Elsku karlinn, við köllum þetta breytingaskeiðið!

Reynum að hittast á kaffihúsi í miðborginni þegar færi gefst og nú er orðið allt of langt síðan við höfum hist. Hringdi í hann í síðustu viku og sagðist vera á leið í bæinn og hvort ekki væri kominn tími á „hitting“.
Veistu Anna Lóa, það er bara ekkert varið í að fara á kaffihús þegar maður drekkur ekki kaffi, og þessu fylgdi langt og kvalarfullt andvarp.
Drekkur ekki lengur kaffi – en þú elskar kaffi!!
Ég veit!! Fór til læknis um daginn. Er búinn að vera svo orkulaus, man ekkert stundinni lengur og hef átt erfitt með að einbeita mér. Svo er ég að finna fyrir kvíða og ónotum upp úr þurru og á það til að missa mig við minnsta tilefni. Konan alveg hætt að skilja þetta og svo hef ég fitnað ofan á allt saman. Ákvað bara að drífa mig í smá tékk, leist ekkert á þetta. Þegar læknirinn hafði hlustað á mig sagði hann að það væri greinilegt að þetta væri streita. Hann ráðlagði mér að drekka til dæmis minna kaffi, fara snemma að sofa, hreyfa mig meira og stunda slökun. Eina sem ég hef farið eftir er að hætta að drekka kaffi, ákvað bara að hætta því alveg þar sem ég hef ekki tíma í hitt.
Hum – ok skil!

Hvaða meinarðu með „hum“ Anna Lóa. Alltaf þegar þú segir „hum“ þá veit ég að þú ert ekki alveg sammála en segir samt ekki neitt af því að þú vilt ekki þröngva skoðunum þínum upp á aðra – eða þannig sko!! Komdu með það.
Ok, hér er mín greining, held reyndar elsku karlinn minn að þú sért að ganga í gegnum breytingaskeiðið! Þetta eru alveg sömu einkenni sjáðu til og þú ert einmitt á þeim aldri. Læknisráðin eru líka svipuð þeim sem eru gefin við breytingaskeiðinu.
Það var smá þögn á hinum enda línunnar, svo kom; breytingaskeiðið doktor Anna Lóa!  Ég veit að þú hefur verið að upplifa eitthvað í þá áttina en er nú ekki einum of langt gengið að klína því líka á mig. Þú hefur gjarnan orð á því að við séum líkar týpur en halló!!

Heyrðu vinur, karlmenn upplifa líka breytingaskeiðið, þú veist það alveg er það ekki! Af hverju má ekki nefna hlutina réttum nöfnum. Af hverju erum við konurnar viðkvæmar tilfinningaverur sem ráðum ekki við lífið og tilveruna en þið uppfullir af streitu þegar eitthvað svipað bjátar á. Þrátt fyrir að við tjáum okkur á mismunandi hátt þá eru konur og karlar bæði tilfinningaverur, við getum verið sammála um það. Breytingaskeiðið er tilfinningalegt og líkamlegt ástand sem allir upplifa en bara mis mikið. Geturðu sagt mér af hverju í ósköpunum okkur finnst eðlilegt að unglingsdrengir og stúlkur upplifi „unglingaveikina“  á vissum aldri en svo þegar við erum komin á miðjan aldur fara konur í gegnum breytingaskeiðið en hjá körlum heitir þetta streita eða grái fiðringurinn – HVAÐ ER AÐ FRÉTTA!!

Anna Lóa mín, ég var ekkert að segja að það væri ekki til breytingaskeið hjá körlum, efast bara stórlega um að það sé að angra mig enda ekki þekktur fyrir að vera þessi „viðkvæma“ týpa og ef það hefði verið málið af hverju sagði doktorinn það þá bara ekki.
Þessi viðkvæma týpa .......heldur þú í alvöru að það séu bara þeir „viðkvæmu“ sem upplifi breytingar þegar t.d. testósterónið minnkar í líkamanum?? Þetta er nákvæmlega ástæðan fyrir því að þrátt fyrir að doktorinn hafi grunað að þetta væri breytingaskeiðið hjá þér, þá hefur reynslan kannski kennt honum að það borgar sig kannski að kalla þetta frekar „streitu“.  Hvað heldur þú að það séu margir þarna úti sem líður bara alls ekki nógu vel en mundu aldrei viðurkenna það og djöflast þetta svo áfram í gegnum lífið af því að þeir hafa ekki tíma í svona „vitleysu“. Í stað þess að sætta sig við að lífið breytist á þessum aldri, og líka margt jákvætt sem fylgir því. Öll næmni eykst og í framhaldinu fara t.d. margir að skynja hlutina öðruvísi og upplifa jafnvel nýja hæfileika hjá sér. En nei, nei, sumir eru náttúrulega bara svo uppteknir  og fullir af streitu að þeir finna ekki fyrir neinum breytingum af því að þeir eru ekki þessar „viðkvæmu“ týpur.  Æ veistu, ég verð að fá að tala við þig seinna, er í hitakófi hérna og er að berjast við grátinn!

Common Anna Lóa mín, auðvitað fáum við okkur kaffi saman, þú mátt ekki vera svona viðkvæm!! Anna Lóa, halló.......ertu þarna!

Þangað til næst – gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid