Dularfulli Disney draumurinn!

Dreymdi ótrúlega skrýtinn draum í vikunni - jú nefnilega að ég væri í sambúð með Pétri Pan, ég var sjálf Vanda og saman áttum við tvö börn, Gosa og Öskubusku.

Eins og gefur að skilja var samband okkar Péturs litað af veikleika hans: að neita því að þroskast eins og fullorðnum einstakling sæmir. Ég var ein af mörgum konum sem hann hafði verið í sambandi með því munstrið hans er að fara úr einu sambandi í annað og ,,neita“ því að fullorðnast en eins og við vitum þá heldur Pétur Pan í bernskuna með því að vera óbundinn og frjáls. Hann á erfitt með að horfast í augu við raunveruleikann og flýr þess vegna í Einskismannsland með frjálsum vinum sínum þegar á reynir. Ástæðan fyrir þessum tilfinningum er kvíði, einmanaleiki og ótraust sjálfsmynd sem veldur því að hann á í erfiðleikum að vera í nánu gagnkvæmu ástarsambandi eða hann hefur hreint og beint ekki þol né getu til að takast á við alvöru samband. En þar sem ég var Vanda, þá var Pétur Pan draumaprinsinn holdi klæddur.

Ég var frekar eins og mamma Péturs en sambýlingur. Ég afsakaði ábyrgðarleysi hans og strákslega hegðun fyrir öðrum með því að segja ,,æ þessi elska, er bara eins og eitt af börnunum mínum, getur ekki án mín verið“. Ég gerði mig algerlega ómissandi, og elskaði þegar Pétur minn sagði ,,ég skil ekki hvernig ég fór að áður en ég kynntist þér“ svona rétt áður en hann fór í fjögurra daga pókerferð með strákunum til London. Sem Vanda vissi ég hvernig ég átti að fá Pétur til að gera það sem ég vildi og hann kom sér oft út úr vandamálum með því að segja ,,já alveg rétt elskan“ en tók samt aldrei á málunum í raun og veru. Þegar Pétur Pan gekk fram af mér þá notaði ég hefndaraðgerðir eins og að fara og eyða fullt af peningum í hluti sem mig vantaði ekki neitt eða hótaði honum með ,,klæddu þig bara í grænu sokkabuxurnar og forðaðu þér í Einskismannsland -“ á meðan við vissum bæði að hann var eins og teygja sem kom alltaf til baka.

Börnin mín í draumnum auðvelduðu ekki málin. Öskubuska beið eftir að vera bjargað frá þessu leiðindaheimili og var nokkuð viss um að prinsinn á hvíta hestinum mundi banka upp einn daginn með skó sem passaði einmitt á hana. Hún gekk um húsið með vandlætingasvip því hún átti svo mun betra skilið og bara tímaspursmál hvenær hún mundi flytja inn í höllina þar sem prinsinn mundi bera hana á höndum sér. Hún var hætt að sína metnað í námi því hennar hlutverk í framtíðinni mundi ekki tengjast akademískum heimi, hún mundi helga það prinsinum og börnunum og það tekur nú sinn tíma að halda heilli höll í standi. Hún notaði setningar eins og ,,bíðið þið bara því þegar ég er flutt héðan og búin að eignast það líf sem ég á svo skilið skal ég sýna ykkur hvað í mér býr“.

Gosi var kapítuli út af fyrir sig. Hann lenti í slæmum félagsskap og vissi ekki lengur muninn á réttu og röngu. Hann vann sem plötusnúður á næturklúbbi og var mest umhugað um álit annarra,  græða sem mestan pening og eiga þannig fyrir hinu ljúfa lífi sem freistaði hans mikið. Nefið á honum stækkaði með hverjum deginum og nokkuð ljóst að vinur hans, Siggi Samviska, hafði lítil áhrif.

Ég vaknaði sveitt og sá Disney persónurnar í nýju ljósi - var undirmeðvitundin að segja að ég ætti við Vöndu-vanda að stríða? Þakkaði samt fyrir að hafa ekki verið ,,vonda stjúpan“ í Mjallhvít og dvergarnir sjö eða agalega Grimmhildur Grámann, sú freka, ríka og stjórnsama kona í 101 Dalmatíuhundur, sem lét græðgi og hégóma stýra lífi sínu. En það var einmitt hún sem var ofarlega í huga mér þegar ég fór í göngutúr til að greina þetta frekar og verð að nota tækifærið og biðja vesalings konuna með hundana afsökunar. Þegar ég sá hana koma labbandi með fjóra hunda sá ég bara fyrir mér Grimmhildi, sem stelur hundum því hana langar í hvolpaskinns-kápu með hettu. Það voru því algjörlega ósjálfráð viðbrögð að stoppa og öskra á eftir henni ,,að þú skulir ekki skammast þín“.

Ætla að reyna að dreyma að ég sé Lína-langsokkur eða Ronja ræningjadóttir þessa vikuna. Það er meira ég!!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid