Ég á mér draum!

Þar sem ég stóð og horfði á þau fylltist ég bæði stolti og gleði. Stolti yfir því að fá að vera þátttakandi á þessum tímamótum í lífi þeirra og gleði vegna þess að þau kláruðu verkefnið til enda og standa uppi sterkari fyrir vikið. Þetta er uppáhalds tíminn minn í vinnunni, útskrift nemenda. Hef fylgst með þeim frá því að þeir löbbuðu inn fyrsta daginn, margir óöruggir og fullir af efasemdum um sjálfan sig og eigin getu. Horfa svo á sömu nemendur takast á við hverja hindrun á fætur annarri og öðlast smám saman meiri trú á sjálfum sér með jákvæðum afleiðingum sem eykur lífsgæði þeirra og fólksins í kringum þau. Þau eru að skapa sér nýtt líf með því að láta drauma sína rætast.


Okkur er öllum hollt að staldra við og velta fyrir okkur hverjir eru draumar okkar og hvað viljum við fá út úr þessu lífi. Draumar eru ekki bara fyrir einhverja aðra, og við þurfum ekki að vera staðsett á einhverjum ákveðnum stað í lífinu til að hafa leyfi til að láta okkur dreyma um betra eða öðruvísi líf. Mér fannst á ákveðnu tímabili í lífinu að ég ætti að vera ánægð með stöðu mína og það væri bara vanþakklæti að vilja eitthvað annað og meira út úr lífinu. Þegar ég þorði að horfast í augu við að ég vildi fá meira út úr þessu eina lífi sem mér hefur verið gefið var fyrsti sigurinn unninn. Það getur enginn annar ákveðið hvað er rétt fyrir mig nema ég sjálf og mikilvægt að hafa í huga að það er gildismat mitt sem ræður þar mestu. Hvað er það sem skiptir mig máli og hvernig get ég breytt lífi mínu þannig að ég lifi eftir þeim gildum sem eru mér mikilvæg?


Draumar okkar eru ekki meitlaðir í stein og ég skrifa mína niður nokkrum sinnum á ári því þeir taka breytingum eftir því sem ég þroskast og breytist. Þegar ég hef náð að uppfylla einn af draumum mínum fyllist ég sjálfstrausti sem gerir það að verkum að ég hef trú á því að ég ráði við aðra hluti sem ég leyfði mér ekki að dreyma um hér áður.


Þegar ég skrifa niður draumana mína kem ég mér fyrir á þægilegum stað og bý til stemningu þar sem mér líður vel (kertaljós og þægileg tónlist virkar best á mig). Síðan skrifa ég allt niður á blað sem kemur upp í hugann og gef skynseminni algjörlega frí á meðan og leyfi tilfinningunum að ráða ferðinni. Ég geri svo markmið út frá draumunum og ákveð hvaða skref ég ætla að taka til að láta draumana rætast.


Ég nota draumana mína til að segja sjálfri mér að ég hafi leyfi til að láta mig dreyma um allt - sama hvað öðrum gæti þótt um það. Stuðningslið er ekki endilega til staðar þegar við látum okkur dreyma og þar kemur tvennt til. Öðrum finnst þeir hafa sjálfskipað vald til að halda manni á jörðinni og svo geta hugsanir okkar og draumar verið óþægileg ábending fyrir fólkið í kringum okkur - ábending um að maður þarf sjálfur að taka ábyrgð á því hvernig líf maður vill. En stærsta hindrunin er yfirleitt við sjálf þar sem hugur fullur af efasemdum ræður för og keppist við að segja okkur að við séum of gömul, of ung, eigum of mörg börn eða of lítið af peningum eða það sé ekki til neins að leyfa sér að eiga drauma. Oft er um að ræða hugsanavillur úr fortíðinni sem elta okkur uppi og draga úr okkur kjarkinn við hvert tækifæri. Þá skiptir öllu máli að hafa kjark til að halda áfram þrátt fyrir óttann og kveða þessar hugsanir þannig smám saman niður.
Eins og kom fram í byrjun þessarar greinar þá er svo mikilvægt að við vitum hvað við viljum fá út úr þessu lífi og taka þannig ábyrgð á því hvaða leið við förum í þessu ferðalagi og velta í leiðinni fyrir sér hvort maður ætli að vera bílstjórinn eða farþeginn í þessari ferð. Þrátt fyrir að það geti verið þægilegt að vera farþeginn og þurfa ekki að taka ábyrgðina á því hvert skuli fara og hvaða leið verði valin til að komast á áfangastað, þá getum við endað á einhverjum allt öðrum stað en við ætluðum okkur.


Lesandi góður, hvet þig til að halda draumum þínum lifandi og vera þannig virkur í þeirri sköpun sem lífið er, því þegar upp er staðið þá skapar þú allt í lífi þínu. Vertu á varðbergi hvort verið sé að stíga á draumana þína en ekkert síður hvort þú sért að stíga á drauma annarra. Ef þú gerir alltaf það sem þú hefur alltaf gert - færðu alltaf það sem þú hefur alltaf fengið!

Þangað til næst – gangi þér vel.
Anna Lóa.