Ég, um mig, frá mér...

Sjálfhverfur - sá sem hyggur mest að sjálfum sér, sérhygginn (skv. íslenskri orðabók).
Á það til að detta í sjálfhverfu en þá tek ég inn á mig hluti sem ég á ekkert í, les kolvitlaust í aðstæður og bregst við eftir því. Þetta hefur komið mér í vandræði og hefur hvarflað að mér að samkvæmt kenningum Eriksson varðandi félagsþroska hafi ég staðnað á einhverju stiginu.

Þegar ég fór í nám í RVK á sínum tíma þurfti ég að finna mér nýjan hárgreiðslumeistara. Flestar konur eru meðvitaðar um að þetta er mjög vandasamt verk því fyrir utan að sjá um hárið á manni þarf manni að líka sæmilega við meistarann því maður hleypur ekki hverjum sem er í hárið á sér eða inn í líf sitt. Já það á sér nefnilega stað ákveðin meðferð í stólnum hjá meistaranum - sem í besta falli báðir aðilar græða á. Ég valdi vel og var svo heppin að ég eignaðist góðan vin í meistaranum mínum. Samræðurnar voru djúpar, oft á tíðum mjög gagnlegar og ósjaldan vorum við með svör við ráðgátum lífsins þegar ég stóð upp úr stólnum. Einu sinni sem oftar pantaði ég tíma hjá honum en þar sem ég var nemi á þessum árum og fjárráðin í samræmi við það þurfti ég að afpanta tímann. Hann fékk skilaboðin frá móttökunni og hringdi um hæl - það kæmi ekki til greina að fresta tímanum, ég gæti bara borgað þegar ég hefði efni á því.

Ég var ánægð og þakklát og gerði eins og um var samið, setti peningana í umslag um mánaðarmótin og skildi eftir í móttökunni. Líður svo og bíður og það kemur að næsta tíma. Ég sest í stólinn en það var allt breytt. Meistarinn minn var ekki eins og hann átti að sér að vera og ég skildi ekki neitt í neinu. Samræðurnar voru frekar einræða af minni hálfu og engin dýpt eins og vanalega, engar ráðgátur leystar. Ég fór að hugsa (sem þýðir oft vandræði) og VISSI strax hvað hafði gerst. Hann hafði pottþétt ekki fengið að vita að ég kom og borgaði fyrir klippinguna og hélt að ég mætti svo aftur eins og ekkert hefði í skorist og ætlaðist til að við héldum „sambandinu“ áfram. Ég hugsaði: úff, hér sit ég í stólnum og hann örugglega miður sín vegna „framkomu“ minnar.

Ég hafði það ekki í mér að LEIÐRÉTTA þetta á staðnum. Ég fór heim og hugsaði meira (sem ég á alls ekki að gera) og komst að því að best væri að ég skrifaði honum bréf þar sem ég útskýri fyrir honum að ég hafi vissulega komið um mánaðarmótin og borgað skuldina en það væri ekki óeðlilegt að hann hafi misskilið þetta ef hann fékk ekki réttar upplýsingar.  Ég var heillengi að skrifa bréfið, það var upphaf, dramatísk miðja um mikilvægi heiðarleika þegar kemur að vinskap og svo kærleiksríkur endir. Því næst hringdi ég í móttökuna og bað móttökustjórann (sem var reynda vinkona mín) um netfangið hjá vini mínum kæra. Hún lét mig fá það en spyr svo; bíddu eruð þið núna farin að skrifast á?? Ég útskýrði hratt mína kenningu ,,sko, ég kom í klippingu og hafði ekki efni á að borga, en gerði það um mánaðarmótin, en hann hefur pottþétt ekki fengið að vita það og heldur núna að ég sé óheiðarleg frekjudolla sem kem og hlamma mér í stólinn og minnist ekki á skuldina.....verð að útskýra fyrir honum að hann hefur misskilið þetta allt“.

Það varð smá þögn á hinum enda línunnar, svo segir vinkonan; Anna Lóa, ég held að það sé ekki hann sem er að misskilja, datt þér einhvern tímann í hug að þetta snerist alls ekki um þig! Hann er búinn að vera niðurdreginn í svolítinn tíma - vissir þú ekki að hann var að skilja!
Þarna var komið að mér að þegja.....í smá stund. Kreisti svo upp tilgerðalegan hlátur og sagði; hva, AUÐVITA var hann að skilja, það er ekki eins og ég sé búin að vera velta mér upp úr þessu. Jæja esskan, er ekki annars allt í góðu hjá þér.......

Ég náði botninum í sjálfhverfu einmitt þarna - engin leið nema upp á við eftir þetta!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa

Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid