Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ylsjávarleikjagarður á Reykjanesi?
Fimmtudagur 3. mars 2005 kl. 13:52

Ylsjávarleikjagarður á Reykjanesi?

Fljótasiglingar og ylsjávarleikjagarður gætu orðið að veruleika hér á Reykjanesi en þetta kom meðal annars fram á ferðamálaráðstefnu sem haldin var í Eldborg í Svartsengi síðastliðinn föstudag. Fram kom einnig að ímynd Grindavíkurbæjar sé sú sterkasta af öllum bæjarfélögunum á Suðurnesjum en Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja, telur nauðsynlegt að sameina kynningar- og markaðsmál Reykjanessins.
Kristján Pálsson telur nauðsynlegt fyrir Suðurnesin að skýra ímynd sína betur en áður hefur verið gert. „Mér líst vel á þá hugmynd sem sett hefur verið fram að einn aðili sjái um kynningu og markaðssetningu Suðurnesja," sagði Kristján en hann var ánægður með hvernig ráðstefnan tókst til. „Það var góð mæting á ráðstefnuna og það er mikil gróska í ferðamálum á Suðurnesjum og margar hugmyndanna sem fram komu á ráðstefnunni voru alveg magnaðar og sér í lagi þær sem Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, setti fram. Eftir um tvö ár verða ylár rennandi frá Reykjanesvirkjun með allskonar fossum og flúðum og þá er jafnvel tilefni til þess að vera þar með brimbrettaiðkun en kunningi minn frá Bandaríkjunum sagði mér að hvergi væri eins gaman og að stunda þá íþrótt en einmitt hér á landi." Aðspurður svaraði Kristján því að þingmennska og brimbrettaíþróttin gætu vel farið saman.

Alberts þáttur Albertssonar
Vinna er hafin að fullu við Reykjanesvirkjun og á ráðstefnunni kynnti Albert Albertsson margar skemmtilegar hugmyndir til sögunnar tengdar virkjuninni. Í náinni framtíð mun ferðafólki á ferð um Reykjanesið gefast kostur á því að kynna sér starfsemi Reykjanesvirkjunar í aðstöðu sem Albert nefnir fræðslu-ferðamannaaðstöðu. Í þessari aðstöðu byðist gestum að kynnast virkjuninni í miklu návígi með því að fara sjálfir um stöðvarhúsið undir leiðsögn. Albert nefndi fleira fáheyrt á ráðstefnunni og meðal annars greindi hann frá því að til þess að kæla orkuver Reykjanesvirkjunar þarf 4000 sekúndulítra af sjó en það jafnar næstum því meðalrennsli Elliðaánna. Sjórinn rynni síðan 32 gráðu heitur til sjávar. Vakti Albert máls á því að þennan 32 gráðu heita sjó mætti til að mynda starfrækja til þess að koma á laggirnar ylsjávarleikjagarði eða jafnvel rækta þar hlýsjávarfiska. Hann tekur þó fram að Hitaveitan hyggi ekki á þau ráð að fara út í ferðaþjónustu.
Um níutíu manns mættu á ráðstefnuna í Svartsengi og fengu þar fróðlegar upplýsingar um stöðu Reykjanessins í ferðamálum. Mikla athygli vakti erindi Rögnvaldar Guðmundssonar, framkvæmdastjóra hjá Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar, en í erindi sínu kynnti hann niðurstöður viðhorfskönnunar sem gerð var á meðal fagfólks í ferðaþjónustu. Í ljós kom að ímynd Grindavíkurbæjar virðist vera hvað skýrust af öllum þéttbýlisstöðunum á Suðurnesjum. Aðspurðir nefndu Saltfisksetrið, öflugt íþróttalíf og höfnina þegar þeir voru spurðir um Grindavík en áttu erfiðara um vik að nefna eitthvað markvert þegar þau voru spurð um önnur bæjarfélög á Suðurnesjum.
Í skýrslu þeirri er Rögnvaldur greindi frá í erindi sínu kemur m.a. fram að auglýsa þurfi betur gönguleiðir í friðlandinu og möguleika á silungaveiði. Gera meira úr mannlífi og sögu svæðisins því það gæti verið aðlaðandi og áhrifaríkt fyrir ferðafólk en kæmist vart með tærnar þar sem Bláa lónið hefur hælana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024