Að vera reynslunni ríkari!

Enginn kemst í gegnum lífið án þess að takast á við erfiðleika eða áföll. Umræðan sem snýr að sorg og áföllum hefur frekar verið tengd þeim neikvæðu afleiðingum sem slíkt hefur í för með sér en ekki má útiloka að í mörgum tilvikum er um að ræða jákvæðan þroska í kjölfar missis, þó maður mundi gjarnan vilja vera án þeirrar erfiðu reynslu sem kallar fram slíkan þroska.

Til að gefa dæmi um þann þroska sem fólk dregur af áföllum má nefna breytta skynjun á sjálfan sig, en það er ekki óalgengt að fólk upplifi nýjar hliðar á sér, verði jafnvel sterkara á ákveðnum sviðum og þakklátara fyrir vissa hluti sem það hefur þurft að láta reyna á. Sú tilfinning að viðkomandi sé orðinn sterkari og geti þolað næstum hvað sem er eftir að hafa farið í gegnum áfall, er algeng.
Fólk talar gjarnan um að það eigi í dýpri og merkingarbærari samböndum við aðra eftir áföll og það geri sér betur grein fyrir hvað það er sem skiptir máli í samskiptum og hvaða sambönd beri að rækta. Þá virðist fólk eiga betur með að setja sig í spor annarra og sýna meiri samúð og samkennd en áður. Þá tala þeir sem hafa lent í erfiðum áföllum um að þeir eigi auðveldara með að tjá tilfinningar sínar.

Þá hafa margir talað um breytta lífsskoðun og þá vísað til þess að þeir öðlist nýja sýn á lífið í kjölfar áfalla og verði ýmist mjög trúaðir eða finni nýjan tilgang með lífinu. Fyrir suma er breytingin á lífinu svo mikil að þeir tala um „fyrir og eftir“ atburðinn sem breytti öllu.

Það er mikilvægt að vera meðvitaður um að sorgin er einstaklingsbundin og þar af leiðandi úrvinnsla hennar líka. Þegar einstaklingur fer í gegnum þetta ferli skiptir miklu máli að viðkomandi vinni í sorgarferlinu en ekki síður að taka það í smá skömmtum og sinna öðrum verkefnum meðfram því. Þá er leitast eftir ákveðnu jafnvægi milli þess að takast á við íþyngjandi verkefni sorgarinnar og þess að eiga stundir sem ekki eru markaðar af sorginni, þannig að jákvæðir og neikvæðir þættir kallist á. Þannig er hægt að líta á þetta ferli sem mikilvægan þátt í enduruppbyggingu einstaklingsins sem vegna áfallsins getur stigið upp sterkari aðili sem lifði af en nýtti sér á sama tíma, erfiða reynslu til að skapa sér betra líf.

En í lífi okkar geta líka komið fyrir augnablik eða aðstæður sem breyta okkur á þann veg að viðhorf okkar til lífsins breytast í kjölfarið þrátt fyrir að ekki sé um persónulegan missi eða áfall að ræða. Þannig er eins og lífið sé að undirbúa okkur á einhvern hátt undir það óumflýjanlega og ef við tökum á móti þá getur sú reynsla nýst okkur á erfiðum tímum. Til þess að missa ekki af þessum augnablikum þurfum við að vera opin fyrir umhverfinu og hugsa meira út fyrir okkur sjálf og þægindahringinn okkar, vera vakandi þegar við kynnumst nýju fólki og aðstæðum, og hlusta á hvað aðrir hafa að segja.  Lífið sjálft og okkar innri maður er í sífelldri endurnýjun – svo framarlega sem við leyfum því gerast!

Lífið er nú einu sinni þannig að öll þurfum við einhvern tímann að þjást og þó við getum ekki haft áhrif á þær aðstæður sem valda þjáningunni kunnum við hins vegar að geta haft áhrif á afstöðu okkar til þjáningarinnar.

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa
Fylgstu með mér

http://www.facebook.com/Hamingjuhornid