Famiglia italiana

Stundum er ég búin að ákveða með góðum fyrirvara um hvað pistlarnir mínir eiga að fjalla og þannig var það einmitt þessa vikuna. Ég hafði frekar mikið að gera í síðustu viku og því var ég búin að ákveða að ég skyldi gefa mér tíma á sunnudaginn til að skrifa. Á laugardeginum kom boð frá frænda mínum um afmælisveislu á sunnudeginum í tilefni af 19 ára afmæli hans. Hum, nú voru góð ráð dýr, ég sem ætlaði að skrifa greinina og gera ýmislegt annað á þessum eina frídegi þessa vikuna og áttaði mig á því að aksturinn einn og sér í höfuðborgina og veislan sjálf tækju lungað úr deginum. Ég tók því upp símann á hádegi á sunnudeginum og hringdi í frænda og tilkynnti að sökum anna þá kæmist ég ekki í afmælið hans. Hann var svekktur, mjög svekktur, en kvaddi mig með þessum orðum: það verður þá bara fámennt en góðmennt.


Ég settist niður og byrjaði að skrifa pistilinn sem þessa vikuna átti að fjalla um hvernig við forgangsröðum í lífi okkar – þegar ég áttaði mig á mótsögninni sem fólst í því að sleppa afmælinu. Ef það er eitthvað sem ætti að hafa forgang í mínu lífi – þá er það fjölskyldan mín, frábæra „ítalska“ fjölskyldan mín!


Til að fyrirbyggja allan misskilning þá rennur ekki ítalskt blóð í æðum mínum né minnar fjölskyldu en foreldrar mínir höfðu mikið dálæti á öllu sem kom frá Ítalíu, hvort sem það var Páfinn, maturinn eða menningin og með árunum hef ég gert mér betur og betur grein fyrir því hversu mikil gleði fylgir því fjölmenningarlega uppeldi sem við fengum hjá mömmu og pabba. Ítalska hefðin fylgir okkur enn – þótt mikið vanti eftir að foreldrar mínir féllu frá en uppskriftin að góðu ítölsku kvöldi í fjölskyldunni minni er einföld: matur, hlátur, grátur, dans og dúndur stuð....... ekkert flóknara en það. Hér í gamla daga þegar við fjölskyldan komum saman sauð mamma stóran pott af spaghettí, bakaði yndislegt brauð og sá til þess að það væri örugglega til nóg handa öllum. Yngsta kynslóðin var fóðruð með smekk framan á bringuna – en við vorum mislengi að eldast – og svo var bara að njóta.......já og tala, hlæja, skiptast á skoðunum og reyna að sannfæra fjöldann um að það sem þú sagðir var algjörlega það eina rétta. Þessi hefð hefur haldist mikið til óbreytt – það sem hefur tekið einhverjum breytingum er matseðillinn. Það er þó alltaf ein ófrávíkjanleg regla og hún er sú að þeir sem búa til matinn séu meðvitaðir um að hann verður aldrei betri eða verri en það sem er sett í hann hverju sinni. Þrátt fyrir að spaghettí bolognese eigi enn sinn fasta sess þá sligar nú borðið allskyns réttir sem hver og ein fjölskylda hefur útbúið með mikilli ástríðu. Til að gefa ykkur hugmyndir um Pálínuboð hjá okkur þar sem allir koma með eitthvað á borðið væri ekki ólíklegt að þar mætti finna ítalskar kjötbollur með villtu sérvöldu og ævintýralegu kryddi, humarpasta með slatta af óborganlegum húmor, kjúklinga pennepasta með litríkum blæ, lasagne með leynisósu, þrjár tegundir af yndislegu nýbökuðu brauði, tiramisu sem tryllir lýðinn og ís með ómótstæðilegri heitri súkkulaðisósu.


Fjölskyldan nýtur þess að borða matinn, skiptast á skoðunum og við erum löngu búin að læra það að til þess að komast að þá verður maður að tala hátt. Við erum líka meðvituð um að það er ekki auðvelt að setjast niður í fyrsta skipti með þessari fjölskyldu. Sem dæmi má nefna að þá bauð ég einu sinni manni sem ég var að hitta í stuttan tíma í eitt slíkt boð. Sá var alinn upp í lítilli fjölskyldu og hafði ekki mikla reynslu af „svona“ boðum. Hann settist niður og beið eftir því að það yrði sagt „gjörið svo vel“ en áttaði sig ekki á að hann þurfti að hlusta „mjög vel“ eftir því sem þarna fór fram og einhvers staðar í látunum sagði gestgjafinn „þið megið bara byrja“. Manngreyið sat bara og beið og svo fór að hann fékk ekkert að borða og svei mér þá ef hann situr ekki einhvers staðar enn og bíður (ok hann fékk að borða, en hitt hljómar svo fyndið). Í þessum hóp læra allir mjög ungir að þeir verða að bjarga sér sjálfir – sem er jú gott veganesti út í lífið. Ungur fjölskyldumeðlimur sagði í einni veislunni „ég ætla að hlaupa og ná mér í mat“, sem getur stundum borgað sig. Við tökum okkur sjálf ekki of alvarlega og erum ekkert að flækja hlutina. Við hittumst til að borða, hlæja, tala, tala, tala, og erum meðvituð um að það er alls ekki sjálfgefið að eiga „svona“ fjölskyldu.


Ég þurfti ekkert að hugsa mig frekar um þar sem ég sat og ætlaði að skrifa „formlegan“ pistil um forgangsröðun í lífinu. Henti mér út í bíl, dreif mig í afmælið í RVK og deili í staðinn persónulegri upplifun minni af fólkinu mínu sem ætti alltaf að hafa forgang, þrátt fyrir pistlaskrif, maraþonhlaup, tiltekt og önnur „mikilvæg“ verkefni í lífi mínu. Frændi minn minnti mig á þetta þegar ég mætti í afmælið, en hann tók utan um frænku sína, þakkaði henni fyrir komuna og sagði: Anna Lóa mín, þú hefur þá alla vega eitthvað til að skrifa um, t.d. frábæru fjölskylduna þína! Til hamingju með 19 árin elsku frændi og takk fyrir að minna mig á hvað það er sem skiptir máli í lífinu!

Buona fortuna!

Anna Lóa felice figlia