Gengið á milli Reykjanesvitanna

Uppáhaldsvitar Íslendinga samkvæmt könnun Rögnvaldar Guðmundssonar

Gott er að byrja gönguna við vitann á Bæjarfelli sem var tekinn í notkun árið 1908.
Þaðan er gengin gamall stígur sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið, því var hætt að nota hann og vitinn á Bæjarfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á nýtt). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.  Í fjarska trónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi, þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum, þar verptu geirfuglar fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi.

Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum.

Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

Vitinn á Skarfasetri er góður áningarstaður fyrir göngumóða ferðamenn.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga áleiðis sömu leið til baka, en þegar komið er að Valahnúkamöl taka þá stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli, á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá  sem er að mestu náttúrusmíð og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana.  Í þessari tjörn fengu börn úr nágrenninu tilsögn í sundi. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.

Ákjósanlegt er að taka sér 2-3 klst. til að ganga þennan hring, fara þarf mjög gætilega því víða eru hættur á þessari leið þ.e. laust í öllum brúnum, stórgrýtt og litlar gjár.

Góða ferð
Rannveig L. Garðarsdóttir
Upplýsingamiðstöð Reykjaness

Mynd 1: Karlinn

Mynd 2: Reykjanesviti á Bæjarfelli við sólarlag

Mynd 3: Brimið við Blásíðubás