Frussandi fyrirlesari!

„Veistu Anna Lóa, stundum hugsa ég með mér, er ég virkilega að gera þetta“. Þetta voru orð fyrrverandi nemanda míns sem er að upplifa drauminn um að mennta sig. Þrátt fyrir efasemdir og ótta hefur hún tekið mikilvæg skref síðustu ár og er að uppskera eftir því. Orð hennar  eru góð áminning um þá ábyrgð sem við berum sjálf á lífi okkar.

Ég man eins og það hafi gerst í gær – fyrsti  „stóri“ fyrirlesturinn var framundan og skipti mig miklu máli að allt gengi vel. Ég ofhugsaði alla hluti: þetta verður að vera fullkominn fyrirlestur, góð og skýr framsögn, glærurnar óaðfinnanlegar, fatnaður við hæfi, röddin mjúk og brosið á sínum stað!! Ég ætla að ná salnum, byrja á að segja eitthvað fyndið svo ég hrífi alla með mér, vera afslöppuð, hlýleg,  og með útgeislun sem gerir rafmagnsljósin óþörf.

Svo mætti ég á staðinn og fann allt í einu hvernig hjartað var komið upp í háls, óþægilegur þurrkur í hálsinum, sá ekki punktana mína fyrir móðu, litur á fatnaði alls ekki við hæfi þar sem svitablettirnir spruttu fram og eina sem virtist vera í lagi voru glærurnar. Þegar ég byrjaði að tala var stressið búið að ná yfirhöndinni sem gerði það að verkum að ég talaði allt of hratt og hátt og frussaði í stíl við það. Það var vægast sagt óhugnanleg lífsreynsla að upplifa að mér hafði tekist að frussa á einn hlustandann og athyglin beindist öll að því hvort hann mundi ganga út eða kalla yfir hópinn  „er einhver með regnhlíf“  (sem hann gerði ekki – TAKK).  Brandarinn sem ég ætlaði að nota í byrjun náði ekki tilætluðum áhrifum þar sem engum fannst hann fyndinn nema mér og ég óskaði þess af heilum hug að jörðin mundi opnast og gleypa mig.

Eftir fyrirlesturinn sagði ég við sjálfa mig „þetta geri ég aldrei aftur“. En auðvitað gerði ég þetta aftur og með tímanum og æfingunni kom þetta, eins og allt annað sem við leggjum okkur fram við. Lífið þarf ekki að vera svona flókið en  við erum flest sérfræðingar í að flækja það. Ef ég finn fyrir stressi í dag  áður en ég á að halda fyrirlestur, reyni ég að hugsa: hvað er það versta sem getur gerst? ....að þeim líki ekki við mig eða það sem ég hef að segja. Get ég lifað með því – já það get ég og svo get ég líka skoðað hverju ég get breytt svo ég lendi ekki í sömu pyttunum aftur og aftur. Ég er hætt að taka sjálfa mig svona alvarlega og get hlegið af svona uppákomum í dag.

Það er alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur – ef við höfum ekki gert það áður þá er líklegt að við gerum einhver mistök. Flestir sem eru góðir í einhverju hafa verið duglegir að æfa sig en ekki endilega fæðst ótrúlega hæfileikaríkir. Ég heyrði afreksmann í íþróttum segja: „æfingin skapar ekki meistarann, en það gerir auka æfingin“. Við þurfum að hafa þetta í huga þegar við tökumst á við nýja hluti og gefa sjálfum okkur tækifæri til að æfa okkur þar til verðum betri.
Ef við ætlum að bíða með að takast á við nýja hluti þar til verðum 100% klár á öllu, gætum við þurft að bíða alla ævi. Drifkrafturinn og öryggið kemur með framkvæmdinni – þú verður að leggja af stað í ferðina til að byrja æfingaferlið. Það eru ekki bara einhverjir útvaldir sem ná árangri – það eru þeir sem eru tilbúnir í auka æfinguna og halda af stað þrátt fyrir efasemdir og ótta. Þeir nemendur sem ég hef fylgt úr hlaði eru svo sannarlega sönnun þess.

Vona að þú leyfir þér að eiga drauma og takir skref í átt að þeim. Nú ef þú skyldir hafa áhuga á að koma á fyrirlestur hjá mér þá hefur „frussið“ stór lagast en svona til öryggis þá er ég alltaf með nokkrar regnhlífar meðferðis!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid