Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Á svona stundu eru allir sigurvegarar“
Sunnudagur 12. júní 2022 kl. 08:20

„Á svona stundu eru allir sigurvegarar“

Á föstudaginn 27. maí síðastliðinn fór fram hátíðleg athöfn í húsnæði Keilis á Ásbrú í tilefni útskriftar hjá fyrsta nemendahóp Menntaskólans á Ásbrú (MÁ). Menntaskólinn á Ásbrú útskrifaði 21 nemanda og hafa nú 4340 einstaklingar útskrifast úr námi frá skólum Keilis.

Í upphafi athafnar var tónlistaratriði þar sem Guðjón Steinn Skúlason spilaði á saxófón og Alexander Grybos spilaði á gítar. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ræðu og leiddi athöfnina. Ingibjörg Lilja Guðmundsdóttir, kennari MÁ, flutti einnig hátíðarræðu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ingigerður Sæmundsdóttir, forstöðumaður MÁ, ávarpaði gesti og afhenti útskriftarskírteini og viðurkenningarskjöl til allra nýstúdenta ásamt Skúla Frey Brynjólfssyni. En þess má geta að starfsfólk Menntaskólans hittist nokkrum dögum fyrir útskrift og skrifaði falleg orð og hvatningu til hvers og eins nemanda sem var afhent með prófskírteininu. Allir nýstúdentar dagsins fengu einnig blóm frá Keili.

Viktoría Rós Wagner var verðlaunuð fyrir framúrskarandi námsárangur með 9,67 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Keili. Stefán Ingi Víðisson fékk menntaverðlaun HÍ fyrir félagsstörf, þrautseigju og framúrskarandi námsárangur og fékk hann 20.000 kr. gjafabréf í bóksölu stúdenta og endurgreiðslu á skólagjöldum Í HÍ.

Í lok athafnar flutti Brimar Jörvi Guðmundsson útskriftarræðu fyrir hönd nemenda og Helgi Rafn Guðmundsson, kennari MÁ, ávarpaði einnig útskriftarhópinn.

„Það er gríðarlegur heiður að fá að taka þátt í útskrift fyrsta nemendahóps Menntaskólans á Ásbrú og erum við ótrúlega stolt af þessum glæsilega hóp. Athöfnin var mjög hátíðleg og var dásamlegt að geta boðið aðstandendum að samfagna með börnum sínum á þessum fallega degi án fjöldatakmarkana vegna Covid. Ég held að hver og einn hafi notið stundarinnar og vil ég þakka þeim sem sáu sér fært að vera með okkur í dag fyrir komuna og nýstúdentum óska ég velfarnaðar. Á svona stundu eru allir sigurvegarar“ hafði Ingigerður að segja eftir athöfnina.

Menntaskólinn á Ásbrú er einn af fjórum skólum Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs. MÁ hefur frá árinu 2019 boðið nemendum að stunda nám á metnaðarfullri stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Námið byggir á hagnýtum verkefnum og sterkum tengslum við atvinnulífið. Lagt er áherslu á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Námsframboð í MÁ er í stöðugri þróun, en í dag er þar einnig starfrækt fjarnámshlaðborð með stökum framhaldsskólaáföngum sem kenndir eru í fjarnámi.