Ertu á síðasta söludegi!

Hæ Anna Lóa, nú vantar mig að fá lánaða dómgreind. Veit ekki alveg hvað mér finnst um þessa Ítalíuferð og nýja kærastann, ég hef ákveðnar efasemdir, sagði hún og dæsti. Hann sýndi á sér nýja hlið, var mjög stressaður og átti það til að missa sig. En það er svo brjálað að gera hjá honum í vinnunni, ofan á það ný kærasta svo kannski er ekkert skrýtið að eitthvað láti undan.

Bíddu - hvað gerðist? Ferðasöguna og það ekki seinna en strax!

Hann missti sig reglulega í umferðinni - en umferðarmenningin þeirra er kapítuli út af fyrir sig. Í eitt skiptið ók gömul kona í veg fyrir okkur og mér til skelfingar þá elti hann bílinn, flautaði frekjulega og sýndi ógnandi tilburði þegar hann sveigði bílnum hættulega nálægt bílstjórahurðinni á „óvinabílnum“ og gamla konan, sem mátti hafa sig alla við að halda bílnum á veginum, var skelfingin uppmáluð. Ég lét mig síga niður í sætinu, en hann var ekki hættur. Næst skrúfaði hann niður rúðuna og öskraði á þá gömlu að hún ætti frekar að halda sig heima hjá sér og svo fylgdi eitthvað sem ég skildi ekki en er nánast viss um það að páfinn í Róm hefði ekki verið sáttur.

Ja hérna - sagðirðu eitthvað við hann.

Já, já, ég spurði hvort viðbrögðin hefðu ekki verið aðeins of ýkt og hann horfði bara undrandi á mig og sagði „bíddu, ég var ekki að öskra á þig“!! Ég talaði fyrir daufum eyrum en samkvæmt honum er algjörlega réttlætanlegt að öskra og missa sig við þá sem haga sér svona eins og „bílstjóraómyndin“ sem hafði ekið í veg fyrir okkur.

Þú segir nokkuð - en öllum getur orðið á og það veit guð að ég hef misst mig við ákveðnar aðstæður. Vonandi „hagaði“ hans sér að öðru leyti?

Ja svona nánast. Öskraði reyndar á þjónustustúlkuna á veitingastaðnum sem við fórum á eitt kvöldið, en vá hvað sú klúðraði pöntuninni. Dagurinn var líka búinn að vera ótrúlega erfiður eitthvað og þetta fyllti mælinn. En mjög óþægilegt allt saman því stelpugreyið fór nánast að gráta þarna fyrir framan okkur og þegar ég ætlaði að hughreysta hana bannaði hann mér það.

HA, BANNAÐI hann ÞÉR það. Bíddu, missti hann sig á þig líka, svona fyrir utan að BANNA þér að vera þú!

Nú kom stutt þögn, svo: ég var reyndar ótrúlega lengi að taka mig til eitt kvöldið og þá tók hann smá rispu. En trúðu mér, ekkert alvarlegt, hann var bara þreyttur og pirraður og ég allt of lengi að finna í hverju ég ætti að fara. Verð að passa mig - þessir Ítalir eru svo blóðheitir!

Bíddu vinkona, ertu á síðasta söludegi og búin að planta þér í afsláttarhilluna? Af hverju ertu að afsaka hegðun hans og breyta þinni - já farin að gefa afslátt af sjálfri þér. Ertu virkilega að klína þessari hegðun á alla Ítala - og ertu að segja að það sé allt annað ef Ítali öskrar á þig á Ítalíu en ef Ísfirðingur öskrar á þig á Ísafirði! Ekki áttaði ég mig á því að viðhorf þín og gildi tækju mið af mismunandi menningarheimum. Ef það er málið er ég óendanlega fegin að kærastinn er ekki úr menningarkima þar sem þykir „eðlilegt“ að rassskella konuna sína úti á götu eða þaðan af verra. Eitt er að sýna umburðarlyndi og skilning á mismunandi siðum - allt annað að sætta sig við lítilsvirðingu annarra.  Hvað segir innsæi þitt og eru engin ljós farin að blikka, eða ertu kannski búin að slökkva bæði á innsæinu og rökhugsuninni svo þetta gangi upp! Það er eitt að fylgja hjartanu - en svo skiptir máli að hlusta þegar það dregur okkur út í allskonar vitleysu sem við vitum innst inni að er á engan hátt í takt við gildi okkar og viðhorf í lífinu!

Ok Anna Lóa, stoppaðu núna, þetta er komið! Veit alveg hvað mér finnst um þetta núna  - úff hvað ég þurfti á þessu að halda. Takk elskan,  ómetanlegt að finna dómgreindina „kikka“ aftur inn. Bíó um helgina??

Endilega!

Ok BÆ!

Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa


Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid