Fréttir

„Hún poppaði bara út“
Fjölskyldan alsæl Dagmar Rós, Einar Orri og Eiður Emil, stóri bróðir, með nýfædda stúlkubarnið sem hefur ekki fengið nafn ennþá.
Fimmtudagur 10. janúar 2019 kl. 09:13

„Hún poppaði bara út“

Stúlka er fyrsta barn ársins á Suðurnesjum

Nýársbarnið á Suðurnesjum var stúlka sem fæddist 3. janúar á ljósmæðravaktinni hjá HSS klukkan 17:26. Hún vóg 3.878 grömm og var 51 cm við fæðingu. Dagmar Rós Skúladóttir og Einar Orri Einarsson eru foreldrar stúlkubarnsins en fyrir eiga þau son sem heitir Eiður Emil sem er alveg að verða fimm ára.
Dagmar Rós starfar sem flugfreyja hjá Icelandair og Einar Orri er yfirmaður tjónamála hjá Blue Car Rental. Þau búa í Innri Njarðvík og kunna vel við sig þar.
 
Hún poppaði bara út!
„Ég og vinkona mín fórum í fimm kílómetra göngutúr kvöldið fyrir fæðingu því ég var komin sex daga framyfir. Við vorum svona að reyna að koma af stað fæðingu. Eftir kvöldgönguna fór ég á ljósmæðravaktina og fékk nálarstungur hjá þeim. Um morguninn klukkan átta byrjaði ég að finna fyrir verkjum og fór aftur á fæðingardeildina. Fæðingin sjálf gekk hratt fyrir sig, ég var nýkomin ofan í baðkarið og framundan var vatnsfæðing en tuttugu mínútum seinna poppaði hún bara út. Þetta gekk miklu betur heldur en með fyrsta barnið okkar. Ég var líka mun rólegri núna í þessari fæðingu, var öruggari með mig,“ segir Dagmar Rós og er hamingjan uppmáluð og þau bæði, Einar Orri og hún. Stóri bróðir kemur heim rétt í þessu úr leikskólanum með ömmu sinni, heilsar blaðamanni og fer svo strax í sófann til mömmu og litlu systur. Hann fær sér sótthreinsivökva í lófana áður en hann snertir þá litlu og pabbi hans hefur orð á því að Eiður Emil sé sprittlöggan á heimilinu núna og passar að allir fái sér skvettu í lófann áður en þeir snerta litlu systur hans. 
 
Yndislegar ljósmæður
Þau hrósa bæði ljósmæðrum og aðstöðunni á fæðingardeild HSS. Þau gistu eina nótt á deildinni og sögðu það hafa verið mjög notalegt. Dagmar Rós hélt sér í góðu formi alla meðgönguna og segir það skila sér. Hún æfði meðgöngujóga með fyrsta barnið og kíkti í jógatíma hjá Möggu Knúts undir lokin á þessari meðgöngu, sem var mjög gott. „Öndunin sem við lærum í meðgöngujóga er frábær undirbúningur fyrir fæðingu,“ segir Dagmar Rós og hvetur verðandi mæður til að fara í meðgöngujóga til að læra að slaka vel á. 
 
Eiður Emil horfir með aðdáun á litlu systur sem opnar örlítið augun. „Sjáðu hún var að horfa á mig,“ segir hann stoltur og brosir til mömmu sinnar. 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024