Ég er eins og ég er...

...hvernig á ég að vera eitthvað annað.
Hvað verður um mig,   
ef það sem ég er, er bölvað og bannað.

Textinn er auðvitað úr laginu „Ég er eins og ég er“ sem Páll Óskar hefur sungið örugglega inn í hjörtu okkar (þýð: Veturliði Guðnas). Mér hefur verið tíðrætt um það í pistlunum mínum hversu miklu máli skiptir að við fáum að vera við sjálf, með kostum okkar og göllum. Samt sem áður dettum við svo oft í þá gildru að dæma samferðarfólk okkar út frá okkur sjálfum. Veit ekki hversu oft ég hef fengið að heyra: þú mátt ekki vera svona viðkvæm!! Lengi vel fannst mér svakalegur  veikleiki að vera mikil tilfinningavera, eða þangað til ég áttaði mig á því að styrkleikar og veikleikar mínir eru hluti af sama menginu. Áhugi minn á fólki og atferli hefur verið til staðar frá því að ég var barn, ég hef verið félagslynd og gjarnan viljað vera í sviðsljósinu. Ég á það til að vera hvatvís, líkar vel að vinna í hópi og vilja gjarnan leysa vandamál með því að tala um þau. Með þessa eiginleika hef ég fundið draumastarfið mitt í kennslu og ráðgjöf. Ég elska að þjálfa, kenna og sýna fólki skilning þegar kemur að vandamálum.  

Bíddu er konan að skrifa ferilskrá, gæti einhver verið að hugsa núna. Nei, það sem ég er að reyna að benda á að þessir ákveðnu eiginleikar geta snúist upp í andhverfu sína í miklu álagi eða þegar ég lendi í erfiðum aðstæðum. Ég hef þurft að berjast við hvatvísina á stundum, þurft að greina og skilja allt, og gleymt mér í að tala um vandamálin þangað til ég man ekki um hvað þau snerust í byrjun.

Þetta getur átt við allar starfsstéttir, þ.e. að ákveðnir eiginleikar sem nýtast í starfi geta snúist upp í andhverfu sína.

Ég þekki bæði smið og bifvélavirkja sem eru handlagnir og að vinna með vélar, hluti og tæki fellur þeim vel. Þeir eru frekar jarðbundnir og íhaldssamir og allar breytingar verða að vera hagkvæmar til að þeim líki þær. Þeir vilja ganga í hlutina, vinna þá eins og menn og ekkert kjaftæði. Þeim finnst ekkert voðalega gaman að ræða hlutina. Einu sinni þurfti ég að ræða málin við bifvélavirkjann minn og hans viðbrögð urðu: heyrðu, ég ætla aðeins út í bílskúr að laga bílinn, tökum þessa umræðu síðar. Svo áttaði ég mig á því að hann er búinn að vera úti í bílskúr í 3 mánuði!!

Listrænir og skapandi einstaklingar þurfa að vera meðvitaðir um allan tifinngaskalann því annars reynist þeim erfitt að skapa og koma fram. Hver mundi nenna að horfa á leikara uppi á sviði sem væri ekki í tilfinningunni eða hlusta á söngvara sem syngur vélrænt. Leikarar og aðrir listamenn þurfa að búa  yfir ákveðinni tækni til að koma fram því lífið þeirra er ekki alltaf dans á rósum frekar en hjá öðrum. Við heyrum ekki tilkynningar eins og: Borgarleikhúsið frestar sýningu í kvöld því aðalleikarinn er ekki í andlegu jafnvægi – nei „the show must go on“. Við gætum því séð fyrir okkur leikara sem skrapar botninn tilfinningalega fyrir hádegi, en getur svo látið heila þjóð hlæja með sér um kvöldið.

Vinkona mín vinnur sem bókari og þarf umfram allt að vera skipulögð og með næmt auga fyrir villum. Hún vill hafa allt í kringum sig vel skipulagt – já hafa hlutina í röð og reglu. Þetta hefur sína galla því ef handklæðin heima hjá henni eru ekki brotin rétt saman svo ég tali nú ekki um eftir lit, finnur hún fyrir líkamlegri vanlíðan. Hún á oft erfitt með mig og klæjar í puttana að fá aðeins að flokka, raða og skipuleggja og kenna mér hvernig á að gera þetta allt. Umfram allt vill hún að ég hætti þessu tilfinningarausi – eða allt þar til hún þurfti sjálf á ráðgjöf að halda.

Við skulum fagna fjölbreytileikanum og þakka fyrir að það séu til manneskjur sem búa yfir öðrum eiginleikum en við og sinna því störfum sem við höfum hvorki áhuga né hæfni til að taka að okkur.

Nú sit ég bara og græt, æ þetta er eitthvað svo tilfinningahlaðið allt saman!!

Þangað til næst – gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér – http://www.facebook.com/Hamingjuhornid