Blessaði breytinga-barningurinn!

Honum var mikið niðri fyrir og ég heyrði strax að nú var eitthvað í aðsigi; veistu, Anna Lóa, nú ætla ég að taka sjálfan mig algjörlega í gegn. Var að kaupa mér kort í ræktinni og búinn að fara 4 sinnum í vikunni og finn alveg að minn tími er kominn. Keypti mér nýja flotta skó og svaðalegt ,,outfit“ og get svo svarið að ég finn strax mun á mér. Verslaði svo mikið af hollustu áðan að ef það hefði farið einn grænn hlutur í viðbót ofan í körfuna hefði ég breyst í kálhaus á staðnum. Er búinn að ákveða að héðan í frá er það fyrir og eftir breytingar. Þú veist hvernig ég er,  tek þetta alla leið ellegar ég sleppi því.

Flott hjá þér - styð þig að sjálfsögðu en mundu að þetta er ferli. Ákvörðun um að breyta er eitt - að fylgja breytingunum eftir er svo allt annað. En frábært að þú sért búinn að taka ákvörðun um að breyta, þá ertu allavega kominn á stig þrjú - undirbúningsstigið!!
Er ég komin á stig þrjú!!! Er hægt að flokka mig í stig með þessari ákvörðun minni um að byrja í ræktinni. Hvað eru þetta eiginlega mörg stig ??

Stigin eru sex en sjáðu til, þegar við ákveðum að breyta einhverju er þetta ekki spurning um að taka bara ákvörðunina og þá gerist eitthvað stórkostlegt. Við förum yfirleitt í gegnum ákveðið ferli. Fyrst erum við í afneitun en þá erum við ekki tilbúin að horfast í augu við að breytinga er þörf. Svo ákveðum við að breyta en erum að meta kosti og gallana við breytingarnar og leggjum frekar áherslu á gallana. Í þínu tilviki var þér tíðrætt um að þrátt fyrir að þú vissir að það mundi gera þér gott að hreyfa þig og borða hollara fæði þá hefðir þú hvorki tíma né pening í slíkt. Á þriðja stigi áttum við okkur á því að kostirnir eru fleiri en gallarnir og undirbúningur hefst  og við fylgjum því eftir með því að velja líkamsræktarstöðina og kaupa kortið. Hér er smá hætta á að fólk gleymi sér í hrifningu því það eitt að ákveða að innleiða breytingu vekur jákvæðar tilfinningar. Þá erum við með tilkynningar eins og: ,,hver haldið þið að hafi verið að fjárfesta í líkamsræktarkorti og er að fara að taka‘ðetta með trompi“ og maður uppsker  jákvæð viðbrögð frá umhverfinu sem eru að sjálfsögðu hvetjandi og okkur líður strax betur, þrátt fyrir að vera jafnvel ekki byrjuð í ræktinni.

Bíddu, varstu að tala við konuna!!
Nei nei, svona er þetta bara og mundu að þú ert rétt að byrja. Ég er alls ekki að draga úr þér - en er bara að minna þig á að breytingar eru ferli, og þú hefur ekki alltaf þolinmæði í það. Manstu þegar þú byrjaði í golfi, og í stað þess að taka þetta stig af stigi fórstu og keyptir dýrasta golfsettið og kerran var bara atriði út af fyrir sig. Tíu tommu dekk með spólvörn og vökvabremsum, fyrir utan að vera vind- og vatnsvarin með u.þ.b. 30 hólfum þar sem þú hefðir hæglega getað komið helmingnum af eigum þínum fyrir.  Svo gafstu þér ekki einu sinni tíma til að læra að opna kerruna,  og blótaðir henni í sand og ösku í þessi þrjú skipti sem þú fórst út á völl. Að sjálfsögðu þurftir þú ekki á neinni golfkennslu að halda þar sem þú varst golfari af guðs náð, en ekki leið á löngu þar til þú komst að því að þetta væri bara fyrir fólk sem nennti ekki að vinna. Settið góða og kerran fengu pláss við hliðina á skíðunum, keppnishjólinu, íshokkískautunum og lyftingabekknum. Sérðu ekki munstrið elsku vinur! Þig vantar úthaldið - en það er alveg sama hvað við tökum okkur fyrir hendur, við þurfum alltaf að halda út þótt við upplifum bakslag. Nú er framundan hjá þér að láta verkin tala, hafa úthald og svo stöðugleiki. Breytingar krefjast þrautseigju og hluti af ,,gamla“ þér hverfur smám saman og ,,nýi“ þú kemur upp á yfirborðið þegar breytingarnar eru orðnar að lífsstíl.

Skil hvað þú átt við Anna mín - engar áhyggjur. En verð að halda þessum samræðum áfram seinna, er að fara í túrbó-spinningtíma, er alveg ,,húkked“. Langar mest að kaupa svona hjól og eiga heima í stofu!!
Hvað ætli svona kosti??

Þangað til næst - gangi þér vel!

Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid