Garðskagi - Sandgerði

Skemmtileg fjöruganga enda svæðið þekkt fyrir fuglalíf. Einkum er vor og haust góður tími til fuglaskoðunar, þegar margir farfuglar eru á leið til eða frá norðlægari slóðum. Á leiðinni milli Garðskaga og Sandgerðis eru margir áhugaverðir staðir að skoða. Gott er að byrja á að skoða Byggðasafnið á Garðskaga sem er staðsett á svæðinu við vitana og skoða síðan gamla vitann á Garðskaga sem var byggður árið 1897 (nánari upplýsingar um vitann má finna í Ferðahandbók Víkurfrétta um Reykjanesið 2005).

Á fjörugöngu er nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma því ýmislegt áhugavert ber fyrir augu bæði fyrir unga sem aldna. Gengið er framhjá Hafurbjarnarstöðum, en þar hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem er talinn vera einn merkasti fornleifafundur Íslandssögunnar, dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á kumlateignum árið 1947. Í teignum voru sjö eða átta manna bein auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt og er til sýnis í Þjóðminjasafni Íslands.

Þegar komið er að Kirkjubóls-golfvellinum í Sandgerði sem er góður 9 holu völlur er gengið fram hjá  Kirkjubóli en þar gerðust afdrifaríkir atburðir á miðöldum. Árið 1433 brenndu sveinar Jóns Gerrekssonar biskups bæinn í hefndarskyni fyrir hryggbrot (sjá www.reykjanesbaer/bokasafn.is/þjóðsögur).

Árið 1551 gerðu stuðningsmenn Jóns Arasona aðför að Kristjáni skrifara, er hann var staddur á Kirkjubóli, og drápu hann og menn hans, en Kristján hafði árið áður ákveðið að Jón Arason skyldi hálshöggvinn.

Þegar gengið er með fjörunni má víða sjá gamlar tóftir og gömul býli  sem eiga sér merka sögu og gaman er að gera sér í hugarlund hvernig lífið gekk fyrir sig á þessum bæjum á fyrri öldum. 

Á bænum Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.
Skemmtilegt er að enda gönguna á að skoða Fræðasetrið í Sandgerði þar er hægt að skoða lífríki fjörunnar bæði með berum augum og einnig í gegn um smásjár og önnur tæki.  

Leiðin frá Garðskaga til Sandgerðis er 5 km löng. Gott er að taka 2-3 klst í gönguna, nauðsynlegt er að hafa með sér gott nesti, vatnsbrúsa, ílát fyrir skeljar og kuðunga og hlífðarfatnað þrátt fyrir gott veður og veðurspá.

Heimildir www.sandgerdi.is

Rannveig Lilja Garðarsdóttir
Upplýsingamiðstöð Reykjaness
Hafnargata 57, 230 Reykajnesbær 
reykjanes@reykjanesbaer.is

Mynd 1: Minni Garðskagavitinn í norðurljósadansi

Mynd 2: Fræðasetrið í Sandgerði