Fullmikill faðmur!

Hamingjuhorn Önnu Lóu

Alveg frá því að ég man eftir mér hef ég faðmað fólk við hinar ólíklegustu aðstæður. Ég faðma kannski ekki alla en svona allt að því. Ég átti ömmu sem faðmaði næstum alla – já hún tók hraustlega utan um langflesta sem urðu á vegi hennar og oftar en ekki hló hún í leiðinni.

Mér hefur einhvern veginn aldrei þótt neitt athugavert við þetta en man þó að hér fyrir nokkrum árum sagði samstarfsfélagi minn við mig eftir að ég hafði hitt hann á förnum vegi og hoppað um hálsinn á honum: það er aldeilis að það er gaman að hitta þig svona á förnum vegi, þú fagnar manni eitthvað svo ,,mikið“! Ég man að ég var hissa – bíddu, er það ekki bara það sem fólk gerir!

En stundum átta ég mig á því að ég er kannski full ýkt í fagnaðarlátum mínum og það gerðist einmitt í sumarfríinu. Ég nýtti fríið mitt í að ferðast um landið og lenti í hinum ýmsu ævintýrum. Þegar ég var hér suðvestanlands fór ég á ferna tónleika og naut þess til hins ýtrasta. Þegar ég fer á tónleika skiptir máli að upplifa tilfinningaskalann eins og hann leggur sig; undrun, gleði, sorg og allt þar á milli. Fór á slíka tónleika með Dionne Warwick en ég og systir mín vorum í tilfinningalegri ofurhæð að þeim loknum. Þetta var á fallegu sumarkvöldi og eftir tónleikana ákváðum við að labba niður í bæ. Við skelltum okkur á eitt af öldurhúsum borgarinnar þar sem við hittum fleira fólk og kvöldið var skemmtilegt í alla staða. Það fer ekkert á milli mála þegar ég er í gleðinni en þá langar mig að dreifa henni sem víðast. Við yfirgáfum staðinn í gleðivímu rétt eftir miðnætti en þegar við erum á leiðinni út sé ég kunningja sem ég hafði hitt hinum megin á landinu vikuna á undan en við höfðum spjallað saman í einni af vegasjoppum landsins. Þekkjumst ekki mikið en þið vitið hvernig þetta er þegar maður er á ferðalagi, þá þekkist maður betur. Ok, þarna gerðist það sem var einhvern  veginn alls ekki viðeigandi. Í kollinum fór af stað einhver svona atburðarrás: hann hér og ég nýbúin að hitta hann úti á landi, hvaða tilviljun er það! Lagið ,,Put a little love in your heart“ glumdi enn í hausnum á mér og  þar sem ég var í stuði að dreifa kærleika og gleði þetta kvöld veit ég ekki fyrr en ég hoppa um hálsinn á honum og fagna honum eins og ég hafi fundið ættingja eða vin sem hafði verið talinn af en skátarnir nýverið fundið aftur. Með faðmlaginu fylgdi: nei HÆÆÆÆ, gaman að sjá þig aftur (en það var gaman því ég var svo hissa að sjá hann þarna og hefði því átt að vera meira undrandi en glöð – kallast tilfinningaflækja). Augun hans stækkuðu enda egóbúst  sem er vert að taka inn. En ég var ekki búin og er enn að reyna að skilja af hverju ég sagði það sem kom næst: og þú lítur svo miklu betur út svona vel rakaður!!!  Já, já, trúið þið mér, ég sagði þetta...Þarna var lagið ,,I just don´t know what to do with myself“ dottið inn.

Aumingja maðurinn vissi ekki hvert hann átti að horfa og lét þessi ummæli svolítið liggja þarna óhreyfð en kynnti mig því næst fyrir hinum sem sátu við borðið. Ég fékk mjög undarlegt augnaráð frá þeim enda mörgum spurningum ósvarað eftir þessi fagnaðarlæti sem voru kannski ekki í takt við það hve lítið við þekktumst. Ég efa að þeir hefðu keypt þá skýringu að ég væri í ofurhæð tilfinningalega eftir tónleika með hinni yndislegu Dionne Warwick! Þegar ég kom út sagði samferðarfólk mitt: HVER var þetta nú eiginlega sem þú fagnaðir svona innilega!! Mitt svar: æ, hitti hann í sjoppu úti á landi um daginn, börnin okkar voru saman í handbolta.

Það var einmitt þá sem ég áttaði mig á því að ég yrði að læra að hemja gleði mína og temja mér meiri svona hversdags-spjall hegðun eins og ,,Do you know the way to San Jose“.
Er engan veginn hætt að faðma og fagna fólki, en ætla aðeins að skoða þetta með nálægðina við viðkomandi. Lagið sem ég raula þessa dagana er ,,Walk on by“ en satt best að segja vona ég samt að það verði aldrei sagt um mig ,, You've Lost That Lovin' Feeling“.

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid