Arnarfell

Það er tiltölulega létt að ganga frá Krýsuvíkurkirkju áleiðs að Arnarfelli. Það er hægt að fara yfir Vestarilæk við eyðibýlið Læk sem stendur austan lækjarins á móts við kirkjutraðirnar. Vestarilæk er fylgt að gömlum  túngarði úr grjóti og torfi sem liggur frá Krýsuvíkurkirkju að fellinu. Einnig er hægt að hefja gönguna við bílastæði skátasvæðisins. Þá er farið um tún Suðurkots rétt suðaustan Ræningjahóls, en nafn hólsins tengist Tyrkjarnáninu og þjóðsögu af sjóræningjum sem reyndu að gera Krýsvíkingum skráveifu sumarið 1627 en enduðu með að fella hvern annan. Farið er yfir Vestarilæk á vaði og gengið með hlöðnum túngarði sem liggur milli Bæjarfells og heimatúns Arnarfells. Undir suðurhlíð fellsins eru tóftir Arnarfells bæjarins sem eru á formninjaskrá. Þar bjó einna síðastur Beinteinn Stefánsson ásamt seinni konu sinni Guðrúnu Eíríksdóttur og börnum þeirra. Beinteinn var hagleiksmaður og kunnur smiður sem byggði mörg hús þ.á.m. Krýsuvíkurkirkju 1857. Það eru til nokkrar skráðar sögur af Beinteini og atferli hans, m.a. frásögn af átökum hans og draugsins Tanga-Tómasar.


Þegar búið er að skoða heimatún og minjarnar umhverifs Arnarfellsbæinn er kjörið að ganga kringum Arnarfell, horfa yfir Bleiksmýrina sem að hluta var ræst fram um miðja 20. öldina og hugsa til þeirra mörg hundruð vermanna sem tjölduðu í mýrinni á leið sinni til og frá veri. Þarna var eitt sinn á ferli draugurinn Arnarfells-Labbi sem gerði mönnum og skepnum gramt í geði. Draugurinn var á endanum kveðinn niður og hefur lítið til hans spurst síðan. Þeir sem kjósa lengri göngu geta farið út að Arnarfellstjörn og haldið síðan suður að Trygghólum. Það er kjörið að ganga upp á hólana og litast um eða ganga kringum þá og taka síðan stefnuna á Arnarfellsréttina sem er nokkurnvegin miðja vegu á milli Trygghóla og Arnarfells. Víða á þessum slóðum eru margvíslegar fornleifar og tóftir sem minna á hversu merkur staður Krýsuvík og allt umhverfi þessa forna höfuðbóls er.  


Það er tiltölulega auðvelt að gagna á Arnarfellið upp vesturöxl þess. Ef sú leið er valin er mælt með því að skoða í leiðinni gamlan hellisskúta með stekk fyrir framan sem er á öxlinni. Fellið er einnig auðvelt uppgöngu annarsstaðar og flestar leiðir færar þó þær séu aðeins á fótinn og reyni örlítið meira á. Í austanverðu fellinu er fornt arnarhreiður sem sumir telja að Arnarfell dragi nafn sitt af. Aðrir sjá móta fyrir erni þegar horft er á fellið frá hlaði Krýsuvíkurbæjarins og Krýsuvíkurkirkju og telja líklegra að nafnið sé dregið af lögun fellsins. Það hafa hvorir tveggja nokkuð til síns máls því ernir urpu áður í fellinu og fellið er eins og stórt arnarhöfuð.

 

Það ætti enginn að sleppa því að klífa Arnarfell sem er um 193 m hátt. Þegar komið er upp blasir Eiríksvarða við, en hún er kennd við séra Eirík Magnússon sem fékk Selvogsþing 1677 og bjó í Vogsósum. Hann var þekktur fyrir fjölkyngi sína eins og lesa má um í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Munnmæli herma að séra Eiríkur hafi hlaðið vörðuna á seinni hluta 17. aldar og lagt svo á að erlendir sjóræningjar og vígamenn muni ekki ráðast á Krýsuvík og Krýsvíkinga á meðan varðan stendur óröskuð.

