Föstudagurinn laaaaaaangi!

Hvað á að gera um páskana? Man þegar ég var barn hvað mér fannst erfitt að takast á við hversdagsleikann. Það þurfti alltaf að vera ,,stuð“ í mínum bekk og ég lagði mitt af mörkum til halda því þannig. Ef ég sagði við foreldra mína: mér leiðist, þá fékk ég oftar en ekki til baka að það væri hollt að láta sér leiðast og ég þoldi ekki það svar. Ef það komu dagar þar sem hversdagsleikinn orgaði á mann og það var ekkert um að vera, svona eins og á föstudaginn laaaaaanga, fannst mér oft erfitt að vera til og man að ég hugsaði: hverjum dettur í hug að búa til svona ,,leiðinlega“ daga. En þetta gerði það líka að verkum að við systkinin nýttum tímann til að gera skapandi hluti eins og að setja upp heilu leiksýningarnar ef því var að skipta, lesa í bók eða bara að slást og gantast á einkar skapandi hátt.  

Hér hefði þótt við hæfi að setja inn háfleyga setningu um hvernig ég hafi áttað mig á því með aldrinum að hversdagsleikinn væri auðvitað lífið í hnotskurn og grundvöllur hamingjunnar. En sannleikurinn er sá að ég hef oft átt í erfiðleikum með þetta og oft tengt hversdagsleikann við smá leiðindi, og leiðindi við einmanaleika og fundist vanta ,,stuð“ í líf mitt. Það var meira að segja tímabil þar sem ég kveið jólum og páskum því þessar hátíðir stóðust aldrei væntingar mín sem voru jú oftast keyrðar í botn. Samfélagið er líka sífellt að senda okkur skilaboð um að það sé ekki rétt að gera ekki neitt og því rignir yfir okkur alls kyns tilboðum sem eiga að fylla upp í tómar stundir.

Það er ekkert langt síðan að ég komst að því hvað hamingjuríkara líf þýddi fyrir mig - en jú, jú, einmitt í því að takast á við þennan fyrrnefnda hversdagsleika. Í mörg ár var það ákveðin hindrun í að njóta lífsins,  sú falska vænting að eitthvað eitt mundi færa mér sælu og því var ég að keppast við að finna hvað þetta eina væri! Hversdagsleikinn hefur því reynst mér ærið verkefni en hef með tímanum einmitt komist að því að þar kemst ég í samband við sjálfa mig og styrkleika mína.

Það er mikið frelsi fólgið í því að sættast við hversdagsleikann og átta sig á að lífið er sveiflukennt og ákveðin kúnst að geta tekist á við þessar sveiflur. Þegar við ráðum illa við sveiflurnar gætum við fallið í ákveðið neyslumunstur þar sem við reynum að búa til stuð í ,,okkar bekk“ og farið að miða líf okkar við líf annarra. Þannig gætum við átt það til að sjá líf annarra sem meira spennandi, fjörugra, menningarlegra eða réttmætara á einhvern hátt.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um að finna jafnvægi í lífi sínu og þá á sem flestum sviðum þess. Þetta snýst um að lífið er það sem við gerum úr því en ekki sérstakar aðstæður eða fólk sem uppfyllir þarfir okkar. Snýst um að sjá fegurðina í einfaldleikanum og átta sig á því að meðan við erum að bíða eftir stórkostlegum breytingum í lífi okkar, flýgur tíminn frá okkur. Snýst um að vera þakklátur fyrir það sem er í stað þess að bíða þess sem verður.

Þessa páskana ætla ég að leika mér og gera eitthvað af því sem mér finnst gaman að gera og leyfa mér líka að eiga daga sem ég geri minna. Ég ætla að skoða hvaða hugsun ég set inn í þessa frídaga og muna að það getur verið gott að gera ekki neitt og viðmið við aðra borgar sig ekki. Ég ætla að vera meðvituð um að til að efla skapandi hugsun þarf ég að gefa mér tíma í að vera í stað þess að gera og vera þakklát fyrir að vera smám saman að ná tökum á því. Svo lengi lærir sem lifir.

Óska þér og þínum gleðilegra páska en sú gleði er mikið til undir þér sjálfum komið.

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid