Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Ungmenni þurfa að skilja hvað það er mikilvægt að hafa góða bæjarstjórn“
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 22. maí 2022 kl. 19:57

„Ungmenni þurfa að skilja hvað það er mikilvægt að hafa góða bæjarstjórn“

Hvað segja ungir frambjóðendur í Reykjanesbæ að afloknum sveitarstjórnarkosningum?

Þórarinn Darri Ólafsson:

„Fyrir það fyrsta þá held ég að það mætti fjölga kjörstöðum innan bæjarfélagsins og svo held ég að ungt fólk fatti ekki hvað þetta er mikilvægt og kemur þeim mjög mikið við og taki lýðræði sem sjálfsögðum hlut,“ segir Þórarinn Darri Ólafsson, einn af yngstu frambjóðendunum í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum, þegar hann var spurður út í hvers vegna yngsta fólkið skilaði sér ekki nógu vel á kjörstað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þórarinn Darri skipaði 11. sæti á lista Beinnar leiðar. Hann ákvað að fara í framboð til þess að vera rödd ungs fólks í bænum og vegna breytinga sem hann telur vera þarfar en hvaða breytingar vill hann sjá?

„Sem dæmi finnst mér þurfa fleiri félagsmiðstöðvar í Reykjanesbæ. Þar sem að við erum aðeins með eina slíka. Fyrir þá krakka sem búa til dæmis í Innri-Njarðvík er bara svaka „mission“ að komast í Fjörheima. Einnig þá finnst mér þurfa að bæta fjárhag til menningarmála þar sem okkur vantar húsnæði sem allskonar klúbba starfsemi getur verið í fyrir krakka sem finna sig kannski ekki í íþróttum en vilja fara eitthvert og kynnast öðrum krökkum,“ segir Þórarinn Darri.

Aðspurður hver tilfinning hans væri fyrir þátttöku og kjörsókn ungmenna í Reykjanesbæ segir hann að „margir hafi verið með í umræðunni en mætingin á kjörstað var því miður ekki jafn góð.“ Þórarinn Darri segir ungt fólk taka kosningarétti sem sjálfsögðum hlut en leggur áherslu á að „það að hafa réttinn til að ákveða hver stýri landinu eða bænum er alls ekki sjálfsagt.“

Guðmundur Rúnar Júlíusson:

„Ungmenni þurfa að taka þátt í umræðunni og mæta á kjörstað því þetta hefur áhrif á þau eins og alla aðra. Tilfinning mín er sú að þátttaka ungmenna er því miður ekki nógu góð,“ segir Guðmundur Rúnar Júlíusson en hann var einnig meðal yngstu frambjóðenda í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.

Guðmundur Rúnar skipaði 16. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur áhuga á pólitík og var boðið að vera á lista hjá flokknum. „Það var ekkert annað í stöðunni en að segja já og ég sé alls ekki eftir því. Ég hef lært mikið og kynnst frábæru fólki,“ segir hann.

Guðmundur Rúnar telur ungt fólk ekki gera sér grein fyrir hversu skemmtileg og lærdómsrík pólitík geti verið og hvetur ungt fólk til að kynna sér stefnur flokkanna og mæta á viðburði hjá þeim.

Þá telur hann að kynna þurfi framboðin fyrir ungmennum með áhugaverðum hætti til að vekja áhuga þeirra. „Það þarf einnig að gefa ungu fólki kost á því að hafa áhrif á stefnuskrá flokkanna,“ segir hann og bætir við „ungmenni þurfa að skilja hvað það er mikilvægt að hafa góða bæjarstjórn.“