félagann um hvort við getum ekki gert samkomulag um að hafa þetta á umhyggju og vinsemdarsvæðinu þar sem rómans sé ofmetinn. Hann gæti látið í það skína að ég væri útbrunninn rómantíker en þá stekk ég í FORELDRA týpuna og tek stjórnina. Geri honum grein fyrir að ég sé alveg með‘etta og ,,ekki þennan tón við mig“ og hrokafulli Georg Bjarnfreðarson verður minn aðal stuðningsmaður þar sem ég óhikað kasta fram ,,gerir þú þér grein fyrir að ég er hámenntuð í samböndum“. En svo þarf ekki nema eina flensu til og ég dett í BARNALEGU týpuna þar sem ég þrái ekkert heitar en einhver hugsi um mig, vorkenni mér og viðurkenni vanmátt minn þegar taugakerfið fer í rúst og ég breytist í rauðþrútna og skælandi smástelpu sem kemst með erfiðismunum í  gegnum langa og erfiða daga.

Þegar ég er búin að vera á smá barna- og foreldratrippi er nauðsynlegt fyrir mig að ná jarðsambandi aftur og það geri ég í gegnum RAUNSÆJU týpuna. Þá tek ég fram excelskjölin og dagbókina og fer í það að byggja upp sambandið á raunsæjan, rökréttan og skipulagðan hátt. Dett inn í gamla íhaldssemi, forðast breytingar og er ekki að láta tilfinningar þvælast fyrir mér. Skortur á tilfinningasemi gæti jú skemmt fyrir og áður en ég geri gjörsamlega út um sambandið, er ég með eitt tromp á hendi, BJÖRGUNARVESTIÐ. Þá stekk ég í vestið og tek ekki annað í mál en ég fái að bjarga honum frá sjálfum sér. Ég reyni að telja honum trú um að ég sé það sem hafi vantað inn í líf hans og hann sé gjörsamlega bjargarlaus án mín. Geng svo langt að sýna honum björgunarhringinn sem ég á alltaf í skottinu á bílnum. Hver toppar það!

Eftir síðustu skólahelgi stóð ég sjálfa mig að því að hugsa: Anna Lóa, þú ert nú meiri grauturinn....en þá skaltu allavega vera glaður grautur.

,,Ég er glaðasti, glaðasti, glaðasti grautur í heimi

með heilann alltaf á sveimi og er alveg að fíla‘ða“.


Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid