Gjósum saman!

Kvöldið byrjaði með látum þegar það var nokkuð ljóst að fólkið streymdi að. Styrkir voru afhentir fyrir spennandi verkefni, tískusýning eins og þær gerast flottastar, opnar smiðjur út um allt hús, kynningar frá listamönnum og frumkvöðlum, gjafir, gleði og ótrúleg ,,gos“virkni. Hér er vísað í Heklugos sem var viðburður í Eldey þróunarsetri í síðustu viku. Orkan sem einkenndi þetta kvöld hefði örugglega mælst í einhverju raunformi hefði einhver tekið að sér þær mælingar og gleðin í húsinu var ósvikin og einlæg.

Þetta hefur vakið mig til umhugsunar: hvað fær fólk til að stíga út fyrir þægindahringinn og hefja framleiðslu á sápum og kertum, hanna og búa til fatnað, gera skartgripi úr endurunnum pappír, gera upp gömul húsgögn og blogga um það, búa til minjagripi og muni fyrir erlendan markað og margt annað sem maður varð vitni að þessa kvöldstund! Hvað skilur á milli þeirra sem láta drauma sína rætast og þeirra sem ganga með þá í maganum en gera ekkert í því að koma þeim í framkvæmd?
Þegar draumar okkar eru annars vegar held ég að þar skipti gríðarlega miklu máli að vera sinn eigin besti vinur. Enginn annar mun byggja upp fyrir þig það líf sem þig dreymir um og enginn annar mun algjörlega skilja hvað er að baki draumunum þínum. Það munu vera einstaklingar á hliðarlínunni sem bæði letja þig og hvetja, en draumarnir eru þínir og því skiptir mestu máli að vera þinn eigin besti vinur á þessu ferðalagi!! Í byrjun er gott að sjá fyrir sér hvert þú ert að fara, hvaða hugmyndir ertu með í kollinum og hvaða drauma hefur þú sem hljóma jafnvel óraunverulegir og hégómlegir!

Við þurfum að þagga niður í röddinni í hausnum á okkur sem segir í sífellu „ég er ekki tilbúinn ennþá“. Hversu hæfileikaríkur og klár einstaklingur sem þú ert þá máttu ekki setja markið svo hátt að fullkomnun sé það sem þú einblínir á, því á meðan gæti einhver annar verið að vinna þínar hugmyndir. Stökktu út í djúpu laugina og þú kemst að því í leiðinni hversu tilbúin þú ert og ekki gleyma að mistök eru eðlilegur hluti af ferlinu. Hræðsla, innri gagnrýni og hugsanavillur munu vera ferðafélagar þínir og eiga greiðan aðgang að þér í þessu ferðalagi sem er eðlilegt þegar fengist er við nýja hluti. Kvíði og óöryggi er hluti af okkar innbyggða og fullkomna varnarbúnaði sem verndar okkur frá því að lenda í miklum hættum og gerir ekki greinarmun á hvers konar hættuástand um er að ræða: er tígrisdýr framundan, þarftu að tala fyrir framan hóp eða koma nýju kjólunum þínum í sölu!!

Það er líka gott að spyrja sig: eftir hverju er ég að bíða – kannski að einhver annar uppgötvi hæfileika mína og bjóði mér í framhaldinu að láta draumana rætast? Að einn daginn banki einhver upp á og segi „heyrðu, ég hef á tilfinningunni að þú viljir ná lengra á þínu sviði þrátt fyrir að þú hafir ekki sóst eftir því“. Teljum við okkur kannski trú um að með því að vera hógvær þá bíði einhver hinum megin við hornið og verðlauni okkur með betri launum, flottari stöðu og ótrúlegum tækifærum...af því að við eigum það svo skilið.

Þannig gerast hlutirnir einfaldlega ekki og það hafa frumkvöðlarnir í Eldey gert sér grein fyrir. Hlutirnir gerast þegar ÞÚ ert tilbúinn að láta þá gerast – ekki fyrr og ekki seinna. Allir þeir sem hafa náð árangri eru einstaklingar sem hafa þorað að eiga drauma og fylgt þeim eftir þrátt fyrir efasemdir og vantrú frá umhverfinu og jafnvel þeim sjálfum á ákveðnum tímabilum.
Þegar við leyfum okkur að eiga drauma og fylgja þeim eftir þurfum við oft að öðlast þykkan skráp í leiðinni. Vinur minn sagði við mig um daginn „það brýtur á þeim sem standa upp úr“, þegar ég leitaði til hans vonsvikin vegna gagnrýni sem mér fannst ósanngjörn. Allir sem eru að fást við eitthvað sem vekur eftirtekt þurfa að venjast því að fólk hrósar á einlægan hátt á meðan aðrir eru í ósanngjarnri gagnrýni og jafnvel niðurrifi. Stundum getum við forðast þannig umhverfismengun en best að ákveða strax að maður láti slíkt ekki stoppa sig. Það yndislega við þetta allt saman er að það þarf ekki öllum að líka við okkur eða það sem við erum að gera og það var léttir þegar ég sagði upp sem „little miss sunshine“. Mundu að sumir upplifa stöðu þína sem ógnandi, öðrum líkar ekki það sem þú ert að gera og svo eru það þeir sem styðja þig aðeins á sínum forsendum. Þú getur gert hlutina öðruvísi og hrósað öðrum fyrir það sem vel er gert – jafnvel þó fólk sé að vinna að sömu hlutum og þú. Það er alltaf pláss fyrir hæfileikaríkt fólk – þú þarft ekki að slökkva ljós annarra til að þitt skíni skærar. Kíktu t.d. upp í Eldey þar sem frumkvöðlar vinna hlið við hlið, jafnvel að svipuðum hlutum.

Ég er full af orku, eldmóði og jákvæðri virkni eftir „gosið“ í síðustu viku og vildi óska þess að fleiri mundu leyfa sér að „gjósa“. Ef þú lesandi góður ert einn af þeim sem langar að láta slag standa – þá hvet ég þig eindregið til að láta á það reyna – það er ekkert víst að það klikki!!

Þangað til næst – gangi þér vel
Anna Lóa