„Kirkjuleg“ áramótakærleikskveðja!

„Ertu til í að vera með í að skipuleggja og taka þátt í Maríumessu“. Ég trúði ekki mínum eigin eyrum, ég að tala í kirkju. Fyrir kristinfræðikennarann og núverandi nemanda í guðfræðideild hljómaði þetta eiginlega of gott til að vers satt. Ég var ekki lengi að samþykkja þetta og svo hugsaði ég ,,nú skal ég sko vanda mig sem aldrei fyrr og pússa gamla geislabauginn svo stirni á og stífa vængina - heilaga Lóa mætt á svæðið“.

Sunnudagurinn fór í að skrifa hugvekju um kærleikann - sem var svo brakandi fín að þegar ég bað vin minn að lesa yfir átti hann í mestu vandræðum. ,,Anna Lóa, þetta er mjög fínt hjá þér en ólíkt öllu sem þú hefur skrifað, það var eiginlega bara erfitt að lesa þetta“. Hrokinn kom upp í minni og ég hugsaði ,,hann skilur bara ekki hvað það er mikilvægt að hafa þetta nánast heilagt - ég meina ég ER að fara að tala í kirkju“. En þetta hreyfði við mér og ég fór að hugsa - sem ég geri stundum á tyllidögum; af hverju var ég beðin að tala um í kirkjunni. Jú líklega af því að ég hef náð til fólks, bæði sem ráðgjafi og pistlahöfundur. Ég hef reynt að sleppa yfirborðsmennskunni og einsett mér að vera einlæg í því sem ég er að fást við og passa mig á þeirri gildru að reyna ekki að vera það sem ég tel að aðrir vilja að ég sé.

En það gildir bara annað þegar maður er að tala í kirkju!!! Mér fannst að ég yrði að sýnast æðri, meiri, merkilegri........úff, einhvern veginn ekki alveg rétti andinn og ég var komin á mjög hættulegan stað.  Hvernig ætlaði ég að ná til þeirra sem þarna voru ef ég þorði ekki að gera það sem ég er alltaf að tala um - vera ég sjálf. Ætlaði ég að segja við aðra að besta eintakið af okkur sjálfum er frumeintakið, en ekki léleg kópía af einhverjum öðrum - nema þegar þú talar í kirkju!!
12.12.2012 rann upp - þessi flotti dagur og Maríumessan framundan. Ég var enn að vesenast með þetta - heilaga Lóa eða ég sjálf!! Ég ákvað að biðja um hjálp - fá þetta til mín sem það gerði svo sannarlega (það er efni í annan pistil). Ég skrifaði nýja hugvekju og var búin með hana rétt áður en messan hófst - ég ákvað að hugvekjan um kærleikann kæmi frá hjartanu - án ritskoðunar og efasemda um hvort það sem ég hafði fram að færa væri nógu ,,kirkjulegt“.
Sannur kærleikur í mínum huga snýst um að maður beri það mikinn kærleika til sín og annarra að maður þori að koma fram til dyranna eins og maður er klæddur og það var hárrétt ákvörðun hjá mér þetta kvöld - takk þið sem voruð þarna með mér. Það skiptir svo miklu máli  að treysta því samfélagi sem maður tilheyrir fyrir sjálfum sér og trúa því að fólk sé almennt þannig gert að það dæmi manneskjuna út frá því hver hún er en ekki hvernig þeim finnst hún eiga að vera.
Kæri lesandi, hvet þig að beina kærleikanum inn á við ekkert síður en til okkar hinna. Stór hluti af því er að vera sáttur í eigin skinni og átta sig á því að um leið og þú tekur sjálfan þig í sátt bregst umhverfið við og býður sáttarhönd á móti. Ef við erum alltaf að senda út þau skilaboð að við séum ekki alveg nógu góð - þá bregst umhverfið gjarnan þannig við okkur eins óréttlátt og það hljómar.

Það er endalaust verið að endurmeta og endurreikna þessa dagana. Hvernig væri að nota árið 2013 í að endurmeta eigið ágæti og sýna sjálfum sér og öðrum meiri kærleika. Jákvætt sjálfsmat og gott sjálfstraust með slatta af kærleika er líklegasta eitt af því mikilvægasta þegar kemur að hamingju og hagsæld heimilanna. Björgum því frá niðurskurðarhnífnum - okkur sjálfum og samfélaginu til heilla.

Langar að nota tækifærið og þakka samfylgdina á árinu um leið og ég óska þér og þínum gleðilegs árs!

Þangað til næst - gangi þér vel!
Anna Lóa
Fylgstu með mér -
http://www.facebook.com/Hamingjuhornid