Bara fótboltaleikur - held nú ekki vinan!!

„Hvernig dettur konunni í hug að segja þetta, veit hún hvað maðurinn stendur fyrir, hvað þykist hún eiginlega vera“. Ekki laust við að fjölmiðlar hafi logað eftir ummæli blaðakonu um að ,,gamli karlinn“ Sir Alex Ferguson væri að hætta sem knattspyrnustjóri Manchester United - en þar gerir hún grín að viðbrögðum karlmanna vegna fréttarinnar.

Mér fannst fróðlegt að heyra þessi viðbrögð enda góð áminning um að þegar tilfinningar eru annars vegar ættum við að fara varlega í að dæma. Hvað svo sem okkur gæti þótt um fótbolta þá er lærdómurinn sá að við höfum gott af því að skoða hvernig við setjum okkur í dómarasætið og höfum skoðanir á því hvernig aðrir eiga að haga sér.

Ég fæ stórkostlega tilfinningaútrás á að horfa á dramatískar myndir/þætti sem koma við mínar innstu taugar og best ef ég fer aðeins að grenja. Synir mínir hafa vit á því að segja sem minnst ef þeir koma að mér í þessu ástandi en versta sem er hægt að segja við mig er: common mamma, þetta er bara bíómynd! Bara bíómynd, BARA bíómynd, ég held nú síður. Þetta er mynd sem kemur mér í tengsl við tilfinningar mínar, dýpkar skilning minn á mannkyninu og gerir mig að betri manneskju þegar upp er staðið.

Ég lifi mig svo inn í sumar myndir/þætti að ég kann heilu senurnar, þekki karakterana og ræði um þá eins og heimilisvini. Ég hef krufið þá: af hverju eru þeir á þeim stað sem þeir eru og hvernig geta þeir komist á betri stað í lífinu. Þessa dagana er ég t.d. með nákvæma áætlun fyrir Birgitte Nyborg úr Höllinni, áætlun um hvernig hún getur létt á álaginu sem einkennir líf hennar, notið þess að eiga kærasta og aðeins lært að sleppa tökunum. Við eigum svo margt sameiginlegt að það er ekki fyndið - þið ættuð bara að sjá mig í nýju dragtinni minni og hver haldið þið að sé að safna hári!!!

Þegar ég hugsa um karlmenn og fótbolta sé ég þetta nákvæmlega eins og þessar upplifanir mínar. Liðið sitt þekkja þeir út og inn og svo ekki sé talað um knattspyrnustjórann. Með því að vera innviklaðir í fótboltann eru þeir að komast í nánari tengsl við tilfinningar sínar sem þegar til lengri tíma er litið er aldeilis frábært. Ég hef heyrt karlmenn tala um leikmenn eins og um sé að ræða góða heimilisvini þar sem persónum er lýst ítarlega og hvaða úrbætur væru ákjósanlegar ef þeir ætla ekki að klúðra lífi sínu. Ef mér hefur orðið á að segja: bíddu, hann er að klúðra hverjum leik á fætur öðrum“  fæ ég umsvifalaust að vita að dómharka mín eigi engan veginn rétt á sér miðað við það sem maðurinn er búinn að ganga í gegnum undanfarið.

Það er dásamlegt að fylgjast með karlmönnum horfa á spennandi leik. Þeir fella tár, faðmast, hrópa og kalla, bölva og stappa og fá útrás sem þeir fengju ekki alla jafnan og mundu jafnvel skammast sín fyrir. Jafnvel þótt liðið tapi leik stækka þeir tilfinningasviðið sitt og deila með öðrum vonbrigðum sínum og svekkelsi um leið og þeir greina hvað fór úrskeiðis. Þannig getur einn fótboltaleikur jafnast á við nokkra meðferðatíma hjá fagaðila. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að athugasemdir eins og: common, þetta er bara fótbolti!! eiga klárlega ekki við þegar leikurinn er í hámarki.  Ég vísa bara í viðbrögð mín hér að ofan þegar mér er bent á slíkt á ögurstundu í bíómyndaglápi - BARA fótboltaleikur, maður segir ekki svona!! Tilfinningaútrás er einstaklingsbundið atferli og margt mun verra sem kemur upp í hugann en bíómynda- og fótboltagláp!!

Sir Ferguson og Birgitte Nyborg eru hér með kvödd með trega en leikurinn heldur áfram. Á sama tíma afsala ég mér þeirri ábyrgð að pistill þessi sé notaður til að réttlæta öfgafulla aðdáun eins og svefnpokapláss á uppáhalds sportbarnum, barsmíðar og brjálæðis bjórþamb,  helgarferðir á heimaslóðir frk. Nyborg svo ég tali nú ekki um lýtaaðgerðir til að líkjast uppáhalds (safna hári telst ekki lýtaaðgerð!).

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér - http://www.facebook.com/Hamingjuhornid