Fórstu í blakkát á Blakkát!

Ég lét hringja lengi - hver er farin að sofa fyrir miðnætti á föstudagskvöldi , ja engin í kringum mig, svo mikið er víst. Á hinum enda línunnar svarar þreytuleg rödd: halló, Anna Lóa, er ekki allt í lagi??
Jú auðvita er allt í lagi - mátt ekki vera svona paranojuð elskan.

Nei nei, æ klukkan orðin svo margt og þá er maður hræddur um að eitthvað hafi komið upp á.
Nei alls ekki,  varð bara að deila með þér að ég var að koma af svo skemmtilegu leikriti - Blakkát. Fjallar um þessa  virðulegu,  vel gefnu og sjarmerandi embættiskonu sem vaknar upp á Hótel Örk með ákaflega óljósa mynd af atburðum liðinnar nætur og við hlið hennar dauður maður. Hún var ofurölvi kvöldið áður, búin að klúðra málunum feitt á árshátíð og er ekki alveg að horfast í augu við líf sitt.

Vinkonan hljómaði mjög þreytt þegar hún sagði áhugalaus; já ok, bíddu ég hélt að þú hefði farið á þetta leikrit fyrir jólin. Já ég fékk sms frá þér um nóttina - nokkur reyndar!

Nei nei hvaða vitleysa, allavega. Þetta var rosalega fínt kvöld. Fékk Bínu til að koma með mér. Við höfum reyndar ekki talað saman í marga mánuði, ekki síðan hún fékk kast í síðustu sumóferð. Fannst eitthvað óviðeigandi þegar ég og karlinn hennar stálumst saman í heita pottinn á svæðinu þarna um nóttina. Hei, get ég gert að því þó sundfötin hafi gleymst. Hvernig er hægt að gera mál út af svona. En allavega, hún Borghildur í Blakkát, er í algjörri afneitun, svo dæmigert eitthvað. Búin að klúðra hjónabandinu og börnin tala ekki við hana og hún skilur ekki neitt í neinu. Fíflunum og fávitunum fjölgar í kringum hana og hún tekur enga ábyrgð á lífi sínu.

Vinkonan gefst ekki upp; Anna Lóa, ég man svo vel eftir þessu núna. Silla bauð þér á frumsýninguna á þessu leikriti!

Bíddu hvað er málið!! Já já já, ok ég fór á frumsýninguna. Ég var bara slöpp á sýningunni og man ekki svo mikið eftir henni. Jú jú,  fór með Sillu sem var kannski ekki góð hugmynd. Þú veist að henni finnst gaman að skvetta í sig, og bíddu ekki var það mín hugmynd að fara fyrst út að borða. Og var það ég sem helti stanslaust í glösin.....nei nefnilega ekki. Hún veit líka að við þolum hvorugar að drekka Grand. Auðvita var hún búin að gleyma því að síðast þegar við fengum okkur svoleiðis fyrir leikhúsferð var okkur báðum hent út þegar við vorum farnar að svara leikurunum og buðum Hilmi Snæ með okkur í partý. Ég sofnaði reyndar fljótlega á Blakkát,  enda brjáluð vinnuvika að baki og ég eitthvað slöpp. Já þegar ég hugsa þetta betur þá hefði eiginlega verið kraftaverk ef ég hefði vakað út sýninguna eftir allt álagið vikuna á undan.  Ég vaknaði reyndar í hléinu og viti menn, boðið upp á vín. Mér finnst reyndar svoldið skrýtið að bjóða svona upp á áfengi á sýningu sem er að fjalla um áfengisvanda, en hvað veit ég. Ekki vill maður vera fúll á móti svo auðvita fékk ég mér smá dreitil í hléinu, maður kann sig jú. Svo  frumsýningarpartý, sem var víst mjög skemmtileg, en þá var ég nú pottþétt komin með hita. Af hverju er fólk að setja svona myndir á FB - pínu óþægilegt, ég var svo lasleg á öllu myndunum! En ég bara varð að fara aftur á sýninguna, hitti Björk höfundinn á Kaffitár um daginn og hún vildi vita hvernig mér fannst. Hún hefur líklega munað eftir mér úr partýinu, en af myndunum að dæma vorum við bestu vinkonur þar. Það var fátt um svör hjá mér og ekki gat ég viðurkennt að hafa sofnað á sýningunni. Ég var svoldið stressuð um að hún hafi misskilið þetta og haldið að ég væri full en ekki svona illa fyrirkölluð. Ekki beint smart  ,,bíddu, fórstu í blakkát á Blakkát“!  En heyrðu, ætla að fara að sofa, vildi bara hvetja þig að sjá þetta stykki. Minnti mig pínu á þig og þínar ,,virðulegu vinkonur“. Túrrillídú!!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér
- http://www.facebook.com/Hamingjuhornid