Er hægt að fá einn stuttan!

Ég á góðan vin sem heitir Jón (og hann heitir í alvöru Jón). Við tölum mikið saman eins og er eðli góðra vina og höfum ferðast saman í gegnum ótal hæðir og lægðir í lífinu. Hann hefur gefið mér ómetanlega sýn inn í heim karlmanna og hann hefur oftar en ekki þakkað mér fyrir að opna sýn hans á flóknum heimi konunnar. Ég ætlast til að Jón lesi pistlana mína því það er bara það sem vinir gera, en hann á í erfiðleikum með það. Af hverju – jú af því að þeir eru of langir: er ekki hægt að fá EINN stuttan  Anna Lóa!  Þú skrifaðir um daginn 750 orð um hve miklu máli skiptir að vera maður sjálfur og taka niður grímuna. Það hefði dugað mér að hlusta á Helga Björns syngja: vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt!

En honum finnst ekki bara pistlarnir mínir of langir því sömu skoðun hefur hann á statusunum mínum, sms-unum, tölvupósti, já honum finnst ég einfaldlega hafa of mörg orð um flesta hluti.

Hann segir að stundum sé ég 10 mínútur að segja eitthvað sem gæti tekið ½ mínútu og þessar 9 og ½ mínútu horfi hann á munninn minn hreyfast (eða setur símann á borðið) og er löngu dottinn út og farinn að hugsa um eitthvað allt annað (eins og „hvernig get ég bætt sveifluna mína“). Anna Lóa, mundir þú keyra hringinn í kringum landið til að komast í Skorradalinn þegar þú getur keyrt beint þangað uppeftir? Þú tekur ALLTAF lengri leiðina.

Jóni finnst að bak við umræður okkar þurfi að vera ákveðinn ásetningur: vandamál sem þarf að leysa eða ákveðinn hlutur sem verður að koma á framfæri. Samræðurnar eiga að leiða til þess að málið verði leyst á fljótlegan og öruggan hátt. Ég nota aftur á móti samtölin okkar til að komast að því hvernig mér líður og nota Jón sem spegil. Hann þarf EKKI að koma með lausn á vandanum en VERÐUR að hlusta á það sem ég hef að segja, finna til samkenndar og skilja af hverju mér finnist þetta eða hitt erfitt. Með því að deila vandanum líður mér betur jafnvel þó lausnin sé ekki komin. Þarna er munurinn á okkur í hnotskurn, hann finnur fyrir pressu til að bjarga málunum fyrir mig og mundi vilja stökkva í slökkviliðsbúninginn og slökkva alla elda. Hann verður ráðvilltur þegar hann hefur enga lausn á málunum á meðan ég þurfti ekki á slökkviliðsmanni að halda heldur einhvern sem er til staðar.  

Karlmenn (margir) eru frekar línulaga í hugsun, það er upphaf og það er endir en á meðan erum við konurnar (margar) frekar hringlaga, upphaf, miðja, upphaf, miðja.....förum út í smáatriðin og allt sem gæti tengst efninu. Einföld spurning: „getum við hist á mánudaginn“, ætti að vera hægt að svara með já eða nei en mitt svar gæti verið: er ekki viss þar sem ég var búin að lofa frænku minni að kíkja á ritgerðina með henni og ef hún er ekki með fyrirlestur það kvöld þá kemur hún til mín. Svo er ég búin að vera mikið í burtu undanfarið svo ég veit ekki hvort ég nenni að keyra í bæinn þetta kvöld. Ef ég er laus þá er spurning um hvort þú komir til mín þar sem bíllinn er heldur ekki kominn á vetrardekkin!
Jón er sofnaður á hinum enda línunnar.

Þetta snýst ekki um að ég sé að gera eitthvað rangt og Jón vinur minn rétt – frekar að við erum öll að reyna að hafa samskiptin í lagi og þau verða það frekar ef við áttum okkur á því að við nálgumst hlutina á mismunandi hátt.

Jón hefur ekki talað við mig í viku. Hann hringdi um daginn og sagðist vera veikur.  Þar sem ég var að skrifa þessa grein gaf  ég honum línulegt svar: hættu þessu væli Jón, fá þér Íbúfen og leggðu þig!!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér
www.facebook.com/Hamingjuhornid