 

Útsýni er gott til allra átta af Arnarfelli. Í suðri sést yfir Krýsuvíkurheiði sem endar í Krýsuvíkurbergi þar sem víðáttur Atlantshafsins og sjóndeildarhringurinn taka við. Ef vel viðrar er hægt að sjá í áttina að Festarfjalli og Ísólfsskála en langt úti í hafi rís Eldey í vestri. Þegar horft er inn til landsins teygir Sveifluhálsinn sig inn eftir Reykjanesinu með misháum móbergshnúkum sínum og tindum. Til norðurs er horft í áttina að Kleifarvatni og Vatnshlíð, en ofan hennar rísa Brennisteinsfjöll og Kistufell við himinn. Til norðausturs sér til Geitahlíðar og Eldborganna og enn austar sést í Selvogsheiði og Suðurlandið.

Ef farið vestur Ísólfsskálaveg í áttina að Krýsvíkur Mælifelli, liggur slóði þaðan í suður meðfram Ögmundarhrauni. Miðja vegu milli vegarins og sjávar er ruddur hestaslóði í gegnum Ögmundahraun að Húshólma. Þar má skoða tóftir og vegghleðslur sem talið er að tilheyri gamla Krýsvíkurbænum og kirkjunni sem þar á að hafa staðið.

Hægt er að halda áfram í vesturátt eftir illfærum stíg í gegnum hraunið sem liggur að Selatöngum, eða ganga Miðreka til austurs meðfram klettaströndinni í áttina að Krýsuvíkurbergi. Þetta er ákaflega falleg leið með fjölbreyttum jarðmyndunum, en heldur torfarin á kafla.

Fyrir þá sem vilja fara í lengri göngu er mælt með því að ganga með Vestarilæk niður á Krýsuvíkurberg en það er um 5 km leið. Þar er hægt að velja sér að ganga í áttina að Húshólma til vesturs eða fylgja berginu til austurs um 7 km leið að Keflavík og Bergsendum. Ef þessi leið er gengin að vori, þegar fuglalífið í berginu er sem mest, er rétt að ætla sér allan daginn í ferðina. Síðan er hægt að fylgja vesturbrún Litlahrauns upp að Selvogsvegi, eða taka stefnuna í áttina að Bleiksmýri og síðan að kirkjunni á nýjan leik. Það er hægt að stytta ferðina um helming með því að taka stefnuna á nýjan leik við ljósvitann á Krýsuvíkurbergi og fylgja Eystrilæk í áttina að Arnarfelli.

 

Það er einnig hægt að fylgja bílslóðanum frá Krýsuvíkurkirkju niður á Krýsuvíkurberg. Þegar komið er að tóftum eyðibýlisns Fitja á Krýsuvíkurheiði eru fallegir móbergsklettar sem nefnast Strákar. Þar eru fjárhúshleðslur og þegar gengið er lengra í áttina að hæðaröldu sem nefnist Selalda eru fleiri minjar. Austan undir Selöldu eru tóftir býlisins Eyri, seltóftir og fleiri mannvistarminjar. Þarna er margt að sjá ef vel er rýnt í landið því þessar gömlu tóftir láta fremur lítið yfir sér við fyrstu sýn. 


Í góðu skyggni er frábært að ganga á Geitahlíð, 385 m eldfjall með gígnum Æsubúðum sem rís hæst. Auðveldast er að ganga upp Hvítskeggshvamm nærri Stóru Eldborg sunnavert í Geitahlíð. Vestan Geitahlíðar eru fallegir hamrar sem nefnast Vegghamrar sem áhugavert er að skoða nánar. Innar eru Kálfadalir með merkum hraunmyndunum. Einnig er hægt að ganga frá gömlu Krýsuvíkurréttinni niður með hrauninu í áttina að Krýsuvíkurbergi og koma við í Gvendarhelli, gömlum fjárhelli með fallegri tóft fyrir framan.

Texti: Jónatan Garðarsson